Í lok árs 2014, rúmum sex árum eftir bankahrun og setningu gjaldeyrishafta, áttu Íslendingar enn rúmlega eitt þúsund milljarða króna í erlendri fjármunaeign. Um er að ræða annað hvort eigið fé eða lánveitingar á milli aðila í sömu eigu. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um beina fjármunaeign íslenskra aðila erlendis sem birtar voru 9. september síðastliðinn.
Á meðal þess sem kemur fram þar er að íslenskir aðilar eigi 31,6 milljarða króna á Bresku Jómfrúareyjunum, nánar tiltekið á Tortóla-eyju klasans. Bein fjármunaeign Íslendinga þar hefur aukist mikið frá því fyrir hrun, en í árslok 2007 áttu Íslendingar 8,6 milljarða króna á eyjunum. Gengisfall krónunnar skýrir aukninguna að einhverju leyti.
Eigum yfir þúsund milljarða í útlöndum
Alls eiga Íslendingar 1.019 milljarða króna í fjármunaeignum erlendis. Þær dragast töluvert saman á milli ára en þær voru 1.098 milljarðar króna í árslok 2014. Mestar voru þær tæplega 1.600 milljarðar króna árið 2012. Vert að að hafa í huga að fallandi gengi krónu eftir bankahrun hafði mikil áhrif á virði þeirra eigna á þeim tíma. Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis fjórfaldaðist á einum áratug. Árið 2004 átti þjóðin um 245 milljarða króna af beinum eignum í öðrum löndum.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga þorra eigna Íslendinga erlendis, en alls áttu þeir 689 milljarða króna þar um síðustu áramót. Hluti þeirra eigna falla undir skilgreininguna bein fjármunaeign erlendis. Það þýðir að íslensk fyrirtæki og einstaklingar eigi nokkur hundruð milljarða króna í erlendum eignum.
Seðlabanki Íslands birtir árlega tölur um beina fjármunaeign Íslendinga erlendis.
Ein ástæða þess að bein fjármunaeign hefur verið að lækka undanfarin ár gæti verið sú að Íslendingar hafi í auknum mæli fært fé heim til Íslands í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Alls kom um einn milljarður evra inn til landsins í fjárfestingar í gegnum þá leið, en síðasta útboð hennar var í febrúar 2015, og fékkst fyrir það fé 206 milljarðar króna. Opinbert gengi Seðlabanka Íslands á evrunni gerir ráð fyrir að evrurnar sem komu inn í landið séu ríflega 157 milljarða króna virði, og nemur mismunurinn á afslættinum sem fjárfestar fengu með þátttöku sinni í fjárfestingaleiðinni, 48,7 milljörðum króna, miðað við gengið í febrúar síðastliðnum. Seðlabankinn hefur aldrei viljað upplýsa um hverjir það eru sem hafi fengið þennan afslátt af íslenskum eignum, meðal annars endurskipulögðum fyrirtækjum og fasteignum.
Önnur ástæða þess að upphæðin sem Íslendingar eiga erlendis hefur dregist saman getur verið sú að virði eignanna hafi einfaldlega lækkað.
fjármunaeign | Create infographics
Um 60 prósent vegna fjármálastarfsemi
Tæplega eitt þúsund milljarðar króna af auði Íslendinga erlendis er í Evrópu. Líkt og áður sagði eru 31,6 milljarðar króna geymdir á Bresku Jómfrúareyjunum og 3,9 milljarðar króna eru í Bandaríkjunum. Þá eru um 60 milljarðar króna óflokkaðir. Þ.e. ekki kemur fram í tölum Seðlabanka Íslands í hvaða landi þær fjármunaeignir eru.
Tæplega 60 prósent eignanna, alls 577 milljarðar króna, eru vegna fjármála- og vátryggingarstarfsemi. Miðað við tölur síðustu ára, en framsetning og flokkun hagtalna Seðlabankans hefur breyst lítillega á þessu ári, er stór hluti þeirra eigna vistaður í eignarhaldsfélögum.
Hæstar er eignir Íslendinga í Hollandi. Þar eigum við 341 milljarða króna. Það er líkast til afleiðing af því að fyrir bankahrun þótti mikil lenska að skrá eignarhaldsfélög sem áttu íslensk fyrirtæki í Hollandi vegna hagstæðra skatta. Sömu sögu er að segja af Lúxemborg þar sem Íslendingar eiga nú um 116 milljarða króna. Eignir Íslendinga í báðum þessum löndum, sem virðast hafa verið í miklu uppáhaldi hjá íslenskum fjármálamönnum fyrir hrun, jukust gríðlega frá árunum 2005 og 2006, þegar þær voru samtals undir 50 milljörðum króna. Undanfarin ár hefur umfang þeirra dregist hægt og bítandi saman samhliða uppgjöri íslenska bankahrunsins.
