Á fimmtudag var kynnt skýrsla um RÚV. Í aðdragandanum var upplýsingum úr henni lekið í valda fjölmiðla og kynning hennar vandlega skipulögð af almannatengslafulltrúa sem vinnur mikið fyrir helstu
leikendur í Sjálfstæðisflokknum. Tilgangurinn virðist hafa verið sá að setja, enn eitt árið, af
stað neikvæða umræðu um framtíð RÚV.
Nefndin sem vann skýrsluna fékk það hlutvert að fjalla um starfsemi og rekstur RÚV frá ohf.-væðingu 2007 og fram til dagsins í dag. Niðurstaða hennar var sú að rekstur RÚV er ósjálfbær. Sú niðurstaða hefur reyndar legið fyrir árum saman. Þ.e. stjórnendur RÚV telja sig ekki geta rekið fyrirtækið samkvæmt þeim þjónustusamningi sem er í gildi miðað við þær tekjur sem því er skammtað. Kjarninn fjallaði ítarlega um þessa stöðu í janúar síðastliðnum, þegar síðustu lotu í hinni hatrömmu baráttu um RÚV var ný lokið.
Í skýrslunni kemur einnig fram, og hefur ekki verið borið til baka, að áætlanir sem RÚV vinnur eftir í dag geri ráð fyrir því að RÚV fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi og að 3,2 milljarða króna lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag fyrirtækisins. Stjórnendur RÚV hafa væntanlega ekki ákveðið að reka fyrirtækið með þessum hætti og sjá svo til hvort þeir myndu komast upp með það. Einhver pólitískur ráðamaður hefur sagt þeim að þeir mættu það. Og samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í maí er sá ráðamaður Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Formaður fjárlaganefndar sagði hins vegar á fimmtudag að hvorki hærra útvarpsgjald né yfirtaka á skuldum kæmi til greina.
Nefnd komst að gamalli niðurstöðu
Það þurfti ekki að skipa nefnd til að komast að þessari niðurstöðu um fjármál RÚV. Raunar er einungis liðið tæpt ár síðan að stjórn RÚV lét PwC vinna úttekt „á tilteknum atriðum er varða fjárhag Ríkisútvarpsins ohf.“. Hægt er að lesa hana hér.
Það var einhver önnur ástæða fyrir því að setja saman þessa nefnd. Þess vegna fjallaði skýrsla nefndarinnar lika um breytingar í tækni og neytendahegðun og hvaða áhrif þær hefðu á ríkisfjölmiðilinn og hlutverk hans, þrátt fyrir að engin nefndarmanna hafi neina sýnilega sérþekkingu á fjölmiðlum.
Breytingar á fjölmiðlaumhverfi er risastórt og verðugt verkefni fyrir stjórnvöld að greina, bæði RÚV vegna og til að ramma betur inn starfsumhverfi allra fjölmiðla. Sú upplýsingabylting sem við erum að lifa er stærsta samfélagsbreyting frá iðnbyltingunni og þær leiðir sem neytendur velja til að nálgast efni hafa umpólast á örfáum árum.
Nálgun nefndarinnar á verkefnið er því miður yfirborðskennd og illa unnin. Hún tekur saman tölur um breytingar á áskriftarfjölda og áhorf og ber síðan saman rekstur RÚV við hluta af rekstri 365 miðla, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins. Sá samanburður er greinilega gerður á forsendum 365 þar sem stór hluti rekstrarkostnaðar fyrirtækisins (kostnaður við íþróttastöðvar þess), sem sannarlega á að falla undir framleiðslu- og dagskrárgerðarkostnað, er felldur út. Auk þess þarf RÚV að sinna ýmiskonar skilgreindri, og kostnaðarsamri efnisframleiðslu samkvæmt þjónustusamningi við ríkið, sem 365 þarf ekki að gera.
Rætt við tvo samkeppnisaðila
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram hverjir viðmælendur hennar við vinnslu úttektarinnar voru. Utan þeirra sem koma frá RÚV og stjórnsýslunni var rætt við tvo aðila: Sævar Frey Þráinsson, forstjóra 365 miðla, og Magnús Ragnarsson, nokkurs konar sjónvarpsstjóra Símans. Magnús var ráðinn í það starf í fyrra en var áður aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, þess ráðherra sem skipaði nefndina sem vann úttektina.
Þegar verið er að greina breytingar í tækni og neytendahegðun á hlutverki RÚV er ekki ásættanlegt að ræða bara við þá tvo aðila sem stýra helstu samkeppnisaðilum RÚV um tekjur á sjónvarps- og útvarpsmarkaði. Þeir munu eðlilega, með hagsmuni sinna fyrirtækja í huga, niðursetja RÚV í slíkum samtölum og láta af hendi gögn sem styðja stöðu þeirra. Auk þess eru fjölmargir aðrir minni miðlar að framleiða myndbandsefni, hlaðvarp og texta í beinni samkeppni við RÚV sem hafa allt önnur sjónarhorn fram að færa við vinnslu svona greiningar. Aðilar sem sjá til dæmis samvinnu við RÚV um efnisframleiðslu sem möguleika, en slík samvinna og efniskaup eru alþekkt í öðrum löndum sem reka ríkisfjölmiðil. Enginn áhugi var hins vegar á því samtali hjá skýrslugerðarmönnum.
Samandregið er því skýrslan endurtekning á þegar upplýstri fjárhagsstöðu RÚV, óvönduð greining á því fjölmiðlaumhverfi sem er við lýði hérlendis og skakkur samanburður á rekstrarkostnaði RÚV og 365 miðla. Framsetning hennar, sem er svört, er síðan sniðin að þeim pólitíska vilja sem er ríkjandi innan beggja stjórnarflokkanna um að grafa undan RÚV.
Meðal annars vegna þess að stjórnmálamennirnir eru ósáttir við fréttaflutning af sér og sínum flokkum.
Umræða endursýnd
Sú umræða sem nú er verið að hlaða í er endursýning á leikþætti sem síðast var settur á fjalirnar í fyrrahaust. Þá töluðu ráðamenn um skera þyrfti RÚV niður, stærstu einkareknu miðlarnir fóru hamförum við að berja á RÚV í von um bætta samkeppnisstöðu og margir starfsmenn ríkisfjölmiðilsins fóru í bönkerinn fyrir sitt fyrirtæki og réðust á alla sem fjölluðu ekki um starfsemi RÚV eftir þeirra forskrift.
Nú, eins og þá, liggur fyrir að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, vill klippa vængina af RÚV og nú, eins og þá, liggur fyrir að íhaldsöfl innan Sjálfstæðisflokksins, með djúpar rætur inn á Morgunblaðið, vilja helst loka ríkisfjölmiðlinum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem á að vera stefnumarkandi, samþykkti meira að segja ályktun um að ríkið ætti að selja RÚV. Það tók Illuga Gunnarsson þó einungis nokkra daga að sýna fram á að slík stefnumörkun er einungis til heimabrúks. Hann tilkynnti skýrt á fimmtudag að RÚV yrði ekki selt. En vegferðin er skýr.
RÚV mun samt standa af sér þessa aðför og í ljósi þess að kosið verður 2017 verður þetta líkast til sú síðasta í bili. Það er nefnilega enginn áhugi hjá meirihluta almennings að einkavæða eða leggja niður RÚV. Og hæpið að stjórnmálamenn séu að fara að leggja í þann slag á kosningavetri.
Ósnert pólitískt tækifæri
Í ljósi þess mikla stuðnings sem rekstur ríkisfjölmiðils hefur í samfélaginu vekur athygli að ekkert stjórnmálaafl virðist sjá sér tækifæri í að marka skýra stefnu um framtíð RÚV.
Stjórnmálamenn hafa alltaf viljað fikta í RÚV sjálfum sér til framdráttar. Áður fyrr var það gert í gegnum pólitískar ráðningar og afskipti pólitísk skipaðra útvarpsráðsmanna. Eftir að sú misnotkun var ekki liðin lengur hafa stjórnmálamenn beitt fjárveitingavaldinu í staðinn.
Þessu þarf að breyta. RÚV þarf að fá skilgreint hlutverk, skilgreinda tekjustofna og óhæði frá auglýsingamarkaði. Þetta hlutverk og þessir tekjustofnar þurfa að vera skýrt skilgreindir í lögum og í kjölfarið eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér með neinum hætti að fyrirtækinu, svo lengi sem það heldur sér innan skilgreindra kostnaðarmarka. Það á að fá frið til að móta langtímastefnu um að sinna öflugri dagskrárgerð, menningarhlutverki og fréttaþjónustu.
Markaður mótaður af hagsmunaaðilum
Samhliða ætti stjórnmálafl að sjá tækifæri í að bjóða upp á skýra sýn um bætt starfsumhverfi allra fjölmiðla á Íslandi. Það er rík krafa á meðal almennings um aðhald fjölmiðla og viti borna lýðræðislega umræðu. Hvorugt verður að veruleika ef faglegir fjölmiðlar, þeir sem veita slíkt aðhald og bjóða upp á slíka umræðu, eiga bara að starfa á hugsjóninni einni saman.
Það er ekkert leyndarmál að fjölmiðlarekstur er mjög erfiður. Nánast allir miðlar landsins eru reknir með tapi. Samhliða eru þeir stanslaust gagnrýndir fyrir að vera lélegir, oft af sama fólkinu sem vill ekki borga fyrir fréttir og kvartar yfir öllum öðrum tekjuöflunarleiðum sem fjölmiðlar reyna að feta til að reka sig.
Framundan eru stórkostlegir tímar í fjölmiðlun og samskiptum. Internetið, samskiptamiðlar og snjalltæki hafa breytt öllu. Það er ekki hægt lengur að stýra umræðu og stjórna flæði upplýsinga. Í þessu felast gríðarleg tækifæri til að þroska lýðræðið og umræðuna.
Staðan á íslenskum fjölmiðlamarkaði, í miðjum breytingarstorminum, er hins vegar ekkert sérlega beysin. Stór ástæða þess er sú að fjölmiðlamarkaðurinn hefur verið látinn afskiptur af reglugerðarvaldinu og hagsmunaaðilar, sem hafa mismunandi ástæður til þess að vilja hafa áhrif á umræðu, hafa fengið að móta hann.
Rekstrarerfiðleikar og óskýrar forsendur
Fyrir utan RÚV eru tveir risar á markaðnum: 365 miðlar og Árvakur. 365 miðlar eru í meirihlutaeigu aðila sem eru oft andlag frétta og hafa beinan hag af því hvernig fjallað er um þá. Fyrirtækið á einnig í augljósum rekstrarerfiðleikum sem birtast m.a. í því að það tilkynnir um skipulagsbreytingar nokkrum sinnum á ári. En undirliggjandi er að fyrirtækið segir upp fólki í hverri einustu endurskipulagningarlotu. Og sífellt færri vinna á fréttastofu fyrirtækisins.
Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, er ekki rekinn á rekstrarlegum forsendum. Það er einhver önnur ástæða fyrir því að halda úti fyrirtækinu. Þrátt fyrir að Árvakur hafi fengið 4,5 milljarða króna afskrifaða hjá endurreistum viðskiptabanka sínum á undanförnum árum – sem er ótrúlegt út frá samkeppnislegum sjónarmiðum – og eigendur fyrirtækisins hafi sett milljarð króna í nýtt rekstrarfé tapar það samt formúum. Vasar eigendanna, sem eru stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, eru hins vegar djúpir og engin hætta á að Árvakur sé að fara að hætta starfsemi.
Síðasta haust varð svo til vísir að öðru fjölmiðlaveldi þegar fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hrafnssonar keypti DV. Fyrirtækið hefur síðan bætt ýmsum öðrum miðlum í sarpinn, ráðið fokdýrt fólk til starfa og fjárfest töluvert í starfsemi sinni. Engin leið er að átta sig á því hvaðan peningarnir sem þarf til í þetta ævintýri koma. Það er að minnsta kosti ekki hægt að sjá það á nýjustu ársreikningum þeirra fyrirtækja sem tilheyra DV/Pressu-veldinu, vegna þess að engum þeirra hefur verið skilað inn til ársreikningaskráar.
Fyrir utan þessa stóru aðila eru nokkrir minni miðlar, margir hverjir syllumiðlar, að reyna að fóta sig í þessum dýragarði hagsmunagæslu, ríkisniðurgreiðslu, samkeppnishindrana og pólitískra afskipta þar sem engar almennar leikreglur gilda og Fjölmiðlanefnd hefur ekki heimild til að gera annað en að ávíta sjónvarpsstöðvar fyrir að sýna James Bond myndir of snemma á föstudagskvöldum.
Það þarf stefnu
Það þarf skýra stefnumörkun um stöðu ríkisfjölmiðils í íslensku samfélagi, skýra stefnumörkun um hvers konar samkeppnisumhverfi eigi að vera í fjölmiðlageiranum og skýra stefnumörkun um hvort og þá hvaða styrki eða greiðslur eigi að veita úr opinberum sjóðum til að stuðla að upplýstri, opinni, lýðræðislegri og vitrænni umræðu í íslensku samfélagi.
Það er gríðarleg eftirspurn eftir nákvæmlega þessu og stjórnmálaafl sem nær að búa til trúverðuga stefnu í þessum málum gæti vel náð í ansi mörg atkvæði út á hana. Ljóst er að frjálsir og óháðir fjölmiðlar myndu fagna slíkri stefnu.
Það þarf bara vilja til að móta hana.