Afkoma stærstu sveitarfélaga landsins virðist nú fara versnandi. Uppgjör síðasta árs og nýlegar tölur um afkomu þriggja stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkurborgar, Kópavogs og Hafnarfjarðar, ber þess glöggt vitni. Þetta kemur fram í umfjöllun greiningardeildar Arion banka um fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Kostnaður sveitarfélaga hafa hækkað hratt að undanförnu, ekki síst vegna hækkunar á launakostnaði umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. „Í tilviki Kópavogsbæjar jókst launakostnaður t.a.m. um rúm 14 prósent á fyrri hluta ársins samanborið við sama tímabil 2014 á meðan tekjur sveitarfélagsins jukust um fimm prósent. En laun og launatengd gjöld eru um helmingur af heildarrekstrarkostnaði sveitarfélaga á Íslandi. Versnandi afkoma kemur alls ekki á óvart og er í raun framhald af þróun síðastliðins árs þar sem veruleg sveifla var til hins verra í afkomu íslenskra sveitarfélaga eftir mikinn rekstrarbata árin þar á undan,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Eins og sést á þessari mynd, þá hefur þróunin verið neikvæð í fjármálum stærstu sveitarafélaga landsins að undanförnu. Mynd: Arion banki.
Laun og launatengd gjöld eru um helmingur af heildarrekstrarkostnaði sveitarfélaga á Íslandi, og því eru miklar áskoranir framundan í rekstri sveitarfélaga þar sem launahækkanir sem samið hefur verið um, munu hafa mikil áhrif á grunnreksturinn.
Á heildina litið, sé litið til fjárhagsstöðu 27 sveitarfélaga sem eru með 1.500 ibúa eða fleiri, þá hefur staðan farið versnandi. Mynd: Arion banki.
Eins og fram kom í umfjöllun Kjarnans, 27. ágúst síðastliðinn, þá var rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar (A og B hluta) jákvæð um 303 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er langtum minni afgangur en áætlanir gerðu ráð fyrir, en í þeim var gert ráð fyrir 2.141 milljón króna afgangi á tímabilinu. Ástæður fyrir slæmu hálfsársuppgjöri eru sagðar minni hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur vegna lækkandi álverðs og einnig lakari afkomu A-hluta borgarinnar en áætlun gerði ráð fyrir. Þar ræður hækkun launakostnaðar og minni sala á byggingarrétti mestu, að því er sagði í tilkynningu borgarinnar. Alls nam tap af rekstri A-hluta rúmum þremur milljörðum króna.