Símaskráin, sem hefur komið út í 110 ár, frá árinu 1905, kemur út í síðasta sinn á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já hf. sem gefur úr símaskránna. Upplýsingar um símanúmer einstaklinga og fyrirtækja verða áfram aðgengileg á rafrænan hátt.
Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptastjóri Já, segir þessa ákvörðun vera tekna í takti við nýja tíma. „Það hefur verið mjög ánægjulegt að standa að útgáfu Símaskrárinnar síðastliðin 9 ár og ávallt góður andi í kringum þetta verkefni hjá okkur. Við hjá Já komum til með að sakna Símaskrárinnar eins og eflaust margir sem hafa alist upp við það að fletta henni. Breyttir tímar kalla á breyttar áherslur en að sjálfsögðu sinnum við áfram upplýsingagjöf um símanúmer landsmanna í miðlum okkar í takt við þarfir neytenda."
Vegna þessara tímamóta mun koma út hátíðarútgáfa af Símaskránni á næsta ári. Stefán Pálsson sagnfræðingur hefur verið ráðinn til að skrá sögu hennar sem mun þá telja 111 ár.Hann segir varla hægt að hugsa sér hversdagslegri hlut en Símaskránna, fyrirbæri sem hafi verið til á hverju heimili frá því að hann man eftir sér. „En það er einmitt svo skemmtilegt að skoða þessa hversdagslegu hluti í nærumhverfinu og uppgötva að þeir eiga sér líka sögu og hafa þróast í takt við samfélagið. Símaskráin hefur komið út á hverju ári í meira en öld og er þess vegar líka samfélagsspegill. Ég hlakka til að kafa oní þessa sögu og skoða gamlar skrár með hagnýtum leiðbeiningum um allt frá notkun símtækja yfir í hvernig bregðast skuli við kjarnorkustyrjöld. Hver man ekki eftir tölvusímaskránni sem hægt var að kaupa á diskettu? Eða símaskránni sem Jón Páll reif í beinni útsendingu hjá Hemma Gunn? Og svo má rifja upp fyrstu símaskrána í Bandaríkjunum sem innihélt bara nöfn en engin símanúmer."
Í tilkynningunni segir að „Forsíða Símaskrárinnar hefur haft menningarlegt gildi og endurspeglað tíðarandann í samfélaginu hverju sinni. Hönnun á forsíðu þessarar síðustu Símaskrár verður í höndum Guðmundar Odds Magnússonar (Godds) prófessors við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.Fyrsta Símaskráin var gefin út af Talsímafélaginu árið 1905 og sátu meðal annars Thor Jensen, athafnamaður, Klemenz Jónsson, landritari, og Knud Zimsen, bæjarverkfræðingur og síðar borgarstjóri í Reykjavík, í stjórn félagins. Skráin innihélt 165 símanúmer og var alls 13 blaðsíður."
Goddur segir að viðhafnarsímaskráin muni þurfa að hafa lengri líftíma en aðrar. Hún þurfi helst að vera tímalaus og vinur sem flestra.