Ákveðið var að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð vegna reksturs fyrirtækisins í fyrra á aðalfundi fyrirtækisins, en hann fór fram í febrúar. Þetta staðfesti Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, í samtali við Kjarnann. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem greiddur er arður úr félaginu, en hagnaður þess var 1,4 milljarðar í fyrra og eigið fé í lok árs um fjórir milljarðar.
Í lok árs í fyrra, í nóvembermánuði, seldi Landsbankinn Íslands 31,2 prósent hlut sinn í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem stofnað var skömmum fyrir kaupin á hlutnum. Tæplega 250 milljónir króna koma í hlut nýrra hluthafa.
Salan á Borgun var umdeild en hluturinn var ekki auglýstur til sölu en íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með um 98 prósent hlut. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landsbankans að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli. Þá voru einnig sterkar vísbendingar um það að verðið hefði verið í lægri kantinum miðað við hefðbundna mælikvarða verðmata á sambærilegum fyrirtækjum.
Stofnað í október
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð, samkvæmt stofnskjölum félagsins.
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.