Gabriel Rutenberg

Hægt að læra margt af hælisleitendum og flóttafólki í COVID-19 faraldri

Innflytjendur og hælisleitendur eiga það til að gleymast þegar áföll ríða yfir samfélög og þrátt fyrir að aðstæður einstaklinga innan þessara hópa séu oft og tíðum ólíkar þá eiga þeir jafnan mikið sameiginlegt. Kjarninn náði tali af sálfræðingi sem unnið hefur með þessum hópum en hún segir að nú á tímum COVID-19 þurfi að huga sérstaklega að þeim og að það sé gert með því að sýna samstöðu og samkennd.

Sam­fé­lög heims­ins hafa þurft að takast á við ein­stakar áskor­anir í kjöl­far COVID-19 far­ald­urs­ins sem nú geis­ar. Eng­inn hefur farið var­hluta af áhrifum hans en þó er ljóst að hann mun reyna mis­jafn­lega á mis­mun­andi hópa. 

Hæl­is­leit­endur og flótta­fólk koma iðu­lega úr erf­iðum aðstæðum og nú þegar far­ald­ur­inn er í hámarki má ætla að ástandið muni reyna ein­stak­lega mikið á þessa hópa. Einnig er það einkar krefj­andi fyrir inn­flytj­endur þar sem upp­lýs­inga­gjöf til þeirra er oft ábóta­vant af hinum ýmsu ástæð­um. En hvernig hefur ástandið farið í hæl­is­leit­endur og flótta­fólk – og þá sem gengið hafa í gegnum meira á lífs­leið­inni en margur ann­ar?

Kjarn­inn spjall­aði við Ölmu Belem Serrato um þessi mál­efni en hún er sál­fræð­ingur sem búið hefur hér á landi í 10 ár. Hún er frá Mexíkó og er gift íslenskum manni og hefur því einnig reynslu af því að vera útlend­ingur á Íslandi. Í Mexíkó starf­aði hún á gjör­gæslu og bjó hún um tíma í Bar­selóna á Spáni en þar vann hún á lækna­stofum og sjúkra­húsi – sem og í fjöl­skyldu­ráð­gjöf. 

Auglýsing

Alma hefur unnið mikið með inn­flytj­endum og hæl­is­leit­endum og telur hún að kerfið sé að mörgu leyti gott hér á landi hvað þessa hópa varðar en sumir þeirra hæl­is­leit­enda sem hún hefur sinnt koma úr mjög flóknum aðstæð­u­m. 

Inn­flytj­endur yfir höfuð með mikla aðlög­un­ar­hæfni

Fyrir COVID-19 far­ald­ur­inn var líf margra hæl­is­leit­enda flókið og oft erfitt. „Sumir koma frá mjög erf­iðum aðstæðum og hef ég til að mynda haft skjól­stæð­inga frá hættu­svæðum sem síðan hafa komið hing­að. Sumir þeirra þurftu að takast á við ýmiss konar krefj­andi hluti áður en þeir komu hingað til lands – og sér­stak­lega konur og börn. Margir hafa nú þegar þurft að ganga í gegnum ýmsar þján­ing­ar,“ segir Alma. 

Nú þegar COVID-19 far­ald­ur­inn gengur yfir þá eykst óör­yggið enn meira. „Fólk er samt svo ótrú­lega seigt. Inn­flytj­endur eru líka yfir höfuð með mikla aðlög­un­ar­hæfni en það hafa rann­sóknir einmitt sýnt. Þeir geta aðlagað sig alls konar nýjum aðstæðum og breyt­ingum – oft mun betur en aðr­ir. Þeir sem eru í hvað við­kvæm­astri stöðu á borð við hæl­is­leit­endur eru mjög þrautseigir og sterk­ir. Og á vissan hátt lifa þeir alltaf við óvissu­á­stand. Í þannig ástandi eru þeir ekki ham­ingju­samir eða sáttir við lífið og þurfa þeir sífellt að eiga við lík­am­lega og sál­ræna kvilla sem fylgja því að vera í þeirra stöðu. En aftur á móti gef­ast þeir ekki upp. Þetta er sterkasta fólk­ið,“ segir Alma. 

Hún segir enn fremur að þeir sýni mikla ákveðni – jafn­vel þegar þeir halda að þeir hrein­lega þoli ekki meira álag. 

