Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að hann líti svo á að meirihluti þjóðarinnar vilji að málskotsréttur forseta haldi sér. Sagan hafi sýnt að bölsýnisspár þeirra sem harðast börðust gegn því að forsetinn gæti sett lög í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi alls ekki reynst á rökum reistar. Þá hefur hann ekki ákveðið hvort hann ætli að bjóða sig fram til embættis forseta aftur á næsta ári, en að hann hafi bæði fengið áskoranir um að halda áfram og hætta. Ólafur Ragnar verður búinn að vera forseti Íslands í 20 ár þegar kosið verður til embættisins á næsta ári.
Þetta kemur fram í viðtali Sölva Tryggvasonar við Ólaf Ragnar í þættinum Fólk og frumkvæði sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.
https://www.youtube.com/watch?v=EPBc9oMn-zo
Í viðtali við sjónvarpsþáttinn Eyjuna í nóvember 2014 sagði Ólafur Ragnar að hefð væri fyrir því að forsetar landsins tilkynni hvort þeir ætli að hætta eður ei í nýársávarpi eða við setningu þings. Í þætti Sölva segir Ólafur Ragnar að hann muni tilkynna um framboð sitt í nýársávarpi sínu um komandi áramót.
Þar tjáir Ólafur Ragnar sig einnig um fjarveru sína úr forsetaafmæli Vigdísar Finnbogadóttur fyrr í sumar. Hann segir að viðburðurinn hafi ekki gert ráð fyrir honum. Verið hefði að heiðra Vigdísi og hann vildi ekki taka athygli frá henni. Þess vegna hafi gagnrýnin sem sett hafi verið fram verið sérkennileg.
https://www.youtube.com/watch?t=16&v=J9-JmDqgoRM
Ólafur Ragnar ræðir líka misskiptingu í viðtalinu og segir að í litlu samfélagi eins og því íslenska finni fólk alltaf meira fyrir henni en annars staðar. Alltaf sé hægt að gera betur í að skipta gæðum jafnar.