„Gandálfur er minn guð“

Jón Ingvar Kjaran, lektor við Menntavísindasvið HÍ skrifar um samkynhneigða aðgerðasinna frá Íran og upplifun sína.

íran
Auglýsing

Síð­ast­lið­inn febr­úar voru 37 ár síð­an Aya­tollah Khomeini kom aftur til Írans úr útlegð sinni frá Par­ís. Þar með urðu vatna­skil í stjórn­málum Írans og stuttu síðar var íslamskt lýð­veldi stofn­að. Síðan þá hafa miklar breyt­ingar orðið á írönsku sam­fé­lagi, jafnt inn­an­lands en einnig í sam­skiptum lands­ins við erlend ríki. Segja má að í dag sé mikil gerjun í írönsku sam­fé­lagi og ýmsir hópar eru farnir að kalla á aukin rétt­indi og við­ur­kenn­ingu af hálfu stjórn­valda, þar á meðal sam­kyn­hneigð­ir. Enn í dag eru þeir sam­kvæmt lag­anna bók­staf rétt­dræp­ir. Í þess­ari grein verður fjallað um Ramtin og Far­hod. Þeir eru báðir íranskir hommar en jafn­framt aðgerða­sinnar, eða „akti­vistar“, sem barist hafa fyrir breyt­ingum og þurft að gjalda fyrir það með frelsi sín­u. Ramtin flúði að lokum land og þjóð og býr núna í Íst­an­búl, en sú borg hefur orðið griða­staður sam­kyn­hneigðra flótta­manna víðs vegar frá Mið­aust­ur­lönd­um, eins og rætt var um í grein sem birt­ist í Kjarn­anum fyrir um hálfu ári. Far­hod aftur móti er enn búsettur í Tehran en hefur í hyggju að flýja land. 

Ég hitti Ramtin fyrir fram­an Burger King, nálægt Taksim torgi í Íst­an­búl, síð­su­m­ar­kvöld fyrir um ári síð­an. Ég var kom­inn eitt­hvað á undan og á meðan ég beið eftir honum horfði ég á fólks­mergð­ina streyma nið­ur Istikal­götu, helstu versl­un­ar­götu hverf­is­ins. Svo mætti hann og þekkti ég hann um leið. Hann er brosmild­ur, hávax­inn og grann­ur, með tvo eyrna­lokka í vinstra eyra. Þegar ég spurði hann út eyrna­lokk­ana sagði hann að móðir hans hefði gefið honum annan þeirra. Bætti hann svo við: „Föð­ur­fjöl­skyldan mín skilur ekk­ert í þessu með eyrna­lokk­ana og kallar mig konu því ein­ungis konur bera skart­gripi.“ Við­horf föð­ur­fjöl­skyldu Ramt­ins eru í sam­ræmi við ríkj­andi við­horf stjórn­valda í Íran sem krefj­ast þess að bæði kynin klæði sig hóf­sam­lega og á hefð­bundin hátt í sam­ræmi við þeirra kyn­gervi. Hvers kyns frá­vik á borð við eyrna­lokka eða þröngar galla­buxur í til­felli pilta, vara­litur eða lit­ríkur fatn­aður hjá stúlk­um, getur gefið til­efni til þess að vera stopp­aður og ávíttur af sið­gæð­is­lög­regl­unni. Írönsk ung­menni eru hins vegar í auknum mæli farin að storka stjórn­völdum með því að klæða sig upp á vest­ræna vísu; eitt­hvað sem að mati stjórn­valda sam­ræm­ist ekki íslömskum gild­um. Í sam­kvæmum í heima­húsum og í „neð­an­jarð­ar­“ partýj­u­m ­sleppa ung­mennin svo fram af sér beisl­inu og upp­lifa algjört frelsi í klæða­burði og sam­skiptum við hitt kyn­ið. 

Í Tehran var mér boðið í „hommapartý“ og sá ég þar hvernig gestir klæddu sig öðru­vísi innan veggja einka­rým­is­ins, heldur en dags­dag­lega. Ég ræddi meðal ann­ars við Manz­iar sem sagð­ist vera trú­aður múslimi, sinnti bæna­kalli og fastaði í Rama­dan mán­uði. Hann bar hins vegar eyrna­lokk og þegar ég spurði hann út í það sagði hann: „Þetta er seg­ull, ekki gat. Karl­menn í Íran geta ekki haft gat í eyra, alla­vega ekki ef þeir ætla að falla að normi sam­fé­lags­ins. Þú lendir í vand­ræðum fyrr eða síð­ar“.

