Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna hf. sem standa að uppbyggingu á Hlíðarendareit, segir að svokallaðir flugvallarvinir hafi fengið að halda fram röngum fullyrðingum, villandi nafngiftum og yfirlýsingum í gegnum fjölmiðla sem ekki fá stoð í gögnum og samningum. Þar hafi verið haldið uppi miklu áróðursstríði fyrir því að flugbraut 06/24 væri neyðarbraut. „Sömu rangfærslum hefur verið haldið fram aftur og aftur gagnrýnislaust í fjölmiðlum þar til hluti almennings, og jafnvel sumir stjórnmálamenn, hafa byrjað að trúa þeim sem staðreyndum málsins.“
Þetta kom fram í máli Brynjars á opnum fundi um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík í morgun.
Staðið til að loka brautinni frá 2009
Mikill styr hefur staðið um framkvæmdir Valsmanna á Hlíðarendareitnum, en þar stendur til að byggja 600 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis. Til að framkvæmdirnar geti haft sinn gang þarf að loka flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, sem heitir einnig norðaustur suðvestur-braut og hefur á liðnum árum iðulega verið nefnd neyðarbraut í opinberri umræðu.
Lokun brautarinnar hefur staðið árum saman. Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Í október 2013 undirritaði Hanna Birna, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samþykkt um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þegar því yrði lokið átti að tilkynna um lokun brautarinnar. Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun flugbrautarinnar, með þeim fyrirvara að ekkert yrði gert fyrr en að Rögnunefndin myndi skila niðurstöðum sínum. Skýrslu hennar var skilað fyrr á þessu ári og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir.
Framkvæmdir við jarðvinnu á Hlíðarendareit eru þegar hafnar. Samgöngustofa hefur hins vegar ekki viljað leyfa verktökum að koma byggingakrönum fyrir á svæðinu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag að ríkið væri ekki að standa við sinn hluta samnings varðandi Rekyjavíkurflugvöll og skipulag í Vatnsmýrinni. Ákvörðun Samgöngustofu hefði veruleg áhrif á framkvæmdir á svæðinu og væri að valda verktökum fjárhagslegu tjóni.
Flugbraut notuð sem víglína í deilu um flugvöllinn
Brynjar var mjög harðorður í framsögu sinni í dag. Hann sagði tilveru Reykjavíkurflugvallar vera algjörlega óháða norðvestur suðaustur-flugbrautinni. „Þessi flugbraut er notuð sem víglína í deilu um tilvist Reykjavíkurflugvallar. Rangtúlkanir um mikilvægi hennar, hvort sem er fyrir völlinn í heild sinni, sjúkraflug eða rangnefni eins og að kalla brautina neyðarbraut hefur verið endurtekið efni í fjölmiðlum landsmanna.
Þessar deilur stefna nú upphafi byggingaframkvæmda á Hlíðarendareit í óvissu með tilheyrandi skaða fyrir fjölda aðila. Staðreyndin er sú að Hlíðarendareitur getur og mun byggjast upp í sátt við Reykjavíkurflugvöll. Það er ennþá tími til að snúa málinu á rétta braut og forða málaferlum með tilheyrandi fjáhagsskaða fyrir lóðareigendur, verktaka, fjölda hönnuða og Reykjavíkurborg. En ekki síst fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu sem fær ekki rúmlega 400 litlar íbúðir inn á íbúðamarkaðinn verði þessi deila ekki leyst. Og loks fyrir ríkissjóð því það er hann sem mun þurfa að bera skaðabótaábyrgðina af því að hafa skorast undan því að standa við undirritaða samninga.“