Tæplega helmingur ferðamanna, sem tók þátt í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Landsvirkjun, lýsti yfir áhuga á að heimsækja gestastofu í aflstöðu í næstu heimsókn sinni til Íslands og 37 prósent töldu að aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku á Íslandi myndi auka líkurnar á því að þau heimsæktu Ísland á ný. Þá kom fram að 97 prósent erlendu ferðamannanna voru jákvæð í garð endurnýjanlegrar orku hér á landi og 93 prósent höfðu tekið eftir orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum í heimsókn sinni. Þrír af hverjum fjórum sögðu að vinnsa endurnýjanlegrar orku hefði haft jákvæð áhrif á það hvernig þeir upplifðu íslenskra náttúru.
Ferðamennirnir voru ekki spurðir um afstöðu sína til einstakra virkjanaáforma heldur einungis núverandi orkuvinnslu. Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að fyrirtækið hafi í hyggju að láta vinna frekari kannanir á afstöðu erlendra ferðamanna til þeirra virkjana sem þegar hafa verið reistar.
Telur að tækifæri séu í orkutengdri ferðaþjónustu
Landsvirkjun telur könnunina sýna að tækifæri séu fyrir hendi í orkutengdri ferðaþjónustu á næstu misserum og árum. Fyrir liggi að aflstöðvar og rekstur tengdur þeimm, njóti þegar vinsælda hjá ferðamönnum. Dæmi um það séu eru Bláa lónið, jarðböðin í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun, orkusýningin í Reykjanesvirkjun og gestastofur Landsvirkjunar í Ljósafossstöð, Búrfellsstöð, Kröflustöð og Kárahnjúkastífla.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að könnunin staðfesti það sem haldið hefur verið fram um að ímynd Íslands sé samofin endurnýjanlegri orkuvinnslu. „Ísland er land grænnar orku í augum ferðamanna, sem finnst mikið til þess koma að öll okkar orkuvinnsla fari fram með endurnýjanlegum hætti.“