Auglýsing

Ramtin hóf sögu sína þegar við sett­umst niður við Galatasarai turn­inn. Frá­sögnin tók á hann og sá ég tár mynd­ast í hvörmum hans. Hann er 26 ára og á rætur að rekja til Tabriz í Norð­ur­-Íran, svæði sem til­heyrir íranska hluta Azer­bai­jdan. Föð­ur­fjöl­skylda hans er mjög trúuð og leggur áherslu á hefð­bundin gildi að hans sögn. Eftir að hann kom út úr skápnum hafn­aði hún honum og upp­lifði hann stöðugt ofbeldi af þeirra hálfu, aðal­lega and­legt: „Þau segja að sam­kyn­hneigð sé sjúk­dóm­ur.“  Í Íran er hin opin­bera orð­ræða einmitt í þá veru: sam­kyn­hneigð er sjúk­dómur sem á rætur að rekja til Vest­ur­landa. Það þurfi því að upp­ræta þessa „plágu“ með öllum til­tækum ráð­um. Móð­ir Ramt­ins var hins vegar hans stoð og stytta á meðan hún lifði og reyndi að skilja hann. „Hún var sú eina sem skildi mig og elskaði mig,“ sagði Ramtin og tók ég eftir að tár brut­ust fram hjá hon­um. Eftir að hún dó fyrir um ári síð­an, voru fáir eftir sem hann gat reitt sig á og það var líka þá sem hann fór að hugsa um að flýja land. 

 Ramtin rekur andúð föð­ur­fjöl­skyld­unnar í sinn garð til trú­ar­bragða og þess áróður sem stjórn­völd hafa uppi um sam­kyn­hneigð: „Þetta eru fas­istar, klerk­arnir sem predika gegn fólki eins og mér og svo örygg­is­sveitir rík­is­ins og sið­gæð­is­lög­reglan sem gerir allt til að koma höggi á okk­ur, allt saman auð­vitað í nafni trú­ar­inn­ar.“ Sama sagði hann um núver­andi stjórn­völd í Tyrk­landi sem væru inn­blásin af trú­ar­eld­móð þar sem marg­breyti­leiki, einkum á grund­velli kyn­hneigðar og kyn­gerv­is, hefði ekk­ert rými. Minnt­ist hann þess er gleði­gangan var brotin á bak aftur í júní 2015. Lenti hann sjálfur í táraga­sárás lög­reglu og varð fyrir kylfu­höggum lög­reglu­sveita rík­is­ins. En segja má að mót­lætið hafi styrkt hann og gert hann ákveðn­ari í því að streit­ast á mót­i. Hann skil­greinir sig því sem „gay akti­vista“:„Í Íran klæddi ég mig oft á ögrandi hátt, ekki í sam­ræmi við norm­ið, og lenti oft í sið­gæð­is­lög­regl­unni. Ég var líka með­limur í litlum hóp akti­vista sem vildi reyna að ögra og storka yfir­völd­um. Eitt sinn flagg­aði ég regn­boga­fán­anum rétt utan við Tehran og við tókum mynd­band og settum á net­ið.“

Eftir það breytt­ist allt sam­an. Hann og vinir hans voru hand­teknir og sátu í fang­elsi um tíma. Eftir að þeim var sleppt ákváðu þeir að slíta öll tengsl þar sem þeir voru hræddir um að fylgst væri með þeim og að símar væru hlerað­ir. Þetta urðu líka ákveðin vatna­skil í lífi Ramt­ins: „Ég ákvað að yfir­gefa Íran. Það var ekk­ert sem hélt mér lengur í Íran.“  Hann sótti því um vega­bréf og svo­kall­aða und­an­þágu frá her­skyldu en hana fá þeir sem skil­greindir eru „sjúkir“ í Íran. Í hans til­felli var sam­kyn­hneigð vísun á sjúk­dóm. Leiðin lá síðan til Tyrk­lands þar sem hann fékk stöð­u flótta­manns ­fyrir um ári síð­an. Hann býr  þar með öðrum írönskum hommum sem flúið hafa land og þreytir þorr­ann og góuna  ­með pen­inga­send­ingum frá móð­ur­fjöl­skyld­unni og illra borg­aðri íhlaupa­vinn­u. Ramtin er hins vegar von­góður og bjart­sýnn. Hann eygir von um að kom­ast að lokum til Evr­ópu eða Kanada þar sem hann getur verið hann sjálfur án þess að þurfa fela sig eða verða fyrir aðkasti. „Þar ríkir frelsi, þar er hægt að trúa á hvað sem er. Gandálfur er minn guð,“ sagði Ramtin að lokum þegar við kvödd­umst við eina af hlið­ar­göt­um Istikal­götu

