Pexels

Nöturlegur aðbúnaður barna fanga – „Þetta er allt rekið á horriminni“

Ryðgaður gámur sem er opinn milli kl. 12.30 og 15.30 á virkum dögum. Engar upplýsingar eða fróðleikur fyrir börn, engir barnafulltrúar og engar gistiheimsóknir. Illa er búið að börnum fanga á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin.

Ísland er mik­ill eft­ir­bátur ann­arra Norð­ur­landa þegar kemur að aðstæðum barna sem eiga for­eldra í fang­elsi. Eng­inn veit hvað þessi börn eru mörg því upp­lýs­ingum um þau er ekki safn­að. Í fang­els­unum starfa engir barna­full­trú­ar, engin sam­tök gæta hags­muna þeirra sér­stak­lega og aðstaða til að taka á móti þeim í fang­els­unum er almennt fábrot­in, ef hún er til staðar yfir höf­uð.

Margir fangar á Sogni vilja ekki fá börnin sín í heim­sókn, m.a. vegna þess að þar er „allt mor­andi“ í mönnum sem sitja inni fyrir að brjóta kyn­ferð­is­lega á börn­um. Fangar í hinu nýja fang­elsi á Hólms­heiði vilja sumir ekki hitta börnin vegna þess að heim­sóknar­í­búðin er inni í sjálfu fang­els­inu. Föngum á Litla-Hrauni býðst að hitta sín börn í svoköll­uðu Barna­koti milli klukkan 12.30 og 15.30 á virkum dög­um. Kotið er ryðg­aður gámur en hann þó skömminni skárri en heim­sókn­ar­að­staðan inni á Litla-Hrauni þar sem „skít­hrædd“ börn þurftu að hlusta á fólk í næsta her­bergi „lifa hjóna­líf­i“.

Börn fanga eru „við­kvæmur og mjög gleymd­ur“ hópur á Íslandi, sagði Sal­vör Nor­dal, umboðs­maður barna, á fundi í Odda í gær þar sem kynntar voru slá­andi nið­ur­stöður tveggja rann­sókna á stöðu barna sem eiga for­eldri í fang­elsi hér á landi. Þessi hópur býr við lak­ari aðstæður að öllu leyti en jafn­aldrar þeirra á Norð­ur­lönd­un­um, hvort sem það varðar aðstöðu til heim­sókna í fang­els­unum sjálf­um, upp­lýs­inga­gjöf sem hentar þeirra þroska, stuðn­ing eða jafn­ingja­fræðslu.

Allt saman rétt

Páll Win­kel, for­stjóri Fang­els­is­mála­stofn­un­ar, sagði ástæð­una vera síend­ur­tekna kröfu stjórn­valda um nið­ur­skurð. „Það er óþægi­legt að heyra þetta,“ sagði hann um nið­ur­stöð­urn­ar, „en þetta er allt saman rétt.“ Hann við­ur­kenndi að fang­els­is­mál hefðu hingað til lítið verið hugsuð út frá hags­munum barna. „Þannig að þetta vekur mann.“ Hins vegar benti ekk­ert í máli hans til þess að hægt væri að bregð­ast við og bæta aðstæður fyrir börn­in. Til þess skorti pen­inga.

Hann benti á að þrír félags­ráð­gjafar sinntu um þús­und manna hópi fólks innan fang­els­is­kerf­is­ins, sagði yfir­völdum í gegnum tíð­ina hafa verið „ná­kvæm­lega sama“ um inni­hald fang­els­is­vistar, fang­elsin væru yfir­full af gæslu­varð­halds­föngum og „burð­ar­dýrum sem ein­hverra hluta vegna fara í fang­elsi og eru þar enda­laust“ en á sama tíma væri gerð krafa um enn frek­ari hag­ræð­ingu.