Alma segir að innflytjendur séu yfir höfuð með mikla aðlögunarhæfni, það hafi rannsóknir sýnt. Þeir geti aðlagað sig alls konar nýjum aðstæðum og breytingum – oft mun betur en aðrir.
Mannlíf/Ivan

Vilja taka þátt í sam­fé­lag­inu

„Ég get þó sagt frá því að sumir hæl­is­leit­endur sýna nú merki þung­lynd­is. Algeng ein­kenni eru áhuga­leysi, ánægju­leysi og minni áhuga­hvöt, sekt­ar­kennd, pirr­ing­ur, reiði, svart­sýni, von­leysi, kvíði, orku­leysi og ein­beit­ing­ar­erf­ið­leik­ar. Klínískt þung­lynd mann­eskja getur átt erfitt með að sinna ein­föld­ustu hlut­um, eins og að fara í sturtu eða eitt­hvað þvíum­líkt. Hæl­is­leit­endur aftur á móti vilja vinna og læra. Þeir vilja taka þátt í sam­fé­lag­inu og skipta máli. En stundum verður þetta fólk auð­vitað þreytt,“ segir hún. 

Alma bendir á að fólk innan sam­fé­lags inn­flytj­enda hafi ólíkar þarf­ir. Þá sé hægt að skipta því í þrjá meg­in­hópa. Í fyrsta lagi séu það inn­flytj­endur sem eiga auð­veld­ara með að aðlag­ast en í þeim hóp er oft fólk frá Evr­ópu. Einnig sé auð­veld­ara að kom­ast inn í sam­fé­lagið þegar fólk er gift inn­fædd­um, eins og í hennar til­felli. Annar hóp­ur­inn sam­an­standi af fólki sem á erf­ið­ara með þessa aðlög­un. Þá sé erf­ið­ara fyrir fólk að fá vinnu, til að mynda vegna tungu­mála­örð­ug­leika, eða að fá kenni­tölu. Þá sé engin teng­ing inn í sam­fé­lagið sem auð­veldi aðlög­un­ina. Í við­kvæm­asta hóp inn­flytj­enda séu síðan hæl­is­leit­endur og flótta­fólk. Allir þessir hópar hafa ákveðnar áskor­anir og stundum eru þær svip­aðar í eðli sínu, að hennar sögn. 

Henni finnst mik­il­vægt að benda á að þrátt fyrir að fólk í fyrsta hópnum eigi auð­veld­ast með að aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi þá geti það þó reynt á. Ekki megi gleyma því. Hún segir að þá séu erlendar konur í mesta áhættu­hópnum – þær séu í sér­stak­lega erf­iðri stöðu nú á COVID-19 tím­um. Og þrátt fyrir að vera ekki í stöðu sem flótta­maður eða hæl­is­leit­andi þá geti aðstæður verið mjög erf­ið­ar, ekki megi gera lítið úr þeim – sér­stak­lega þegar um heim­il­is­of­beldi er að ræða. 

Mikið álag á fólki

Varð­andi það ástand sem nú er uppi vegna COVID-19 far­ald­urs­ins og áhrif hans á hæl­is­leit­endur þá segir Alma að sumum í þessum hópum líði mjög illa. „Þegar þeir kannski héldu að nú væri loks­ins komin ró í aðstæður þeirra þá kemur eitt­hvað svona upp á. Og ekki bara þessi sjúk­dóm­ur, það er svo margt sem getur gerst í þeirra líf­i.“ 

Hún segir að hæl­is­leit­endur og þeir sem hafa gengið í gegnum erf­iða hluti viti þó eitt: Að þeir geti kom­ist í gegnum þetta ástand. Þeir þurfi þó ennþá meiri aðstoð frá sam­fé­lag­inu til að takast á við allt þetta – þeir þurfi á athygli að halda.

