Ísland leikur stórt hlutverk í nýrri heimildarmynd kvikmyndagerðarmannsins Michael Moore, sem sýnd hefur verið á kvikmyndahátíðum í haust og var frumsýnd völdum hluta almennings á Þorláksmessu. Hún verður í sýningu í eina viku til að vera gjaldgeng til Óskarsverðlauna næsta árs en verður svo tekin aftur úr sýningu þangað til í febrúar. Mynd Moore heitir Where to Invade next og með henni vildi Moore að kynna það besta í Evrópu fyrir samlöndum sínum. Í myndinni ferðast Moore til Íslands, Finnlands, Noregs, Ítalíu og fleiri landa til að stela góðum hugmyndum landanna sem virka við samfélagsuppbyggingu í þeim tilgangi að flytja þær með sér aftur til Bandaríkjanna. Myndin er ein þeirra heimildarmynda sem kemur til greina þegar tilnefningar til Óskarsverðlauna fyrir bestu heimildarmynd á næstu verðlaunahátíð.
Moore dvaldi hérlendis í maí síðastliðnum og hvíldi mikil leynd yfir ástæðum þess að kvikmyndagerðarmaðurinn var staddur hérlendis. Hann hitti þó margt fólk og á meðal þeirra sem Moore fundaði með á meðan að á tveggja daga dvöl hans stóð voru Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur, Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fjárfestirinni Halla Tómasdóttir, Margrét Kristmannsdóttir, Hafdís Jónsdóttir í World Class, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands og Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Eggert Skúlason, ritstjóri DV, greindi frá því í þættinum Vikulokunum á Rás 2 á meðan að Moore var hérlendis að hann hefði vakið hann með símtali þá um morguninn og til stæði að þeir ættu fund síðar sama dag. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans varð aldrei af þeim fundi.
Reyndu að ná tali af útrásarvíkingum
Mikil leynd hvíldi yfir ástæðum þess að Moore kom til Íslands og héldu ýmsir íslenskir fjölmiðlar því upphaflega fram að hann væri að vinna að heimildarmynd um íslenska heilbrigðiskerfið. Það reyndist ekki rétt.
Hérlendis kynnti Moore, og fjölmennt teymi hans, sér meðal annars stöðu jafnréttismála, pólitískan aktivisma sem hefur skilað grundvallarbreytingum í stjórnmálum, fangelsismál og uppgjör Íslands við efnahagshrunið. Í tveimur síðarnefndu hlutunum fólst meðal annars að Moore ræddi við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, auk þess sem framleiðsluteymi hans reyndi að fá viðtal við þá bankamenn sem hlutu dóma í Al Thani-málinu sem nú afplána langa fangelsisdóma á Kvíabryggju og vildu fá að heimsækja hið opna fangelsi. Samkvæmt heimildum Kjarnans vildu þeir ekki ræða við kvikmyndagerðarmanninn og reynt var að koma í veg fyrir að aðstoðarfólk hans færi að Kvíabryggju til að mynda. Sú viðleitni skilaði þó ekki árangri. Þá reyndi teymi Moore að ná sambandi við aðra íslenska banka- og viðskiptamenn sem léku stórt hlutverk í risi og falli íslenska efnahagsundursins á árunum fyrir og eftir bankahrun.
Moore er einn þekktasti heimildargerðarmaður í heimi og hefur vakti fyrst athygli fyrir myndina á Roger and Me, sem fjallað áhrif þess að General Motors lokaði verksmiðjum sínum í heimaborg Moore, Flint í Michigan-fylki. Hann hlaut síðan Óskarsverðlaun fyrir heimildarmyndina Bowling for Columbine, sem fjallaði um hræðileg fjöldamorð tveggja skólapilta í bænum Columbine og byssumenninguna í Bandaríkjunum.
Árið 2004 kom svo út myndin Fahrenheit 9/11, sem fjallar um Bandaríkin í kjölfar árásanna sem áttu sér stað 11. september 2001. Sérstöku ljósi var beint að George W. Bush, forseta landsins, og sambandi fjölskyldu hans við Osama Bin Laden, sem bar ábyrgð á árásunum. Myndin var gríðarlega umdeild en feykivinsæl og fékk meðal annars æðstu verðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, Gullpálmann. Fahrenheit 9/11 er enn þann dag í dag sú heimildarmynd sem hefur halað inn mestar tekjur í sögunni, en í ágúst 2012 hafði hún tekið inn meira en 200 milljónir dala, um 26,4 milljarða króna. Árið 2005, þegar athyglin vegna Fahrenheit 9/11 var sem mest, var Moore á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamesta fólk í heimi.
Þekktustu myndir sem Moore hefur gert síðan eru Sicko og Capitalism: A love story. Hann hefur auk þess skrifað fjölmargar bækur og gert þrjár sjónvarpsþáttaraðir.