Engar upplýsingar eru til um hversu mörg börn á Íslandi eiga foreldri sem er í fangelsi.
Pexels

„Börn fanga eru jað­ar­settur hópur í við­kvæmri stöðu sem þarfn­ast sér­stakrar vernd­ar,“ sagði Lilja Katrín Ólafs­dótt­ir, lög­fræð­ingur sem kynnti á fund­inum laga­lega grein­ingu sína á rétt­indum og stöðu barna sem eiga for­eldra í fang­els­um. Hún minnti á að skyldur for­eldra gagn­vart börnum falla ekki niður í fang­elsum þótt afplán­unin geri þeim vissu­lega erf­ið­ara um vik að sinna þeim. „Þess vegna er mik­il­vægt að það sé gripið til sér­stakra aðgerða til að gera for­eldrum kleift að rækja þessar skyldur sínar eftir fremsta megn­i.“

Barn á ekki að þjást vegna gjörða full­orð­inna

Í barna­lög­um, barna­sátt­mál­unum og til­mælum Evr­ópu­ráðs­ins er kveðið á um rétt barna til að umgang­ast for­eldri sem það býr ekki hjá og vikið að skyldum yfir­valda til að virða rétt barns til sam­bands við fang­elsað for­eldri. „Það á að hvetja og gera for­eldrum kleift að við­halda reglu­legu og þýð­ing­ar­miklu sam­bandi við börn sín,“ sagði Lilja Katrín, „og barn ætti ekki að þjást eða vera refsað vegna tak­mark­ana eða aga­við­ur­laga sem sett eru á for­eldra þess.“

Fang­elsi ættu, sam­kvæmt til­mælum Evr­ópu­ráðs­ins frá árinu 2018, að hafa sér­staka barna- eða fjöl­skyldu­full­trúa. Slíkir full­trúar starfa við flest fang­elsi á hinum Norð­ur­lönd­unum og gegna mik­il­vægu hlut­verki við að skipu­leggja heim­sókn­ir, styðja við sam­band barns og for­eldris og gæta hags­muna barns á ýmsum fleiri svið­um. Engan slíkan er að finna í íslenskum fang­els­um.

Þá hefur Evr­ópu­ráðið einnig áréttað að heim­sóknir barna í fang­elsi eigi ekki að trufla aðra þætti í lífi þess, s.s. mæt­ingu í skóla. Þessu er ekki fram­fylgt í öllum fang­elsum á Íslandi.

Samanburður á aðstöðu fyrir börn fanga á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.
Lilja Katrín

Í Nor­egi, Sví­þjóð, Dan­mörku og Finn­landi eru starf­rækt hags­muna­sam­tök fyrir börn fanga með hjálp­ar­línum og spjall­borð­um, boðið upp á sér­stök heim­sókn­ar­her­bergi sér­sniðin að þörfum barna og jafn­vel heim­sókn­ar­hús þar sem börn geta gist ásamt for­eldri sínu. Í öllum þessum löndum hafa fang­els­is­mála­yf­ir­völd gefið út upp­lýs­ingar og fróð­leik fyrir börn fanga, t.d. hvernig það er að koma í heim­sókn í fang­elsið og þar fram eftir göt­un­um.

Staða barna fanga veik­ust á Íslandi

„Lög­gjöf og fram­kvæmd Norð­ur­land­anna á sviði fulln­ustu refs­inga er sam­bæri­leg að mörgu leyt­i,“ sagði Lilja Katrín. Mis­jafnt er vissu­lega hversu mikil áhersla er lögð á rétt­indi barna fanga „en það er þó ljóst að staða þessa hóps er hvað veik­ust á Ísland­i“.

Mik­il­vægt sé að yfir­völd skrái þegar við upp­haf afplán­unar hvort fangi eigi barn. „Það er nauð­syn­legt að bera kennsl á umfangið til að hægt sé að veita börnum þá vernd og gæta hags­muna þeirra eins og barna­sátt­mál­inn krefst af okk­ur.“

Börn fanga eru hin þöglu fórn­ar­lömb fang­els­is­vist­un­ar, sagði Dan­íel Guð­jóns­son, nemi í menn­ing­ar­tengdi afbrota­fræði við háskól­ann í Lundi, sem heim­sótti fang­elsin á Íslandi í sum­ar, lagði spurn­inga­lista fyrir fanga og tók við­töl við þá og starfs­menn.

Börn fanga finna fyrir sorg og missi, skömm og for­dóm­um, sagði Dan­í­el. Þar af leið­andi finna þau sig oft knúin til að fela eða ljúga til um aðstæður for­eldra sinna. Rann­sóknir sýndu hins vegar að góð tengsl og umgengni barns við for­eldri í fang­elsi komi báðum til góða og minnki líkur á and­legum veik­indum og ein­mana­leika.

Hann fór því næst yfir aðstöðu í fang­els­un­um.

