Efnisveitan Netflix er stærsti einstaki fjármögnungaraðili heimildarmyndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sagafilm vinnur nú að og til stendur að frumsýna á fyrstu mánuðum næsta árs. Myndin er sú fyrsta sem Netflix fjárfestir í á framleiðslustigi hérlendis en heildarkostnaður við myndina nemur um 100 milljónum króna. Auk Sagafilm og Netflix koma BBC og RÚV að verkefninu, en myndin mun heita „Out of Thin Air“ og mun Ólafur Arnalds semja tónlistina í henni. Alls munu um 20 manns koma að gerð verkefnisins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Netflix hefur verið að færa sig hratt upp á skaftið sem framleiðandi myndefnis, bæði leikins og heimildarmynda. Ein vinsælasta heimildarmyndaþáttaröð sem efnisveitan hefur framleitt er Making A Murderer, sem fjallar um mann að nafni Steven Avery og ungan frænda hans sem dæmdir voru fyrir morð en halda staðfastlega fram sakleysi sínu og berjast fyrir því að fá sakfellingu sinni hnekkt. Íslenska myndin mun verða svipað uppbyggð og þeir hættir í þeim skilningi að hún byggir að mestu á gömlu myndefni og viðtölum við þá sem tengjast málinu eða þekkja það vel.
Í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum voru sex ungmenni dæmd til þungrar fangelsisvistar fyrir að hafa orðið tveimur mönnum að bana. Lík mannanna hafa aldrei fundist og byggðist dómurinn því á öðrum sönnunargögnum, meðal annars játningum sem síðar voru dregnar til baka og haldið var fram að hefðu verið fengnar fram með pyntingum, meðal annars með því að láta hina grunuðu sitja í einangrunarvist í óhoflega langan tima. Sexmenningarnir voru öll dæmd í Hæstarétti árið 1980. Sævar Ciesielski var dæmdur í sautján ára fangelsi og Kristján Viðar Viðarsson í sextán ára, Tryggvi Rúnar Leifsson var dæmdur í þrettán ára fangelsi og Guðjón Skarphéðinsson í tíu ára fangelsi. Erla Bolladóttir var dæmd í þriggja ára fangelsi og Albert Klahn Skaftason í árs fangelsi.
Endurupptökunefnd mælti í fyrra með því að mál Sævars Ciesielskis, Tryggva Rúnars Leifssonar, Alberts Klahns Skaftasonar og Guðjóns Skarphéðinssonar verði tekin upp á nýjan leik. Hún mælti hvorki með né gegn því að taka upp mál Erlu Bolladóttur aftur og Kristján Viðar Viðarsson fór ekki fram á endurupptöku máls síns. Búist er við niðurstöðu endurupptökunefndar í haust og vonast heimildargerðarmennirnir eftir því að hún liggi fyrir áður en að vinnslu við gerð myndarinnar ljúki.
Vendingar urðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu um miðjan júní síðastliðinn þegar tveir menn voru handteknir og færðir til skýrslutöku vegna þess. Þeim var sleppt að lokinni yfirheyrslu en nýr vitnisburður liggur nú fyrir í málinu. Báðir mennirnir hafa komið við sögu lögreglu áður og afplánað refsingar.