Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, segir það ekkert að því að eiga eignir á lágskattasvæðum ef þeir sem slíkar eigi greiði skatta af þeim eignum. Það væri löglegt á Íslandi og alþjóðlega. Það sé hins vegar verulega mikið að því þegar menn noti slík félög til að komast hjá greiðslu skatta og til að fela fé. Verðandi forsætisráðherra hvatti alla þá sem „orðið hafa fyrir því“ að fela peninga eða svíkja undan sköttum að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þetta kom fram í svari hans við óundirbúinni fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.
Áður en að Sigurður Ingi svaraði sinni fyrirspurn þá hafði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagt Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, ekki vera trúverðugan í gagnrýninni sinni á sig. Árni Páll hafði spurt Bjarna út í aflandsfélagaeign hans.
Augljóst væri að Árni Páll væri að nota umræðuna sem nú sé uppi til að reyna að bjarga eigin skinni í stjórnmálum. Bjarni segir Árna Pál vera að reyna að persónugera vandann í sér. Það væri ekki góð leið að fara í gegnum þá umræðu sem nú sé framundan með þeim hætti. Greinarmun þyrfti að gera á þeim sem væru með allt sitt á hreinu gagnvart lögum og reglum, þótt þeir hefðu átt aflandsfélög, og þeim sem notuðu þau til að komast hjá því að greiða sitt til samfélagsins. Þetta kom fram í svari Bjarna við óundirbúinni fyrirspurn Árna Páls á Alþingi í dag.