Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi um úthlutun á makrílkvóta rétt fyrir páska sem viðbúið er skapi nokkrar deilur á Alþingi, enda skiptar skoðanir um það hjá stjórnmálamönnum hvernig stjórn fiskveiða á að vera. Þá eru hagsmunirnir sem undir eru gríðarlega miklir, og það hvernig að þessu verður staðið núna getur markað veginn til framtíðar þegar kemur að makrílveiðum, líkt og var raunin með lögfestingu kvótakerfisins. Heildartekjur af makríl hafa verið um og yfir 20 milljarðar á ári, síðustu árin.
Samkvæmt frumvarpinu verður aflahlutdeildum (kvóta) úthlutað niður á skip í áþekkum hlutföllum og á yfirstandandi fiskveiðiári. Enda byggir úthlutunin á núverandi fiskveiðiári á veiðieynslu fyrri ára. Útgerðir skipa og báta sem hafa aflareynslu frá árunum 2011-2014 fá aflahlutdeild í makríl úthlutað. Hömlur eru á viðskiptum með aflaheimildir. Framsal verður óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar verður heimil. Þetta þýðir að makrílkvótinn mun ekki geta gengið kaupum og sölum á milli útgerða líkt og tíðkast með aðrar tegundir innan kvótakerfisins. Í það minnsta ekki fyrst um sinn.
Í makrílfrumvarpi ráðherra verður kvótaskipting eftirfarandi:
- a) 90% til báta/skipa sem hafa aflareynslu frá árunum 2011-2014 (uppsjávar-, frysti- og ísfiskskip).
- b) 5% til smábáta sem veitt hafa makríl með línu eða handfæri á árunum 2009-2014.
- c) 5% til fiskiskipa í flokki a) sem unnu sérstaklega í manneldisvinnslu.
Á yfirstandandi fiskveiðiári, líkt og á fiskveiðiárunum þar á undan, var makrílkvótanum skipt niður á skip í uppsjávar-, frysti- og ísfiskskipaflokkum. Frá árinu 2009 hefur makrílveiðum verið stýrt með útgáfu veiðileyfa sem gilt hafa í eitt ár í senn á grundvelli reglugerða. Í smábátaflokknum er hins vegar „ólympískt“ fyrirkomulag, þ.e.a.s. bátar með sérútbúin veiðarfæri geta veitt frjálst þangað til heildarkvóta smábáta er náð.
Tímabundin úthlutun
Öfugt á við fyrri kvótasetningar á öðrum tegundum innan lögsögunnar (sbr. þegar kvótakerfið var sett á laggirnar árin 1983 og 1984) verður makrílkvótanum ekki úthlutað varanlega til langs tíma heldur er farin hálfgerð millileið og kvótanum úthlutað til sex ára með framlengingarákvæði. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi fram að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda eigi að taka við af varanlegri úthlutun. Því sé mikilvægt við hlutdeildarsetningu nýrra stofna að kveða skýrt á um úthlutun tímabundinna réttinda. Þá kemur einnig fram að meiri óvissa sé um makrílveiðar en um aðra stofna vegna stuttrar aflareynslu. Auk þess er rætt um að ósamið sé um makrílveiðar við aðrar þjóðir. Loks kemur fram að tilteknar útgerðir hafi stefnt ríkinu vegna „rangrar“ úthlutunar í makríl. Þetta er röksemdafærslan í frumvarpinu fyrir tímabundinni úthlutun.