Víkur þá sög­unni að Far­hod. Ég bjó hjá Far­hod og kærasta hans, Baziar, í nokkra daga þegar ég heim­sótti Tehran fyrir um ári síð­an; ein af mörgum heim­sóknum mínum til Írans. Við komum okkur vel fyrir í stof­unni eftir að Baziar hafði farið til vinnu og drukkum te saman og ræddum mál­in. Ég bað þá Far­hod að segja mér sögu sína. Hann kemur frá Isfa­han sem er þekkt fyrir hinar glæsi­legu bygg­ing­ar, hallir og moskur í kringum eitt aðal­torg borg­ar­inn­ar. Hann hafði snemma gert sér grein fyrir því að hann hneigð­ist til karl­manna en hélt því leyndu og sagði engum frá því. Enn í dag veit fjöl­skyldan ekk­ert um hans hagi. „Eitt sinni spurði bróðir minn hvers vegna ég byggi með Baziar. Ég svar­aði að það væri ein­fald­lega hag­kvæmara, deila leig­unni með öðr­um. Þá spurði bróðir minn mig hvort ég væri ekki bara hommi og ég bara hló án þess að svara.“

Fljót­lega barst talið að mót­mælum og bar­áttu fyrir opn­ara sam­fé­lag­i. Far­hod seg­ist lengi vel hafa verið virkur í ýmiss konar mót­mæla­hreyf­ingum og hafa byrjað snemma sem aðgerðasinni fyrir auknum rétt­indum minni­hluta­hópa og opins sam­fé­lags. „Þegar ég var stúd­ent í Tabriz fór ég að stjórna fundum og skipu­leggja mót­mæli. Þar var ég fyrst hand­tek­inn en sleppt stuttu síð­ar.“ Eftir það fór hann til höf­uð­borg­ar­inn­ar Tehran þar sem hann hélt áfram þátt­töku sinni í ýmiss konar umbóta­hreyf­ing­um. Þar tók hann þátt í mót­mælum og var aftur hand­tek­inn. „Ég sat inni í hót­el-Evin í eina viku.“ Far­hod er hér að vísa til hins alræmda Evin fang­elsis í Tehran, þar sem póli­tískir and­stæð­ingar stjórn­valda og þeir sem á ein­hvern hátt mót­mæla ríkj­andi fyr­ir­komu­lagi eru vistað­ir, oft á tíðum við skelfi­legan aðbúnað og pynt­ing­ar. Eftir viku í Evin skrif­aði hann undir yfir­lýs­ingu þar sem hann hét því að hann myndi aldrei taka aftur þátt í mót­mæl­um. „Ég gat hins vegar ekki hætt að mót­mæla,“ sagði Far­hod og sneri nú til heima­borgar sinn­ar Isfa­han. Þar hóf hann aftur virka þátt­töku í mót­mælum enda var „græna bylt­ing­in“ brostin á.   

 „Græna bylt­ing­in“ voru mót­mæli sem brut­ust út árið 2009 eftir for­seta­kosn­ing­arnar en þá mót­mæltu margir Íran­ir, einkum ungt fólk, end­ur­kjöri Ahma­d­ini­jads, sem til­heyrði íhalds­armi sam­fé­lags­ins og var studdur af klerka­veld­inu. Megin and­stæð­ingur hans Mir Mousavi, var í augum jað­ar­hópa og ungs fólks hold­gerv­ingur frelsis og umbóta. Urðu því gíf­ur­leg von­brigði meðal margra Írana þeg­ar Ahma­d­ini­jad bar nauman sigur úr bítum og var talið að um kosn­inga­svik hefði verið að ræða. Mót­mælin voru brotin á bak aftur af yfir­völdum og stuðn­ings­sveit­um Ahma­d­ini­jads og kost­uðu þau fjöl­mörg manns­líf og lentu margir í fang­elsi. Far­hod var þar á með­al. Dag einn þegar hann var að rölta heim eftir mót­mæli þá sá hann lög­reglu­þjón berja unga konu. „Ég spurði hann hvers vegna hann sé að berja varn­ar­lausa konu og hann segir mér að skipta sér ekki af þessu. Ég varð svo reiður að ég réðst á hann og kom kon­unni til bjarg­ar. Þá komu fleiri lög­reglu­þjónar og snéru mig nið­ur.“ Að lokum er Far­hod settur í járn og færður á lög­reglu­stöð þar sem hann er bar­inn til óbóta. „Ég hló bara og setti upp v-merk­ið. Ég hélt að þetta yrði eins og áður þegar ég var hand­tek­inn, sleppt stuttu síð­ar.“ En raunin varð hins vegar önnur enda töldu stjórn­völd sig hafa rétt til að berja niður „grænu bylt­ing­una“ með öllum til­tækum ráð­um. 

