Síðastliðinn fimmtudag auglýsti Seðlabanki Íslands dótturfélag sitt Hildu ehf. til sölu. Það fór ekki mikið fyrir auglýsingunni, sem birtist meðal annars í Viðskiptablaðinu, og litlar upplýsingar komu fram í henni um þær eignir sem í félaginu eru.
Hilda hefur hins vegar leikið stórt hlutverk í uppgjöri Seðlabankans við bankahrunið undanfarin ár, ásamt móðurfélagi sínu Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ). Inn í þessi félög hefur þeim fullnustueignum og uppgjörssamningum sem Seðlabankinn hefur leyst til sín verið hrúgað. Í tilfelli Hildu eru aðallega um fasteignir og útlán að ræða, en samanlagt bókfært virði eignanna er um 15 milljarðar króna. Vegna þessa eru félögin tvö oft kölluð "ruslakistur" Seðlabankans í hálfkæringi.
Og nú á að selja þetta félag, sem er fullt af eignum sem teknar hafa verið upp í hrunskuldir, úr opinberri eigu til einkaaðila. Einkavæðing er að fara að eiga sér stað.
Var stofnað utan um ríkisskuld Sögu
Við bankahrunið var Seðlabanki Íslands tæknilega gjaldþrota. Íslenska ríkið tók yfir mörg hundruð milljarða króna skuldir hans og afskrifaði. Þær kröfur sem urðu til vegna þessarra skulda voru síðan færðar aftur til Seðlabankans árið 2009 svo hægt væri að endurheimta eitthvað af því tapi sem ríkissjóður hafði tekið á sig vegna hrunsins.
Ákveðið var að stofna sérstakt dótturfélag utan um þessar himinháu kröfur. Sumarið 2011 tók ESÍ yfir félag sem heitir Hilda. Það hafði verið sett á fót til að halda utan skuld Saga Capital við ríkissjóð, en hann hafði veitt bankanum 19,6 milljarða króna fyrirgreiðslu í mars 2009. Sú fyrirgreiðsla dugaði ekki til að halda Sögu á lífi og Hilda endaði í fangi ESÍ.
Síðan þá hefur Hilda leikið stórt hlutverk í „viðskiptum“ ESÍ.
Tók við fullt af eignum frá Dróma
Í lok árs 2013 var hluti eigna og skulda hins alræmda félags Dróma hf. (eignasafns SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans) fært til Hildu. Um var að ræða fyrirtækjalán og fullnustueignir Dróma, meðal annars það íbúðahúsnæði sem félagið hafði gengið að á starfstíma sínum. Einstaklingslán Dróma fóru hins vegar til Arion banka.
Við þessa breytingu jukust eignir Hildu mikið. Allt í einu voru bókfærðar eignir félagsins metnar á 32,5 milljarða króna. Stór hluti þeirra voru myndalegt fasteignasafn, en það verður að teljast afar óvenjuleg staða fyrir seðlabanka að eiga stórt safn fasteigna. Kjarninn fjallaði um umsvif Hildu á fasteignamarkaði í apríl 2014. Í þeim kom fram að Hilda héldi á þeim tíma á 350 fasteignum, 250 íbúðum og um 100 fasteignum sem teljast til atvinnuhúsnæðis. Hluti íbúðanna vöru í útleigu, aðrar voru í söluferli og sumar voru ekki í íbúðarhæfu ástandi. Á þessum tíma var því komin upp sú sérstaka staða að Seðlabanki Íslands var, í gegnum dótturfélag sitt, að selja íbúðir á markaði. Í fréttaskýringu Kjarnans í apríl 2014 kom enn fremur fram að Hilda kappkostaði að selja eignir ekki of hratt „þar sem slíkt gæti haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn og jafnvel stuðlað að lækkun fasteignaverðs.“
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur undir höndum skiptast eignir Hildu þannig að í félaginu eru nú 364 fasteignir sem metnar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna.
Hundruð fasteigna og milljarða virði
Ljóst er að Hildu hefur gengið ágætlega að selja eignir undanfarin ár. Um mitt þetta ár voru eignir félagsins komnar niður í 15,4 milljarða króna, og höfðu lækkað um 17,1 milljarð króna á einu og hálfu ári.
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur undir höndum skiptast eignir Hildu þannig að í félaginu eru nú 364 fasteignir sem metnar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna. Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 manns. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu. Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Þarft að eiga 750 milljónir til að taka þátt
Og nú á að selja allt hlutafé Hildu. Í því ferli gengur Seðlabankinn út frá því að lánsfjármögnun hans til Hildu, alls 12,6 milljarðar króna, verði greidd upp til viðbótar við greiðslu fyrir hlutafé félagsins. Því er ljóst að kaupverðið mun hlaupa á milljörðum króna og ekki á hvers manns færi að taka þátt í söluferlinu.
Arion banki sér um söluna. Samkvæmt skilyrðum sem sett hafa verið fyrir þátttöku í söluferlinu þurfa fjárfestar að sýna fram á að þeir eigi að lágmarki 750 milljónir króna sem þeir geti nýtt til fjárfestingar í félaginu til að fá að taka þátt. Stefnt er að því að þeir sem uppfylla skilyrði söluferlisins fái afhent frekari gögn, svo sem ársreikninga og fjárfestakynningu, þann 10. september 2015.
Þótt Hilda seljist þá er uppgjöri Seðlabankans á hruninu fjarri því lokið. ESÍ er enn í fullu fjöri og eignir félagsins voru metnar á 209 milljarða krona um síðustu áramót. Þeim á enn eftir að koma í verð.