Sogn og Kvía­bryggja

Engin sér­út­búin aðstaða til að taka á móti börnum er í opnu fang­els­unum að Kvía­bryggju og Sogni. Við Kvía­bryggju er þó hús sem kallað er „ein­býl­ið“ og það er oft nýtt til heim­sókna og á Sogni er „Hjá­leig­an“ gjarnan nýtt í sama til­gangi. „En það eru dæmi, alveg nokk­ur, að fangar vilji ekki fá börnin sín í heim­sókn á Sogn vegna við­veru kyn­ferð­is­af­brota­manna þar,“ sagði Dan­í­el, eða líkt og einn fang­inn orð­aði það við hann: Þar væri „allt mor­andi“ í mönnum sem hefðu brotið á börn­um.

Í júlí voru fjórir af 22 föngum að afplána dóma vegna slíkra brota að Sogni. Fang­ar, makar þeirra og fjöl­skyldur tóku fram að þau væru ekki sátt við að börn þyrftu að deila sama rými og slíkir fangar og dæmi um að makar hafi tekið fyrir frek­ari heim­sóknir barna sinna þangað af þessum sök­um. „Þegar ég var inni á Litla-Hrauni komu börnin mín viku­lega,“ sagði einn fang­anna. „Svo fór ég á Sogn. Þegar barns­móðir mín vissi af fjölda manna á Sogni sem voru þar fyrir að brjóta á börnum hættu heim­sóknir alveg. Eftir það hitti ég bara börnin í dags­leyfum einu sinni í mán­uð­i.“

Líkt og á Sogni vantar sér­tækt heim­sókn­ar­rými fyrir börn á Kvía­bryggju. Þá töl­uðu fang­arnir um skort á leik­tækjum í og við fang­elsið, að þar mættu líka vera til taks snjó­þotur og fleiri leik­föng.

Litla-Hraun

Barnakot á Litla-Hrauni.

„Hérna sjáið þið Barna­kot. Þetta er kannski ekki fal­leg­asti gámur í heim­i,“ sagði Dan­íel er hann varp­aði mynd af heim­sókn­ar­gámi við Litla-Hraun upp á tjaldið í Odda. Gámur­inn er þó skárri en hið hefð­bundna heim­sókn­ar­rými sem er inni í fang­els­is­bygg­ing­unni sjálfri, bætti hann við. Sumir fangar vilji hrein­lega ekki fá börn sín í heim­sókn vegna þess rým­is.

Hann hafði eftir einum fang­anna: „Það er ekk­ert gaman að vera með barn lokað inni í her­bergi í 2-3 tíma. Það er ekk­ert úti­svæði, leik­svæði, eða neitt fyrir þau. Þetta er bara hálf­gerð auka­refs­ing.“

Barna­kot kom til sög­unnar árið 2015. Vissu­lega betri aðstaða en var fyr­ir, hún er ekki innan veggja fang­els­is­ins, en hins vegar aðeins opin milli kl. 12.30 og 15.30 á virkum dög­um. „Þetta ætti að vera þver­öf­ugt,“ sagði einn fang­anna við Dan­í­el. „Fólk þarf að taka sér frí í vinnu og börnin úr skóla til að koma í heim­sókn.“

Opn­un­ar­tími hentar hvorki börnum né þeim sem fylgja þeim í fang­elsin „og það kemur bara niður á börn­un­um,“ sagði Dan­í­el. „Einn sem ég tal­aði við hafði ekki hitt börnin sín í átta mán­uði bara vegna þess að þau voru búsett úti á land­i.“

Hólms­heiði

Útisvæðið við íbúðina í fangelsinu á Hólmsheiði. Girt af með steyptum og háum vegg.

Í hinu nýja fang­elsi á Hólms­heiði er sér­stök íbúð fyrir fanga til að taka á móti gest­um. Fangar segja rýmið gott og að þar sé næði. Í íbúð­inni eru kojur og rúm en Dan­íel benti á að það skortir heim­ild til þess að gista þar líkt og staðið hefði til og boðið er upp á í fang­elsum á öðrum Norð­ur­lönd­um.

Gagn­rýnin á fyr­ir­komu­lagið er einnig sú að íbúðin er inni í fang­els­inu og dæmi eru um að fólk vilji ekki koma með eða fá börn þangað inn. Fanga­verðir segja íbúð­ina ekki hafa verið not­aða jafn mikið og vonir stóðu til.

