Á framhaldsaðalfundi í Arion banka, sem fór fram í gær, bókaði lífeyrissjóðurinn Gildi, þriðji stærsti eigandi bankans með 9,6 prósent eignarhlut, sérstök andmæli vegna afgreiðslu stjórnar bankans á tillgöu um að heimila útgáfu áskriftarréttinda að hlutabréfum í Arion banka.
Gildi telur heimildina fela „fyrst og fremst í sér möguleika á því að koma á fót ígildi veglegs kaupréttarkerfis fyrir starfsmenn sem þræðir markalínur þeirra laga og reglna sem gilda um takmarkanir á árangurstengdum greiðslum hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja.“
Tillagan var samþykkt á aðalfundi Arion banka 17. mars síðastliðinn. Í henni felst að stjórn bankans er veitt heimild á næstu tveimur árum til að gefa út áskriftarréttindi fyrtir allt að 54 miljón nýjum hlutum í félaginu. Á næstu fimm árum er henni jafnframt heimilt að framkvæma nauðsynlega hlutafjárhækkun í tengslum við nýtingu réttindanna. Miðað við gengi bréfa í Arion banka í dag, sem er 59 krónur á hlut, er virði 54 milljón hluta í bankanum tæplega 3,2 milljarðar króna.
Í greinargerð með tillögunni sagði: „Stjórn ákveður hverjir fái rétti til að taka þátt í útboði þessara réttinda. Hvorki hluthafar né aðrir skulu njóta forgangsréttar til áskriftarréttindanna né hluta sem gefnir eru út í tengslum við nýtingu þeirra. Stjórn ákveður endanlegt söluverð áskriftarréttindanna á grundvelli áskriftarsöfnunar í lokuðu útboði og nánari skilmála þeirra.“
Fyrst felld en svo samþykkt
Á aðalfundinum var kosið um tillöguna en hún náði ekki nægjanlegum stuðningi, ⅔ atkvæða hluthafa, til að vera samþykkt, og var hún því felld.
Gildi telur að tillagan hafi verið felld vegna þess að fundastjóri hafi úrskurðað um það á fundinum. Engin heimild hafi verið til að endurskoða þá niðurstöðu eftir á.
Til að leysa þetta mál vildi Gildi að tillagana yrði borin upp á nýjan leik til atkvæðagreiðslu á framhaldsaðalfundi sem fór fram í gær. 14. maí. Áður en gengið yrði til atkvæða vildi Gildi fá að vita hverjir væru ætlaðir skilmálar áskriftarréttinda og hvað væri áætlað að stórum hluta heimildarinnar yrði úthlutað til stjórnenda Arion banka.
Kaupaukakerfi sem „þræðir marklínur“ laga og reglna
Stjórn Arion banka svaraði erindinu 11. maí. Og hafnaði því. Enn fremur svaraði stjórn Arion banka ekki spurningum Gildis. Gildi telur það ekki eiga sér neina stoð í lögum að gera það.
Á framhaldsaðalfundinum í gær, sem var aðallega haldinn til að fresta ætlaðri tíu milljarða króna arðgreiðslu sem bankinn hafði ætlað að greiða hluthöfum sínum áður en að COVID-19 skall á af fullum þunga, lagði Gildi fram bókum þar sem sjóðurinn sagði að stjórn Arion banka hafi borið að setja málið á dagskrá. „Afstaða stjórnar til tiltekinna málefna geta ekki ráðið því hvaða mál hluthafar taka til umfjöllunar, enda engar slíkar takmarkanir á rétti hluthafa til að setja mál á dagskrá. Áskilur sjóðurinn sér rétt til þess að grípa til viðeigandi aðgerða af þessu tilefni, sem geta m.a. falið í sér kröfu um boðun nýs hluthafafundar þar sem málefnið verði sett á dagskrá.“
Í bókuninni segir enn fremur að það valdi „raunar áhyggjum að óskað hafi verið eftir heimild af þessu tagi á aðalfundi félagsins. Að mati Gildis felur heimild sem þessi fyrst og fremst í sér möguleika á því að koma á fót ígildi veglegs kaupréttarkerfis fyrir starfsmenn sem þræðir markalínur þeirra laga og reglna sem gilda um takmarkanir á árangurstengdum greiðslum hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja.“