Ég keypti mér tímarit um daginn til að drepa tímann undir kastaníutré á meðan sonur minn bjó til stíflu úr vatni og sandi á leikvelli skammt frá heimili okkar. Í Þýskalandi er mikil gróska í blaðaútgáfu og þetta rit er eyrnamerkt heimspeki, þar má lesa um hitt og þetta með heimspekilegu ívafi.
Ég staldraði við stutt viðtal við mann að nafni Yascha Mounk, stjórnmálahugsuð sem nam í Harvard og vinnur nú að verki sem kallast í lauslegri þýðingu Krísa lýðræðisins. Hann var spurður nokkurra vel valinna spurninga um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og svaraði þeim af ígrundaðri yfivegun eins og við var að búast af viðmælanda í þessu tiltekna tímariti. En það sem kveikti í mér voru síðustu setningarnar í viðtalinu sem áttu jafnt við íbúa Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem og ýmsa aðra íbúa heimsins:
Við stöndum andspænis harmrænu vali, sagði hann. Viljum við fórna lýðræðinu á kostnað réttar okkar eða rétti okkar á kostnað lýðræðisins?
Púkinn á Fjósabitanum
Yascha þessi er smeykur við Donald Trump sem hann segir vera útgáfu Bandaríkjanna af sama hægri popúlismanum og hafi verið í sókn í næstum öllum vestrænum lýðræðisríkjum síðustu tvo áratugina og nærist á kerfisbreytingum í grunnstoðum okkar pólitíska skipulags. Kerfisskipulags sem styðjist við viðkvæmt jafnvægi á milli frjálshyggju og lýðræðis – en viðskiptalegar og hugmyndafræðilegar forsendur þessa fyrirkomulags hafi dvínað á síðustu áratugum.
Útkoman sé sú að við stöndum andspænis nýjum stjórnarháttum. Annars vegar hinu ófrjálsa lýðræði eins og í Tyrklandi, Ungverjalandi og jafnvel að einhverju leyti í Póllandi; kerfi þar sem kosningar ráða för en réttur einstaklingsins verði æ meira að láta undan síga. Hins vegar sé um að ræða ólýðræðislega frjálshyggju eins og við þekkjum í Evrópusambandinu í dag: kerfi þar sem réttindi eru virt í megindráttum en aðeins vegna þess að hinn venjulegi borgari hefur engin áhrif lengur, að sögn Yascha.
Glannaleg játning
Þessi orð eru kannski ekki í beinu samhengi við það sem hér kemur á eftir en þau hafa velkst um í hausnum á mér síðan ég las þau og valdið mér heilabrotum. Ég veit af hverju. Það er af því að í nokkurn tíma hefur mér liðið eins og ég sé ríkisborgari í lýðræðisríki þar sem sjálft lýðræðið verður stöðugt meiri leiksoppur auðugra hagsmunabandalaga, svo illilega að stundum fær maður á tilfinninguna að það sé verið að nota lýðræðið til þess að brjóta niður stoðir þess.
Þetta er furðuleg tilfinning og já! Ég skil alveg ef einhver efast um geðheilsu mína við að lesa þessa glannalegu játningu.
Ég vona satt að segja sjálf að þessi martraðarkennda skynjun sé ímyndun mín. Að það sé ímyndun mín að ráðamenn ríkisstjórnarinnar virðist stundum nota lýðræðið í eigin þágu og þeirra sem þeir eiga mögulega sitt bakland hjá, nánast eins og þeir ætlist til að almenningur þjóni hugmyndum þeirra um lýðræði frekar en að þeir þjóni lýðræðinu.
Í skjóli lýðræðisins
Og hverjar eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um lýðræði?
Þar situr fólk sem hefur hlaupist undan alvarlegum skandölum af harðsvíruðu skeytingaleysi með þeim orðum að það hafi lýðræðislegt umboð til að stjórna landinu.
Fólk sem fagnar forsetaframboði Davíðs Oddssonar, líkt og dýrkeypt afglöp hans hafi einungis verið ímyndun almennings.
Fólk sem horfði upp á fyrrum höfuð ríkisstjórnarinnar gera sig og um leið þjóðina að athlægi út um allan heim en heldur áfram að friðþægja SDG og gerðir hans og styðja hann til frekari verka á þinginu – því það sé lýðræðislegur réttur hans.
Fólk sem talaði með dónalegum skætingi við fjölmiðlafólk eftir eina fáránlegustu atburðarás í stjórnmálum Norður-Evrópu (og þótt víðar væri leitað) síðustu fimmtíu árin eða svo.
Fólk sem lofar kosningum eftir ævintýralega skrautlegt fáránleikaleikrit en byrjar strax daginn eftir að teygja lopann með óræðu tali – og minnir enn og aftur á þau rök að það sitji í lýðræðislegu umboði þjóðarinnar.
Fólk sem treður marvaðann í skuggalegum viðskiptum sem hafa jafnvel einhver lagst þungt á þjóðarbúið.
Fólk sem tengist aflandsfélögum, þessari undarlegu peningablóðsugu sem hefur sogið máttinn úr hagkerfi Íslands, en lætur samt eins og það ætli að skera upp herör gegn þeim.