Far­hod var pynt­aður herfi­lega. Fyrst var hann bar­inn með kylf­um. Því næst var hann afklæddur og hafður í klefa sem var við frost­mark. Svo var hann hengdur upp öfugur (haus sneri nið­ur) og raf­magn leitt í mag­ann á hon­um. „Þegar maður snýr svona öfugt, fer allt blóðið niður í haus og þá magn­ast allt upp þegar þeir settu raf­magnið í mig, gáfu mér stuð. Það var eins og haus­inn á mér væri að springa.“ Til­gangur með pynt­ing­unum að hans sögn var sá að fá hann til að skrifa undir játn­ingu. Það gerði hann eftir að hafa þolað pynt­ingar í um viku. „Ég hefði skrifað undir hvað sem er,“ sagði Far­hod. Eftir það var farið með hann í dóm­sal þar sem dómur var kveð­inn upp yfir hon­um. „Ég sagði dóm­ar­anum að ég hefði verið pynt­aður en hann hlust­aði ekki á það.“ Far­hod fékk mán­aðar fang­els­is­dóm og var farið með hann í sér­staka örygg­is­álmu fyrir „hættu­lega“ fanga, sem voru aðal­lega þar af póli­tískum ástæð­um. „Þar var ég lát­inn dúsa í litlum klefa með átta öðrum föng­um. Einn klefa­fé­lagi minn var múlla (prest­ur). Þegar hann vildi fara með bæn og biðja til allah um að hann myndi að lokum hjálpa þeim út úr prís­und­inni sagði ég að þetta væri lok­punkt­ur­inn. Allah mun ekk­ert hlusta á okk­ur.“

Fjöl­skylda hans vissi ekk­ert hvað um hefði orðið eða hvað um hann varð. Hann náði að lokum að koma skila­boðum til þeirra þegar klefa­fé­lagi hans losn­aði úr fang­els­inu. Sá hringdi úr almenn­ings­síma í fjöl­skyld­una og sagði hvar Far­hod væri nið­ur­kom­inn. Svo skellti hann á. Fjöl­skylda hans kom í fang­elsið fjórum sinnum og spurði um hann en fékk alltaf þau svör að hann væri ekki þar. Eftir mánuð var honum svo sleppt og fór hann þá heim til sín, skemmdur á sál og lík­ama. Hann þurfti síðar að koma aftur fyrir dóm­ara og var hann þá fár­veikur eftir dvöl sína í fang­els­inu. „Ég sé ekki eftir neinu. Ég er ánægður í dag og sé hlut­ina í öðru ljósi.“ Í dag býr Far­hod í Tehran en hefur í hyggju að flýja Íran fljót­lega. „Það er ekki hægt að búa í Íran. Ég er sam­kyn­hneigður en jafn­framt óvinur rík­is­ins. Ég fæ hvergi vinnu og get ekki byggt upp líf mitt hér.“ Í dag er Far­hod  að vinna að heim­ilda­mynd um stöðu og reynslu homma í Íran. 

Frá­sagn­ir Ramt­ins og Far­hods gefa sýn inn í líf homma í Íran og hvernig þeir þrátt fyrir for­dóma og ofsókn­ir, reyna að skapa sér rými og streit­ast á móti ríkj­andi gild­um, í þeirri von að fyrr eða síðar muni sam­fé­lagið taka breyt­ingum í átt til auk­ins umburða­lyndis og lýð­ræð­is. Næstu grein verður fjallað um stöðu hinsegin fólks í Indónesíu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None