Ný kosningaspá sýnir að fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að minnka og mælist nú 8,5 prósent á landsvísu. Fylgi flokksins hefur ekki verið minna í kosningaspánni á þessu ári en til samanburðar má benda á að flokkurinn hlaut 24,4 prósent atkvæða í alþingiskosningunum í apríl 2013. Hæst mældist Framsókn með 12,3 prósent fylgi 1. apríl en eins og Kjarninn hefur greint frá fór fylgi stjórnmálaflokka á flug eftir að hulunni var svipt af Panamaskjölunum í byrjun apríl.
Sjálfstæðisflokkurinn myndi hljóta mest fylgi allra framboða ef kosið yrði nú, samkvæmt kosningaspánni, eða 29,4 prósent atkvæða. Það er, ólíkt samstarfsflokknum í ríkisstjórn, það mesta sem sjálfstæðismenn hafa mælst með á þessu ári. Flokkurinn hlaut 26,7 prósent atkvæða í alþingiskosningunum 2013.
Píratar höfðu stöðugt mælst stærsta framboðið fyrstu þrjá mánuði ársins en eru nú næst stærstir á eftir Sjálfstæðisflokknum. Fylgi við Pírata hóf að hrapa eftir að ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við 7. apríl; hefur farið úr 36,7 prósentum í 28,3 prósent í nýjustu kosningaspánni sem gerð var í gær, 26. maí.
Vinstri græn hafa einnig vaxið mikið í kjölfar afhjúpunar Panamaskjalanna. Sá flokkur er, ásamt Sjálfstæðisflokki, sá eini sem vex í nýjustu kosningaspánni. Vinstri græn mælast nú með 17,6 prósent fylgi. Það er átta prósentustigum meira en flokkurinn mældist með um miðjan mars þegar það var 9,5 prósent.
Gengi Samfylkingarinnar er ekki gott samkvæmt nýjustu kosningaspánni. Flokkurinn mælist nú með 7,9 prósent fylgi. Engar stórar sveiflur er að finna ef rýnt er í niðurstöður kosningaspárinnar frá áramótum. Þann 20. janúar var Samfylkingin á pari með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum með 10,4 prósent fylgi. Síðan hefur fylgið minnkað nær stöðug í þau tólf skipti sem kosningaspáin hefur verið gerð á þessu ári.
Í ljósi slaks fylgis Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum var ákveðið að flýta landsfundi flokksins til 4. júní næstkomandi og kjósa þar nýja forystu. Árni Páll Árnason, sitjandi formaður flokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram. Fjórir hafa gefið kost á sér í það embætti. Árni Páll tók við formennsku árið 2013 af Jóhönnu Sigurðardóttur og leiddi flokkinn í síðustu kosningum. Þær reyndust slæm útreið fyrir flokkinn sem hlaut aðeins 12,9 prósent atkvæða miðað við 29,8 prósent í kosningunum 2009 og setu í ríkisstjórn í heilt kjörtímabil.
Önnur framboð mundu fá minna en fjögur prósent atkvæða samkvæmt nýjustu kosningaspá. Dregið hefur saman með Bjartri framtíð og Viðreisn sem mælast nú með svipað mikið fylgi. Björt framtíð myndi fá 3,7 prósent atkvæða og Viðreisn 3,2 prósent. Dögun mælist með tæpt eitt prósent fylgi og Alþýðufylkingin með hálft prósent. Ætla má að um fimm prósent atkvæða á landsvísu þurfi til að ná kjöri á Alþingi.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er gerð fyrir Alþingiskosningar sem boðaðar hafa verið í haust. Baldur hefur útbúið spálíkan sem vigtar kannanir sem gerðar eru á fylgi stjórnmálaflokka eftir áreiðanleika. Sama líkan var notað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 fyrir fylgi framboða í Reykjavík og niðurstaðan birt á vef Kjarnans og á vefnum kosningaspá.is. Í nýjustu kosningaspánni eru nýjustu kannanirnar vegnar:
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 24,3%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 17. maí (vægi 20,9%)
- Skoðanakannanir Fréttablaðsins 9. maí (vægi 14,7%) og 2. til 3. maí (vægi 11,2%)
- Þjóðarpúls Gallup 14. til 28. apríl (vægi 16,8%)
- Skoðanakönnun MMR 22. til 26. apríl (vægi 12,1%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.