Íslenskir peningar flæddu til framandi eyja
Á útrásarárunum var lenska að geyma eignarhald fyrirtækja, og peninga, á framandi slóðum. Útibú eða dótturfélög íslensku bankanna settu upp allskyns félög fyrir viðskiptavini sína í Lúxemborg, Hollandi, á Kýpur, Mön og eyjunum Jersey og Guernsey þar sem bankaleynd var, og er, rík.
Auk þess var mikið um það að stofnuð væru félög á Bresku Jómrúareyjunum fyrir viðskiptavini þeirra, nánar tiltekið á Tortóla-eyju. Félögin skiptu hundruðum og langflest þeirra voru stofnuð í Kaupþingi í Lúxemborg, sem hélt sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir aðilar sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Kaupþingi í Lúxemborg hélt sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir aðilar sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Byrjaði með skattahagræði
Stofnun félaga á Tortóla-eyju hófst um miðjan tíunda áratuginn þegar íslensk fjármálafyrirtæki fóru að bjóða stórum viðskiptavinum sínum að láta söluhagnað af hlutabréfaviðskiptum renna í slík félög. Á þeim tíma voru skattalög á Íslandi þannig að greiddur var tíu prósent skattur af slíkum söluhagnaði upp að 3,2 milljónum króna. Allur annar hagnaður umfram þá upphæð var skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur, sem á þeim tíma þýddi 45 prósent skattur.
Lögum um skattlagningu fjármagnstekna var hins vegar breytt um aldarmótin og eftir þá breytingu var allur söluhagnaður af hlutabréfum skattlagður um tíu prósent. Við það varð íslenskt skattaumhverfi afar samkeppnishæft og skattahagræðið af því að geyma eignir inni í þessum félögum hvarf. Frá þeim tíma voru ný félög því aðallega stofnuð til að fela raunverulegt eignarhald eða til að dylja tekjur eða eignir sem eitthvað athugavert var við hvernig mynduðust.
Engir ársreikningar, engar bankaupplýsingar
Samkvæmt hagtölum Seðlabanka eiga Íslendingar 31,6 milljarða króna á Bresku Jómfrúareyjunum, og þá nánast einvörðungu á Tortóla-eyju. Þessi tala er, samkvæmt heimildum Kjarnans, ekki talin tæmandi fyrir þær eignir íslenskra einstaklinga og félaga sem skráðu eignir á eyjunni frægu.
Á málþingi um skattaskjól, sem upplýsingaskrifstofan Norðurlönd í fókus og Kjarninn í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands héldu í október 2013, sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri að erfitt væri að nálgast upplýsingar um skattaskjól víða um heim. Í gildi væru samningar milli Norðurlandanna og tugi skattaskjóla um upplýsingaskipti. Frá Bresku Jómfrúareyjunum væri til dæmis hvorki veittar bankaupplýsingar né fjárhagsupplýsingar þeirra félaga sem þar eru skráð. Ekki væri lögbundið að halda bókhald né að gefa út ársreikninga í þessum löndum.
Þótt bankareikningar, eða verðbréf í þeirra eigu, séu skráð á félög á stöðum eins og Tortóla, þá eru fjármunirnir þó ekki raunverulega geymdir þar. Í tilfelli Íslendinga er, líkt og áður sagði, oftast um að ræða bankareikninga eða félög sem stofnuð voru af gömlu íslensku bönkunum í Lúxemborg. Fjármunirnir sjálfir voru, og eru, síðan geymdir þar þótt þeir séu skráðir til heimilis á meira framandi slóðum.
Eignir útlendinga á Íslandi aukast
Bein fjármunaaeign útlendinga á Íslandi eykst einnig á milli ára og er nú 942 milljarðar króna. Hún var mest árið 2011 rúmlega 1.500 milljarðar króna, en vert er að taka fram að fall krónunnar hafði mikil áhrif á aukningu hennar eftir hrun, enda allir stærstu kröfuhafar hins fallna íslenska bankakerfis erlendir. Aukningin milli áranna 2013 og 2014 nemur um 90 milljörðum króna.Langstærsti hluti fjármunaeigna erlendra aðila á Íslandi er með skráð heimilisfesti í Lúxemborg.
Beint fjárfestingaflæði erlendra aðila var jákvætt upp á 51,5 milljarða króna á síðasta ári, að langmestu leyti vegna lánaviðskipta við tengda aðila.