Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi samkvæmt nýjustu kosningaspánni sem gerð var í morgun. Píratar halda áfram að tapa fylgi eftir að hafa mælst stærsti flokkur landsins frá áramótum þar til um miðjan síðasta mánuð. Stuðningur við Sjálfstæðsflokkinn mælist nú 29,1 prósent og stuðningur við Pírata 27,5 prósent. Mest hefur stuðningur við Pírata mælst 36,7 prósent í kosningaspánni frá áramótum.
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn nú er á pari við síðustu kosningaspár en síðan 7. apríl, þegar fylgið var í mestri lægð í 22 prósentum, hefur fylgi flokksins aukist nær stöðugt. Til samanburðar hefur stuðningur við Framsóknarflokkinn, samstarfsflokk Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, minnkað og hefur ekki mælst yfir 10,1 prósent í kosningaspánni síðan 1. apríl. Framsóknarflokkurinn er fjórða stærsta framboðið í nýjustu kosningaspánni með 9 prósent fylgi. Samanlagt mælast stjórnarflokkarnir með 38,1 prósent kjósenda.
Vinstri græn eru sem fyrr þriðja stærsta framboðið í kosnignaspánni og hlyti 17,6 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Flokkurinn er sá stjórnarandstöðuflokkur sem kjósendur hafa helst leitað til eftir uppljóstranir úr Panamaskjölunum og eflaust sótt aukið fylgi til þeirra sem áður sögðust ætla að kjósa Pírata eða Framsóknarflokkinn.
Samfylkingin minnkar enn og nýtur nú stuðnings 7,6 prósent kjósenda. Fylgi við Samfylkinguna hefur ekki verið meira en 10 prósent síðan í janúar. Um komandi helgi mun flokkurinn kjósa sér nýja forystu. Árni Páll Árnason, sitjandi formaður, ætlar ekki að gefa kost á sér til forystustarfa í flokknum áfram en hann tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013 um það leiti sem Jóhanna var að láta af embætti forsætisráðherra.
Viðreisn mælist nú í fyrsta sinn stærri en Björt framtíð. Í síðustu kosningaspám hefur dregið mikið saman með þessum framboðum og þau mælst svipað stór. Stuðningur við Viðreisn mælist nú 4,1 prósent en Björt framtíð fengi 3,8 prósent atkvæða ef kosið yrði nú. Þessi tvö framboð eru eins og stendur á mörkum þess að hafa nægjanlegt fylgi til að ná manni á þing. Ætla má að flokkur þurfi að fá um fimm prósent atkvæða á landsvísu til að ná kjöri. Erfitt er hins vegar að fjölyrða um slíkt því eitt framboð gæti verið að sækja meiri stuðning í eitt kjördæmi umfram önnur. Enn er ekki farið að kanna stuðning innan hvers kjördæmis fyrir sig.
Vikmörk
Í nýjustu kosningaspánni voru vikmörk reiknuð við fylgi hvers framboðs. Þeim mun meira fylgi sem hvert framboð mælist með þeim mun hærri eru vikmörkin. Skekkjumörk við fylgi Sjálfstæðisflokks og Pírata eru +/- 1,9 prósentustig. Vikmörk við fylgi Vinstri grænna eru +/- 1,6 prósentustig.
Framsóknarflokkurinn nýtur 9 prósenta fylgis í kosningaspánni með vikmörkunum +/- 1,2 prósentustig. Samfylkingin mælist með 7,6 prósent fylgi með vikmörkunum +/- 1,1 prósentustig. Vikmörkin við fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru +/- 0,8 prósentustig.
Dögun og Alþýðufylkingin myndu hljóta minna en eitt prósent atkvæða í kosningum ef kosið yrði nú, samkvæmt nýjustu kosningaspánni. Dögun mælist með 0,8 prósent fylgi og Alþýðufylkingin með 0,3 prósent. Önnur framboð mælast með 0,2 prósent stuðning. Vikmörk kosningaspárinnar fyrir þessi framboð eru hins vegar jafn stór og þau mælast með. Þannig eru vikmörk Dögunnar +/- 0,8 prósent og Alþýðufylkingarinnar +/- 0,3 prósent.
Um nýjustu kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin er byggð á fyrirliggjandi könnunum á fylgi stjórnmálaflokka og framboða til Alþingis. Þar eru niðurstöður þriggja nýjustu kannanna vegnar. Nýjasti þjóðarpúls Gallup vegur þar óvenju þungt og hlýtur meira en helmings vægi í spánni. Ástæða þess er hversu fjölmenn sú könnun var. Alls tóku rúmlega 4.000 manns afstöðu til spurninganna sem lagar voru fyrir í könnuninni. Þá var könnunin gerð yfir tveggja vikna tímabil. Hægt er að lesa nánar um framkvæmd kosningaspárinnar hér. Vægi kannana í nýjustu kosningaspánni 1. júní er sem hér segir:
- Þjóðarpúls Gallup 14. til 28. apríl (vægi 54,1%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 23,5%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 12. til 13. maí (vægi 22,4%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.