„Eina fang­elsið á Íslandi sem er í notkun í dag og er byggt sem fang­elsi er einmitt fang­elsið á Hólms­heiði sem kemur skást út úr þessum sam­an­burð­i,“ sagði Páll Win­kel, for­stjóri Fang­els­is­mála­stofn­un­ar, sem sat í pall­borði eftir fram­sögur Lilju Katrínar og Dan­í­els. „Hin fang­elsin voru aldrei hönnuð sem fang­elsi. Þetta er bónda­bær. Þetta er gam­alt sjúkra­hús og svo fram­veg­is. Yfir­völdum hefur verið nákvæm­lega sama almennt í gegnum tíð­ina hvert inni­hald vist­ar­innar er. Það er bara flöt nið­ur­skurð­ar­krafa á þennan mála­flokk.“

Hann sagði allt sem bent væri á í rann­sókn­unum rétt „al­gjör­lega hár­rétt. Við viljum gera bet­ur, það er ótrú­lega margt að hjá okk­ur“.

En hann vildi einnig að tekið yrði inn inn í mynd­ina hver staðan var fyrir aðeins fáum árum. „Við vorum að reka fang­elsi á und­an­þágu heil­brigð­is­yf­ir­valda. Hegn­ing­ar­húsið var hand­ó­nýtt. Fólk var með sveppa­sýk­ing­ar. Fang­elsið fyrir konur í Kópa­vogi var við hlið­ina á leik­skóla. Allir fang­arnir voru til sýnis þar. Þetta var hræði­leg staða sem við vorum í, bara fyrir 10-15 árum síð­an.“

Hann telur líka að gæta verði raun­sæis í því hvaða breyt­ingum hægt sé að ná fram. Bráðum verði ráð­ist í breyt­ingar á Litla-Hrauni og í þeim tekið til­lit til þess að „fangar eiga börn sem eiga rétt á því að koma í fang­elsið án þess að verða skít­hrædd“.

Hann sagði ástæð­una fyrir því að Barna­kot – „þessi gámur“ eins og hann orð­aði það – væri á Litla-Hrauni þá að börn hafi áður þurft fara fara inn í heim­sókn­ar­að­stöðu og „hlusta á annað fólk lifa hjóna­lífi. Það var stað­reynd. Það glymur þarna á milli. Þetta var ekk­ert hannað fyrir börn. Þetta kerfi, eins og það er upp­byggt síð­ustu ára­tug­ina er til skammar en við erum að vinda ofan af því“.

Evrópuráðið mælir með því að útbúin sé aðstaða sérsniðin að börnum þar sem þau geta hitt foreldri sitt.
Pexels

Sal­vör sagði að svo virt­ist sem fang­els­is­mál á Íslandi væri ekki hugsuð út frá rétt­indum barna í neinu til­liti. Helgi Gunn­laugs­son, pró­fessor í afbrota­fræði, rifj­aði upp þegar hann kom heim úr námi skömmu fyrir 1990 og spurði yfir­völd fang­els­is­mála um aðgang barna að föng­um. „Og vit­iði hvert svarið var? Að fang­arnir hefðu átt að hugsa um það fyrr. Þetta var sem sagt bara hluti af refs­ing­unni. Þarna var barnið ekki til. Það var bara fang­inn og refs­ing­in.“

Og meiri nið­ur­skurður

Sal­vör spurði hvers vegna gögnum um börn fanga væri ekki safn­að. Páll sagði að áður fyrr hafi verið teknar svo­kall­aðar inn­komu­skýrslur af öllum föngum þar sem slíkar upp­lýs­ingar komu fram. „Það var hrein­lega út af nið­ur­skurði sem við lögðum það af,“ sagði hann.

Hann sér ekki fyrir sér að hægt verði að ráða barna­full­trúa eða setja upp­lýs­ingar sniðnar að börnum á vef Fang­els­is­mála­stofn­unar líkt og nágranna­löndin hafa gert. „Þetta er bara spurn­ing um fjár­magn. Ekk­ert ann­að.“

Er þetta ekk­ert sem þið sjáið breyt­ast í náinni fram­tíð? spurði Sal­vör.

„Nei,“ svar­aði Páll, „ef ég á að segja alveg eins og er.“ Ár eftir ár sé gerð nið­ur­skurð­ar­krafa. „Þetta er harka­legt en svona er þetta.“

Það er flókið ferli að fá börn í heimsókn í fangelsi, segir formaður félags fanga.
EPA

Fund­ar­gestir vildu vita af hverju opn­un­ar­tími Barna­kots væri svo stuttur sem raun ber vitni. „Bara nið­ur­skurð­ur, ekk­ert ann­að,“ svar­aði Páll.