Fólk sem er frá unga aldri búið að þjóna blint í þeim tveimur stjórnmálaflokkum sem bera óumdeilanlega ábyrgð á hruni efnahags íslensku þjóðarinnar sem sér ennþá ekki fyrir endann á, sama hverju hver vill klína á hina svonefndu vinstristjórn – sem gárungarnir kölluðu Soffíu frænku.
Fólk sem rígheldur í umboð síðustu kosninga með þeim orðum að tuttugu og tvö þúsund manns sem mótmæli við Austurvöll séu ekki þjóðin.
Fólk sem þegir þegar flokksfélagar þess daðra við rasisma og hatursorðræðu.
Fólk sem hefur notað sitt lýðræðislega umboð til að veikja Ríkisútvarpið af því að það þolir ekki gagnrýna umræðu.
Svo má lengi upp telja, vandinn bara sá að pistillinn má ekki vera miklu lengri en þúsund orð.
Ísland í sjónvarpinu
Ég var komin hingað í þessum pistli, ýkjulaust, að velta fyrir mér næstu klausu þegar sonurinn hrópaði: Mamma, Ísland er í sjónvarpinu!
Og viti menn! Þegar ég kom inn í stofu sá ég hóp íslenskra mótmælenda sitja á kaffihúsi að líkja ástandinu á Íslandi við eldfjall. Yfirveguð rödd þýsks fréttaþular fjallaði af þunga um tengsl íslenskra ráðamanna við aflandsfélög um leið og mótmælendur á Austurvelli birtust á skjánum og blaðamyndir af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Næst mátti heyra viðtal við málarann og baráttukonuna Söru Óskarsdóttur og síðan gantaðist rithöfundurinn Hallgrímur Helgason með að landið hefði verið byggt af fólki sem flúði skattheimtur í Noregi og því hefði það byggst sem eins konar skattaparadís þar sem samfélagið hefði mætt afgangi.
Þarna var einnig fjallað um forsetaframboð rithöfundarans Andra Snæs Magnasonar sem manns sem vildi raunverulegar breytingar á borð við gagnsærra samfélag. Loks birtist Erna Ómarsdóttir og kynnti áhrifamikinn öskurdans sem hefði haft þau áhrif að áhorfendur hefðu viljað öskra með henni svo úr varð að hún bauð upp á svartan öskurkassa sem fólk gat sest inn í og öskrað.
Af hverju er fólkið að öskra? spurði sonur minn í þann mund sem þingmaðurinn Óttarr Proppé öskraði í kassanum en þar sem móðir hans var svo upptekin af að hlusta á fréttaþulinn svaraði hann sér sjálfur með nýrri spurningu: Vill það ekki búa á Íslandi?
Jú jú, sagði ég mædd. Það vill bara búa öðruvísi.
Veröld sem var
Þegar Íslendingarnir voru búnir að öskra birtist viðtal við konu að nafni Helga Nina sem kvaðst taka ljósmyndir af verslunarmenningunni í miðbænum, að mér skildist í von um að fanga anda borgarinnar síðustu hundrað árin áður en fjárfestar hefðu umbreytt miðbænum í einhvers konar verslunarkringlu í hótellobbíi.
Hún sýndi sjónvarpsfólkinu hvernig margslungin menning sérkaupmanna, hönnuða og handverksfólks, smáfyrirtæki sem sum hver hefðu verið þarna í nokkra ættliði, hefði þurft að víkja fyrir kleinuhringjabar, hótelum og lundabúðum. Það birtust kunnuglegar myndir úr gömlum verslunarfyrirtækjum í miðbænum, sem sum eru nú horfin, um leið og fréttaþulurinn sagði frá því að vegna stórtækra framkvæmda fjárfesta væri leigan í miðbænum orðin hinum venjulega Reykvíkingi um megn.
Það sem við blasti í sjónvarpsþættinum á ARTE var ríki fjárfesta og ófyrirleitinna stjórnmálamanna, þar sem fólk þyrfti jafnt að berjast fyrir sálinni í samfélaginu og sanngjörnu stjórnskipulagi. En lokaorð fréttaþularins voru þó á þessa leið: Reykvíkingar þora að berjast fyrir réttlátara samfélagi þegar margir aðrir í Evrópu þegja þunnu hljóði. Hver áhrif baráttu þeirra verða og hvert Ísland stefnir kemur í ljós á næstu vikum og mánuðum.
Lífsandi lýðræðis
Það er fólkið sem blæs anda í lýðræðið. Spurningin er ekki hvort lýðræðið eigi að snúast um rétt okkar eða hvort við ætlum að fórna okkur fyrir það heldur um samspil lýðræðis og íbúa. Lýðræðið á að virka í þágu íbúanna og til þess að lýðræðið geri það verða íbúarnir að starfa í þágu þess. Því lýðræðið er eins og lífvera. Það lifir við ákveðnar aðstæður og deyr við aðrar. En það krefst þess að við hlúum að því, rannsökum það og gagnrýnum ósmeyk á uppbyggilegan hátt, skiljum það, virðum það og virðum sjálf okkur. Það krefst þess að íbúum í lýðræðisríki finnist þeir búa við sanngirni og mannúðlegt regluverk, gagnsæi, upplýsingaflæði og ákveðna innri lógík. Þannig fúnkerar lýðræði. En þannig er staða mála ekki á Íslandi í dag.
Já, hvert stefnir Ísland – í frjóum jarðvegi popúlisma og botnlausri græðgi þeirra sem hafa eignað sér megnið af auði landsins?