Sautján aðildarfélög Bandalags háskólamanna bíða þess að ná fundi samninganefndar ríkisins (SNR) en úrskurður gerðardóms um kaup og kjör félagsmanna þeirra fellur úr gildi 31. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá BHM. „BHM átelur seinagang samninganefndarinnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins en flest þessara aðildarfélaga hafa beðið þess að ná fundum SNR um hríð og enn önnur hafa ekki undirritað viðræðuáætlun við nefndina. Lögum samkvæmt ber að undirrita slíka áætlun a.m.k. 10 vikum áður en samningar renna út. Samkvæmt þeim viðræðuáætlunum sem hafa verið undirritaðar á að ganga frá kjarasamningum aðildarfélaganna við ríkið fyrir mánaðamót. Á morgun er vika til stefnu og þessi staða er því ekki í samræmi við áform aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð,“ segir í yfirlýsingunni.
Grundvallarkrafa BHM og aðildarfélaga er sú að menntun verði metin til fjár, í komandi kjaraviðræðum. Þetta er meðal þess sem kemur minnisblaði BHM sem sent var til Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, 22. júní síðastliðinn, en og birt var á dögunum á vef Kjarnans.
Í minnisblaðinu koma meðal annars fram meginmarkmið, fyrir komandi kjaraviðræður.
Fyrir utan kjarasamningsbundnar hækkanir blasir við að í viðræðunum þarf að tryggja að lágmarki eftirfarandi:
- Að allir félagsmenn BHM-17 sem rétt eiga á launahækkun samkvæmt menntunarákvæði gerðardómsfái hana.
- Að sérkröfur aðildarfélaganna komist á dagskrá.
- Að launasetning félagsmanna aðildarfélaga BHM hjá fjölmörgum ríkisstofnunum, ekki síst í heilbrigðis- og menntunargeiranum, verði endurskoðuð. Sérstaklega þarf að huga að launasetningu félagsmanna aðildarfélaga BHM á Landspítalanum.
- Eftirmál samkomulags um jöfnun lífeyrisréttinda á milli markaða eru mörg og mikilvæg. Staða nýrra opinberra starfsmanna í nýju lífeyriskerfi er þar forgangsmál.
- Samkomulaga Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna, frá 19. september, þarf að virða.
BHM hvetur Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, til þess að ganga frá skipun SNR svo að samninganefndin geti gengið til kjarasamninga við aðildarfélög BHM.