Stórútgerðir hljóta að fagna
Þessi sex ára gildistími virkar þannig að kvótanum er úthlutað strax til útgerðarfyrirtækjanna til sex ára. Aflahlutdeildin (kvótinn) framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn nema lögum verði breytt. Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að kvótinn falli ekki niður að hluta eða öllu leyti með minna en sex ára fyrirvara. Þannig hafa útgerðir tryggingu fyrir því á hverjum tíma að halda sínum hlutdeildum næstu sex ár. Útgerðarfyrirtækin hafa því alltaf sex ár að lágmarki fyrir framan sig áður en til breytinga kemur. Til dæmis þýðir þetta að ef ríkið tilkynnir árið 2021 að það hyggist breyta fyrirkomulagi á úthlutun á makrílkvóta mun sú breyting ekki geta átt sér stað fyrr en árið 2027. Á mannamáli þýðir þetta að kvótanum hefur hálfvegis verið úthlutað varanlega og lagaleg staða þeirra útgerða sem fá hlutdeild núna verður mun sterkari miðað við þá stöðu sem nú er fyrir hendi með árlegri úthlutun byggða á reglugerðum til eins árs. Á heildina litið er þessi kvótasetning jákvæð fyrir stóru samsettu sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa mest stundað makrílveiðarnar. Fyrirtæki eins og HB Grandi, Ísfélag Vestmannaeyja, Síldarvinnslan, Vinnslustöðin, Skinney, Eskja, Huginn, Gjögur og Samherji munu öll fá háa hlutdeild í kvótanum enda hafa þau veiðireynslu.
Makrílkvóti mikils virði
Líkt og Kjarninn hefur áður bent á er verð á aflaheimildum í mikilvægustu tegundum innan lögsögunnar hátt. Verð á þorskkvóta er að lágmarki 2.500 kr/kg um þessar mundir. Verð á ýsukvóta er einnig mjög hátt. Þorskígildisstuðull makríls er 0,41. Miðað við verð á þorskkvóta gæti verðmiðinn á heildarmakrílkvótanum verið um 150 milljarðar. Vegna þess hve gildistími aflahlutdeildarinnar er stuttur er þó líklegt að virðið sé lægra. En þó er ekki gott að segja, þar sem arðsemin í makrílveiðum, vinnslu og sölu hefur verið mikil, og mun meiri hlutfallslega heldur en í þorskinum.
Makríll næst verðmætasta tegundin árið 2014
Árið 2014 var makríll næst verðmætasta tegundin innan lögsögunnar mælt í útflutningsverðmætum. Þorskurinn er vitaskuld lang verðmætasta tegundin, líkt og undanfarna áratugi. Árið 2014 nam útflutningsverðmæti þorsks tæpum 90 milljörðum króna, næst kom makríll með 22 milljarða. Á árinu 2014 veiddu íslensk skip um 167 þúsund tonn af makríl. Þetta þýðir að útflutningsverðmætið nam 134 kr/kg árið 2014. Makríllinn hefur komið eins og himnasending inn í íslenskan sjávarútvegs, einkum og sér í lagi eftir hrun fjármálakerfisins.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða 2014 | milljónir króna | Hlutfall |
Þorskur | 89.578 | 37,2% |
Makríll | 22.408 | 9,3% |
Síld | 16.380 | 6,8% |
Loðna | 14.978 | 6,2% |
Karfi | 14.161 | 5,9% |
Ýsa | 13.240 | 5,5% |
Ufsi | 11.910 | 4,9% |
Aðrar tegundir samtals | 58.047 | 24,1% |
Samtals | 240.701 | 100,0% |
Heimild: Hagstofa | ||
Sérstakt veiðigjald á makríl verður 10 kr/kg
Samhliða því að gildistíminn á aflahlutdeild í makríl er 6 ár hefur verið ákveðið að innheimt verði sérstakt veiðigjald frá þeim útgerðum sem fá makrílkvóta, til viðbótar við hefðbundin veiðigjöld, uppá 10 kr/kg. Þetta mun skila ríkinu árlega 1,5 milljörðum króna miðað við 150 þús. tonna makrílkvóta. Til samanburðar rukka Grænlendingar 0,95 danskar krónur á kíló (tæplega 20 kr/kg) þær útgerðir sem nýta grænlenskan makrílkvóta. Þessar 10 kr/kg ættu að vera vel viðráðanlegar í ljósi útflutningsverðmætisins (134 kr/kg árið 2014).