Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur birt skýrslu sem gerð var fyrir hann og á að varpa ljósi á „hvernig kröfuhöfum voru færðir íslensku bankarnir með mikilli meðgjöf frá skattgreiðendum á með gríðarlegri áhættu fyrir ríkissjóð árið 2009.“
Í fréttatilkynningu segir að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem áttu sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa. Ríkissjóður tók á sig 296 milljarða króna áhættu í þágu kröfuhafanna.“
Skýrslan var kynnt á fundi með Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni nefndarinnar, í dag. Þar kom fram að þessi áhætta hafi þó ekki skilað ríkissjóði eða skattgreiðendum tapi því að hin ætlaða meðgjöf hafi náðst til baka í stöðugleikaframlögunum sem kröfuhafar föllnu bankanna greiddu.
Á fundinum var einnig greint frá því að nefndarmennirnir sem hafi staðið að gerð skýrslunnar hafi sjálfir unnið hana að hluta ásamt starfsmönnum nefndarinnar. Auk þess hafi utanaðkomandi sérfræðingar komið að gerð skýrslunnar en ekki var greint frá því hverjir þeir væru. Heildarkostnaður við gerð hennar er 90 þúsund krónur og greiddu Vigdís og Guðlaugur Þór þann kostnað úr eigin vasa.
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér og fylgiskjöl hennar hér.
Samhljóma ásökunum Víglundar Þorsteinssonar
Skýrslan leggur út frá því að sú ákvörðun fjármálaráðuneytisins árið 2009 að semja við kröfuhafa föllnu bankanna að eignast hlut í þeim nýju gegn því að fjármagna þá að hluta, hafi gengið gegn neyðarlögunum, hafi hunsað stofnefnahagsreikning sem Fjármálaeftirlitið hafi gefið út fyrir nýju bankanna þrjá og tekið fram fyrir hendurnar á eftirlitinu. Með þessu hafi Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, gloprað „niður gríðarlegum ávinningi.“ Guðlaugur Þór tiltók á blaðamannafundinum í dag að þessi ávinningur hafi þó náðst til baka með stöðugleikaframlaginu sem kröfuhafar Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings hafi greitt snemma á þessu ári.
Þær ásakanir sem fram eru settar í skýrslunni er samhljóma þeim sem Víglundur Þorsteinsson hefur sett fram þrívegis, og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur þegar rannsakað, og hafnað með skýrslu sem Brynjar Níelsson vann í fyrra. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um ásakanir Víglundar.
Þó fylgja með mikið magn fylgiskjala, meðal annars áður óbirtra fundargerða stýri- og samræminganefnda stjórnvalda, sem ekki hafa komið fyrir augu almennings áður.
Í skýrslunni segir að fylgiskjölin sýni „undarlegan ótta samningamanna við kröfuhafana og vanmáttarkennd gagnvart hátt launuðum lögfræðingaher þeirra. Þau sýna sérkennilega áráttu íslenska samningafólksins til að gæta hagsmuna viðsemjenda sinna og tryggja að þeir bæru ekki skarðan hlut frá borði.“
Á blaðamannafundinum viku bæði Vigdís og Guðlaugur Þór sér undan spurningum um að í skýrslunni fælist ásökun um lögbrot eða illan ásetning þeirra sem unnu að því að semja við kröfuhafa gömlu bankanna um fjármögnun hinna nýju.
Í skýrslunni segir hins vegar að samningsgerðin hafi gengið alfarið út á að friðþægja kröfuhafanna með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenska skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum. „Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð sem það tók á sig frá hruni bankanna.“
Kjarninn mun fjalla nánar um skýrsluna á morgun og greina innihald hennar.