Til umræðu hefði verið að fangar á Litla-Hrauni gætu líka nýtt íbúð­ina á Hólms­heiði. „En málið er bara, eins og staðan er núna, að það er allt að verða vit­laust. Hér er enda­laust af gæslu­varð­haldi. Fang­elsin eru alveg troð­full, miklu meira heldur en áætl­anir gerðu ráð fyr­ir. Það er allt að fyll­ast af burð­ar­dýrum hérna sem ein­hverra hluta vegna fara í fang­elsi og eru þar enda­laust. Þú þarft smá svig­rúm til að færa ein­stak­ling af Litla-Hrauni yfir á Hólms­heið­i.“ Því sé ekki að fagna.

„Hefur þú vilja til að breyta þessu?“ spurði einn fund­ar­gesta.

„Já,“ svar­aði Páll ákveð­inn að bragði. „Ég væri mjög hrif­inn af því að hafa til dæmis barna­full­trúa. En ég myndi líka vilja hafa iðju­þjálfa. Ég myndi vilja hafa félags­ráð­gjafa sem væru að sinna öllum föng­um, sál­fræð­inga og svo fram­veg­is. Staðan er bara svona.“

Van­ræksla?

Auður Jóns­dóttir rit­höf­undur var meðal fund­ar­gesta og spurði í ljósi yfir­lýs­inga Páls um lít­inn póli­tískan vilja hvort um van­rækslu gagn­vart börnum væri að ræða af hálfu rík­is­ins.

„Ég er ekki alveg viss um að þetta sé með­vit­að,“ svar­aði Páll. Stjórn­völd virð­ist ekki gera sér grein fyrir því eða gleyma að þegar eitt­hvað athæfi er gert refsi­vert, s.s. að leggja tveggja ára fang­els­is­refs­ingu við því að aka raf­skútu undir áhrifum áfeng­is, bæta svo við lög­gæslu­deildum og dóm­stólum að „þetta endar allt í ein­hverri afurð og afurðin er hjá Fang­els­is­mála­stofn­un“.

Nið­ur­skurð­ar­krafan bein­ist ekki ein­göngu gegn börnum líkt og ein­hverjir fund­ar­gesta veltu fyrir sér. „Það er allt rekið á horrim­inn­i,“ sagði hann.

Áhersla stjórn­valda væri mjög skýr: Nýt­ingin á að vera 100 pró­sent í fang­els­un­um, refs­ingar ekki að fyrn­ast og bið­tími eftir afplánun stutt­ur. „Við eigum á sama tíma að skera nið­ur. Við höfum verið að loka fang­elsum, fækka fanga­vörð­um, fækka sér­fræð­ing­um, fækka í yfir­stjórn. Þetta kemur alls staðar nið­ur. Ekk­ert af því er gott. Þetta hefur endað með ofbeldi og árásum innan fang­elsanna og svo fram­veg­is. Þetta er bara slæmt.“

Styrk­ing fjöl­skyldu­banda lyk­ill­inn

Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Afstöðu, sat einnig í pall­borði og sagði að gera þyrfti grund­vall­ar­breyt­ingu í fang­els­is­mál­un­um. „Við þurfum að hætta með refsi­stefn­una og taka upp end­ur­hæf­ing­ar­stefn­una. Og einn af aðal­lyklunum er styrk­ing fjöl­skyldu­banda. Börn og fjöl­skyldur fanga. Þetta mun draga úr kostn­aði, ekki auka hann. En þetta er bara spurn­ing um þennan póli­tíska vilja. Og þar af leið­andi ger­ist ekki neitt.“

Sal­vör Nor­dal, umboðs­maður barna, sem átti frum­kvæði að rann­sókn­unum og fund­in­um, sagð­ist sann­ar­lega vona að eitt­hvað færi að ger­ast í kjöl­far útgáfu skýrsl­unn­ar. Að hún vekti fólk til umhugs­unar og væri upp­hafið að „ein­hverri góðri veg­ferð“. Hennar emb­ætti ætl­aði sann­ar­lega ekki að láta sitt eftir liggja og halda áfram að vinna að mál­efn­inu því „börn fanga eru hópur sem virki­lega þarf að taka utan um“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent