EPA

„Klasi 5“ ógnar lýðheilsu dönsku þjóðarinnar

Þegar í sumar greindist minkur á dönsku búi með kórónuveiruna. Í haust var stökkbreytt afbrigði minkaveirunnar greint en það var ekki fyrr en í fyrradag að ákveðið var að aflífa alla minka og einangra sveitarfélögin þar sem það hefur greinst í mönnum.

Ekki er grunur um að kór­ónu­veirusmit hafi komið upp á minka­búum á Íslandi en í ljósi smita af stökk­breyttu afbrigði kór­ónu­veiru úr minkum í fólk í Dan­mörku ætlar Mat­væla­stofnun að hefja skimun meðal dýr­anna fyrir veirunni á íslenskum minka­bú­um.



Þegar fregnir bár­ust af kór­ónu­veirusmiti úr fólki í minka í sumar sendi Mat­væla­stofnun til­mæli til íslenskra minka­bænda um hertar sótt­varnir á búunum og að ein­stak­lingar með sjúk­dóms­ein­kenni haldi sig fjarri þeim. Til­kynna skal grun um veik­indi í minkum til Mat­væla­stofn­un­ar. Reglu­lega hefur verið minnt á þessi til­mæli en engar til­kynn­ingar hafa borist.



Auglýsing

Danir hafa ákveðið að aflífa alla minka á búum í land­inu, um 15-17 millj­ónir tals­ins, vegna kór­ónu­veirusmita sem bár­ust úr minkum í fólk. Um stökk­breytt afbrigði veirunnar er að ræða sem talið er að hafi borist upp­runa­lega úr fólki í minka. Hætta er á að þau bólu­efni sem eru í þróun gegn kór­ónu­veirunni virki ekki á stökk­breytt afbrigði veirunn­ar.



214 ­manns á Jót­landi hafa greinst með kór­ónu­veiru sem rakin er til minkanna frá því í sumar og hafa dönsk yfir­völd hert aðgerðir í norð­ur­hluta lands­ins af þessum sök­um. Eru íbúar sjö sveit­ar­fé­laga á Norð­ur­-Jót­landi beðnir að halda sig innan sinna sveit­ar­fé­laga og sömu­leiðis eru aðrir beðnir að ferð­ast ekki til þeirra. Íbúar í sveit­ar­fé­lög­unum sjö verða allir skimaðir fyrir veirunni.



Sýk­ingin á svæð­inu er kölluð „klasi 5“ og segir for­sæt­is­ráð­herr­ann Mette Frederik­sen „ör­laga­stund“ runna upp, rétt eins og hún sagði um 11. mars síð­ast­lið­inn er gripið var til hörð­ustu aðgerða sem þá höfðu þekkst í kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um.



Minkalæður eignast um 65 þúsund hvolpa árlega á íslenskum minkabúum.
EPA

Danir eru stærstu fram­leið­endur minka­skinna í heim­inum og á dönskum búum eiga um 40 pró­sent heims­fram­leiðsl­unnar upp­runa sinn. Í fyrri bylgjum COVID-19 voru um 1,2 millj­ónir dýra aflíf­aðar á um 400 búum en í Dan­mörku eru 1.139 minkabú og þar starfa um 2.600 manns.



Tage Peder­sen, for­maður sam­bands loð­dýra­fram­leið­enda í Dan­mörku, segir að aðgerð­irnar nú muni ganga að grein­inni dauðri. „Þetta er svartur dagur fyrir okkur öll. Auð­vitað viljum við ekki valda öðrum far­aldri en ákvörðun stjórn­valda er skelfi­leg fyrir okkar iðnað í Dan­mörku.“ Sagði hann aðgerð­irnar í raun marka „enda­lok skinna­iðn­að­ar­ins“.



Frá júní til nóv­em­ber



Í júní greind­ist kór­ónu­veiran í mink í Dan­mörku. Allir minkar á því búi voru aflífað­ir. Fleiri til­felli greindust, aðal­lega á Norð­ur­-Jót­landi en einnig á Vest­ur­-Jót­landi, bæði í minkum og mönn­um.



Í sept­em­ber var „sér­stakt minka­af­brigði“ veirunnar greint í fólki á Norð­ur­-Jót­landi. Meðal sýktra var barn sem tengd­ist einu búinu.



Milljónir minka verða felldar í Danmörku á næstu dögum.
EPA

Tveimur vikum síðar var hið nýja afbrigði veirunnar greint í fólki og minkum á sex minka­bú­um. Nokkrum dögum síðar skrif­uðu sér­fræð­ingar við Háskól­ann í Kaup­manna­höfn skýrslu þar sem fram kom að hið stökk­breytta afbrigði veirunnar gæti „hugs­an­lega“ haft í för með sér að bólu­efni gegn COVID-19 virki ekki á það.



Á blaða­manna­fundi 1. októ­ber sagði Kåre Møl­bak, fram­kvæmda­stjóri hjá dönsku sótt­varna­stofn­un­inni, að það væri hættu­legra að vera minka­rækt­andi en að starfa í heil­brigð­is­kerf­inu hvað smit­hættu varð­aði. „Við vitum fyrir víst að menn geta smitað minka og mink­arnir svo menn.“ Smit hafði þá verið stað­fest á 41 minka­búi.



Um miðjan októ­ber kom það í fyrsta sinn fram opin­ber­lega að hið stökk­breytta afbrigði gæti verið ónæmt fyrir þeim bólu­efnum sem eru í þró­un. Áhyggjur yfir­valda af því að afbrigðið gæti orðið „lýð­heilsuógn“ voru orðnar mikl­ar. Í áhættu­mati heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins var kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að „áfram­hald­andi minka­rækt á meðan far­aldur COVID-19 gengur yfir hafi í för með sér veru­lega áhætt­u“.



Í fyrra­dag til­kynnti svo for­sæt­is­ráð­herr­ann loks að ákveðið hefði verið að fella alla minka í land­inu.



Auglýsing

Hol­lend­ingar felldu minka í 68 búum í júní og til­kynntu í kjöl­farið að lokun allra búa fyrir fullt og allt, sem stefnt var að árið 2024, hefði verið flýtt til vors­ins 2021. Rann­sókn leiddi í ljós að um helm­ingur starfs­manna á minka­búum í Hollandi hafði smit­ast af afbrigði kór­ónu­veirunnar sem var að finna í mink­unum og sú ályktun var dregin að þeir hefðu smit­ast af dýr­un­um.

Ban­vænt gas



Níu minkabú eru enn starf­rækt á Íslandi. Á þeim eru 15 þús­und eld­is­dýr og eign­ast læð­urnar um 65 þús­und hvolpa á ári. Þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri eru þeir drepnir í sér­út­búnum aflíf­un­ar­kössum með ban­vænu gasi. Er það gert í sam­ræmi við kröfur í reglu­gerð um vernd dýra við aflíf­un. Að því loknu eru þeir „pels­að­ir“ eins og það er kall­að, og skrokkum þeirra farg­að, t.d. með urð­un.



„Ef í ljós kæmi smit af COVID-19 á íslensku minka­búi yrðu aðgerðir ákveðnar í sam­ráði við sótt­varn­ar­yf­ir­völd,“ segir Sig­ríður Gísla­dótt­ir, dýra­læknir loð­dýra­sjúk­dóma hjá MAST, við Kjarn­ann. Spurð hvort skrokk­unum verði fargað án þess að skinnin verði tekin segir hún að upp­lýs­ingar séu enn ekki fyr­ir­liggj­andi um hvaða ráð­staf­anir verða hjá Dönum varð­andi hræ af sýktum dýrum „en að öllum lík­indum verður þeim fargað líkt og öðrum sótt­meng­uðum dýra­af­urð­u­m“.



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar