„Samfélagið er að bregðast ákveðnum þjóðfélagshópi. Það er að leggja ákveðinn þjóðfélagshóp í einelti,“ sagði Ólafur Ólafsson, áður einn stærsti eigandi Kaupþings, í viðtali við Stöð 2 frá Kvíabryggju í gær þar sem hann afplánar dóm.
Viðtalið við Ólaf og samfanga hans tengdum Kaupþingi var liður í mjög fyrirferðamikilli herferð þeirra sem annað hvort hafa hlotið dóma fyrir hruntengda glæpi eða eru til rannsóknar í slíkum málum þess efnis að bankafólk sé fórnarlömb samsæris. Undanfarnar vikur og mánuði hefur sú herferð birst í fjölmörgum aðsendum greinum í blöð frá aðstandendum, lögmönnum, fyrrverandi upplýsingafulltrúum eða mönnunum sjálfum þar sem talað er um aðför að réttaríkinu og dómsmorðið sem þeir hafi orðið fyrir.
Hún birtist í stöðuuppfærslum á Facebook þar sem óréttlætið sem þeir hafa orðið fyrir er sett í dramatíska búninga og góðmennska og mannkostir þeirra sem orðið hafa fyrir því tíunduð. Hún birtist í harmakveinum yfir gríni í Áramótaskaupi.
Og hún birtist, að því er virðist skipulega, í völdum fjölmiðlum tveggja af stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækjum landsins í formi frétta og skoðanagreina. Fjölmiðlum sem stýrt er af fólki sem ítrekað lýsti þeirri skoðun sinni á rannsóknum á efnahagsbrotum að þær hafi verið óþarfar, áður en þær annað hvort fóru fram eða var lokið. Eftir að dómar hafa fallið í málum hefur engin breyting orðið á þessari framsetningu. Þvert á móti hefur verið gefið í og samsærið útvíkkað.
Allir fremja samsæri gegn bankamönnum
Bankamennirnir sem hafa verið dæmdir í fangelsi, viðskiptamennirnir sem bíða þess að mál þeirra verði leidd til lykta, fólkið í kringum þá og tvö af sterkustu fjölmiðlaveldum á Íslandi vilja selja okkur þá hugmynd að ráðamenn þjóðarinnar hafi á ögurstundu haustið 2008 framið samsæri gegn bankamönnum með því að setja neyðarlög í landinu. Að forsætisnefnd Alþingis, sem í sitja fulltrúar allra flokka, hafi framið samsæri gegn þeim með því að samþykkja lög um rannsóknarnefnd Alþingis í desember 2008 til að rannsaka bankahrunið og að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hafi tekið þátt í því samsæri með framlagningu laga um sérstakan saksóknara nokkrum dögum síðar. Síðan hafi flest allar stofnanir landsins; fjölmiðlar, eftirlitsstofnanir, ákæruvald og á endanum íslenskir dómstólar hoppað á vagninn og tekið virkan þátt í samsærinu. Í raun er allur almenningur, allar stofnanir landsins, stjórnmálamenn og réttarkerfið að fremja samsæri gegn þessum mönnum. Nú eru Fangelsismálastofnun og Michael Moore búin að slást í hópinn við að gera líf þessara manna óbærilegt.
Mistökin sem mennirnir sem voru í viðtali í gær sögðust hafa gert voru aðallega tvenns konar: annars vegar að hafa ekki mætt í fleiri viðtöl og hins vegar að treysta á kerfið. Ekkert var fjallað um efnisatriðin í þeim dómi sem er ástæða þess að þeir sitja þar sem þeir sitja. Dómi þar sem skýr niðurstaða æðsta dómsvalds landsins, eftir eina réttarfarveginum sem við höfum sem samfélag, er sú að það sé ólöglegt að blekkja í tilkynningum til markaðarins, að fjármagna eigin viðskipti og að segja ósatt um fjármögnun risastórra hlutabréfakaupa.
Mennirnir sem voru dæmdir ákváðu nefnilega að segja að Sjeik Al Thani væri að kaupa hlut í Kaupþingi. Þeir sögðu engum að Ólafur Ólafsson, einn stærsti hluthafi bankans, væri þátttakandi í ferlinu og gæti mögulega hagnast á því. Þeir sögðu engum að Kaupþing borgaði fyrir fjárfestingu Al Thani og tók veð í bréfunum sjálfum. Þúsundir Íslendinga áttu hlut í Kaupþingi á þessum tíma. Geymdu sparifé sitt í þeim hlutabréfum og treystu því sem þessir menn sögðu opinberlega. Margir keyptu meira að segja hlutabréf í kjölfar yfirlýsingar um kaup Al Thani. Allt þetta fólk tapaði öllu sínu fé. Þetta voru ekki mistök sem vert væri að gangast við að mati þeirra sem voru dæmdir í málinu.
Ekki heldur þau almennu áhrif sem rekstur viðskiptabankanna og þeir gjörningar sem framdir voru þar, og hafa síðan verið opinberaðir, höfðu á íslenskt efnahagslíf og –samfélag í heild sinni. Algjört hrun sem þurrkaði út gríðarlegt magn eigna, rýrði verðgildi gjaldmiðilsins um tugi prósenta, skildi ríkissjóð eftir á barmi þrots og Seðlabankann án gjaldeyrisforða. Sem skildi Ísland eftir í nýjum og erfiðari veruleika sem almenningi var gert að axla. Það voru ekki mistök. Nei, mistökin, að sögn Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings, voru þau að ríkið setti neyðarlög til að verja innstæður almennings.
Alvarlegustu efnahagsbrot Íslandssögunnar
Í dómi Hæstaréttar í Al Thani-málinu segir að brotin hafi beinst „í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Samt er niðurstaðan í Al Thani-málinu ítrekað borin saman við frægasta mál íslenskrar réttarfarssögu, Guðmundar- og Geirfinnsmálið, þegar verið er að undirstrika hversu illa afvegaleitt réttarríkið er og hversu alvarleg dómsmorðin sem framin eru á bankamönnum eru. Samanburður á þessu tvennu er þó fjarstæðukenndur. Guðmundar-og Geirfinnsmálið snýst um að hópur ungmenna var sakfelldur fyrir að hafa orðið tveimur mönnum að bana án þess að lík þeirra hefðu nokkru sinni fundist og þrátt fyrir algjöran skort á sönnunargögnum. Sakfellingin byggði á játningum sakborninga sem þau drógu öll til baka og sögðu að hafi verið náð fram með harðræði við rannsókn málsins. Í hrunmálunum er nánast undantekningarlaust ekki tekist á um hvað hafi gerst eða hvernig það hafi verið gert. Atburðarrásin og ákvörðunartökurnar eru að mestu staðfestar, málsskjöl skipta þúsundum og fjölmargir vitnisburðir liggja fyrir. Almenningur getur lesið ítarlega um málið í mörg þúsund blaðsíðna skýrslu sem ríkið lét vinna, selja í bókabúðum og birta á netinu. Í þessum málum er fyrst og síðast tekist á um hvort það sem sakborningum er gefið að hafa gert sé ólöglegt eða ekki.
Og það var sannarlega ekkert sjálfsagt að þessir gjörningar væru ólöglegir eða bara vítavert skeytingarleysi. Allt í þessum málum var fordæmalaust. Þess vegna var nauðsynlegt fyrir samfélagið allt að rannsaka málin, eftir atvikum ákæra í þeim og fá niðurstöðu fyrir dómstólum. Sú niðurstaða liggur nú fyrir í hluta málanna. Í flestum þeirra hefur verið sakfellt. En við það sætta menn sig ekki. „Í mínum huga eru þetta ekki alvöru lög sem unnið er eftir,“ sagði Ólafur Ólafsson í Íslandi í dag í gær. Samfélagið allt, og allar stofnanir þess, eru að bregðast ákveðnum þjóðfélagshópi, bankamönnum. Lög sem dæma þá seka eru ekki alvöru lög.
Það vantar efnislega umræðu
Þegar hrundómarnir, sem eru fordæmalausir, falla þá geta leikmenn ekki annað en nálgast þá út frá því að eini farvegur réttarríkisins hafi verið nýttur og að niðurstaða hans liggi fyrir. Þar með er ekki sagt að það eigi ekki að fara fram umræða um dómana, þær túlkanir dómara sem fram í þeim eru settar og jafnvel hvort að gæði rökstuðnings séu nægjanleg. Sú umræða sem nú fer fram um málin er hins vegar einhliða og að mestu frá aðilum sem voru löngu búnir að marka sér stöðu í málunum áður en dómarnir sjálfir féllu. Hún er að langmestu leyti ekki efnisleg, heldur tilfinningaleg. Þess vegna dregur úr vægi þeirra skoðana. Það vantar hins vegar að fræðasamfélagið, og fagstéttin lögmenn, taki þátt í umræðu um þessa dóma á opinberum vettvangi án tenginga við sakborninga eða saksóknara, heldur út frá niðurstöðunni einvörðungu. Til þess hafa lögmenn og fræðingar greinarinnar verið tregir og í einkasamtölum bera þeir sérstaklega fyrir sig hagsmuni. Þ.e. að þátttaka í slíkri umræðu geti komið í veg fyrir að þeir fái ákveðin verkefni í framtíðinni.
Það sem við þurfum ekki er síbylja um að allar stoðir sem við byggjum samfélagið okkar á séu svo rótspilltar að þær séu tilbúnar að taka lög úr sambandi gagnvart einum þjóðfélagshópi vegna þess að hann sé svo illa liðinn.
Það eru ein lög í landinu sem ná yfir alla. Þau ná yfir ríka, klára, vel æfða, fallega klædda og myndarlega fólkið á sama hátt og þau ná yfir litlu sílin sem vanalega eru dæmd til refsingar.
Gott fólk getur nefnilega líka gert slæma hluti.