Auglýsing

„Þegar þetta ástand byrj­aði var flókið fyrir alla að nálg­ast upp­lýs­ing­ar, hjálp og stuðn­ing. Og hvað þá fyrir hæl­is­leit­endur eða þá sem eru í við­kvæm­asta hópnum hvað þetta varð­ar. Sumir tala enga ensku og þá getur reynst erfitt að fóta sig. Þau kunna þar af leið­andi ekki að panta sér tíma hjá lækni og þeir vita til dæmis ekki hvernig á að hafa sam­band við kenn­ara barn­anna þeirra. Skrítnir tímar kalla á þetta óör­yggi en þetta á við um inn­flytj­endur sem og hæl­is­leit­end­ur. Þetta getur valdið miklu álagi á fólk.“

Kaó­tískt í byrjun far­ald­urs

Alma segir að upp­lýs­inga­flæðið hér á landi til inn­flytj­enda og hæl­is­leit­enda hafi ekki verið nægi­lega gott í byrjun far­ald­urs en það fari batn­andi. „Ég tel að margir standi sig vel i að deila upp­lýs­ingum með útlend­ingum en í byrjun far­ald­urs­ins fannst mér þetta allt saman vera heldur kaó­tískt fyrir alla – við vissum ekki við hverja við áttum að tala eða hvert við áttum að fara. Ástandið var betra fyrir Íslend­inga eða þá sem tala góða ensku. Við­kvæmir hópar inn­flytj­enda voru úti­lok­að­ir,“ segir hún. 

Hún segir að margir hafi verið hrein­lega hræddir og áhyggju­fullir og spil­uðu tungu­mála­örð­ug­leikar þar stóran þátt. „Ég þekki marga sem ótt­ast það að kerfið muni gleyma þeim. Þeir geta með engu móti skipu­lagt líf sitt – og þetta var líka áður en veiran kom til sög­unn­ar. En þetta ástand sem nú er uppi eykur á þennan ótta. Ótt­ann við að gleym­ast.“

Hælisleitendur á Íslandi.
Bára Huld Beck

Verðum að sýna skiln­ing

Það sem sam­fé­lagið þarf að gera, að mati Ölmu, er að sýna sam­stöðu og styðja við þá sem eru í erf­iðri stöðu. „Ég held að það sé það sem við þurfum að gera núna. Við þurfum að sýna skiln­ing. Hæl­is­leit­endur eru bar­áttu­fólk en það hefur séð ýmsa hluti sem við hin getum ekki einu sinni ímyndað okk­ur. Þetta ástand getur ýft upp gömul sár og áföll.“

Hún telur að með því að sýna sam­stöðu og sam­kennd sé hægt að vera til staðar fyrir alla – og sér­stak­lega þá sem þurfa mest á því að halda. „Við getum talað um þessa við­kvæmu hópa út frá efna­hags­sjón­ar­miði og sem tölur í sam­fé­lag­inu en þetta fólk er líka með til­finn­ingar eins og aðr­ir. Við megum ekki gleyma því.“

Alma segir að með tím­anum fari fólk undir miklu álagi að sýna lík­am­lega ein­kenni. Mikil bæl­ing og erf­ið­leikar geti orsakað það. „Það eru ekki ein­ungis and­legir erf­ið­leikar sem opin­ber­ast í erf­iðum aðstæðum heldur einnig lík­am­leg­ir.“ Nú sé gríð­ar­lega mik­il­vægt að veita fólki and­legan stuðn­ing til þess að koma í veg fyrir ennþá verra ástand eftir að COVID-19 gengur yfir. 

Getum lært svo mikið með því að hlusta

Ef hæl­is­leit­endur eða inn­flytj­endur í erf­iðri stöðu fá þann stuðn­ing sem þeir þurfa á að halda þá seg­ist Alma vera mjög bjart­sýn á að þeir komi eins vel út úr ástand­inu eins og hægt sé. Hún bendir á að sam­kvæmt rann­sóknum þá sé þessi hópur gríð­ar­lega ákveð­inn og vilj­ugur til að bæta líf sitt, eins og áður seg­ir. Fólk þurfi ein­ungis að fá tæki­færi til þess. Og ef það fær þessi tæki­færi hér á Íslandi seg­ist Alma vera viss um að það nái að blómstra. 

„Við getum lært svo mikið af þessu fólki sem sam­fé­lag. Við getum lært af þraut­seigju þeirra og áhuga­hvöt. Við verðum að hlusta á það sem það segir með opnum hug,“ segir hún. Enn fremur sé eðli­legt að upp­lifa alls konar til­finn­ingar í kringum þetta ástand. En hún seg­ist vera mjög von­góð að Íslend­ing­ar, sem og allir aðrir sem hér búa, eigi eftir að kom­ast sem best í gegnum þetta tíma­bil ef við sem sam­fé­lag sýnum þessa sam­stöðu og sam­kennd. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal