Jafnréttisbaráttan og velmegunin hefur fært okkur samfélag sem stofnanavæðir barnauppeldi. Barn er vart fyrr komið í heiminn en stofnanir taka við því og annast það lungann úr deginum, jafnvel lengur en sem nemur vinnudegi fullorðins fólks. Nú hef ég ekkert á móti leikskólum, grunnskólum, skóladagheimilum eða öðrum vistunarstöðum barna, hef nýtt þá alla að vissu marki, en spyr mig hvort þessar stofnanir séu orðnar að eins konar munaðarleysingjahælum.
Það eru vafasamar framfarir að foreldrar skuli neita sér að talsverðu leyti um samvistir við börnin sín og afsala sér ábyrgð á uppeldi þeirra sem því nemur. Þetta er þeim mun vafasamara sem þau eru yngri. Ég hélt að jafnréttisbaráttan hefði ekki aðeins átt að færa okkur – körlum og konum – val um það að hve miklu leyti við sæktumst eftir frama utan heimilisins, heldur líka svigrúm til að sinna börnunum okkar, ekki síst fyrstu árin. Niðurstaðan er hins vegar sú að flestir foreldrar vinna fulla vinnu frá því barn verður eins árs eða svo; fæðingarorlofið bjargar fyrsta árinu. Og hvaða ástæða er oftast gefin? Jú, fólk hafi ekki efni á því að vera heima hjá börnunum, rétt eins og barnið sé ekki rétthærra en peningar. Þetta á ekki síst við þegar rætt er um að feðurnir verði heima sem sýnir okkur nauðsyn þess að jafna laun kynjanna.
Fyrstu árin eru viðkvæmasta æviskeið hvers einstaklings. Þá er þörfin fyrir skilyrðislausa ást ofar hverri kröfu að mati sálfræðinga. Útvistun uppeldisins hlýtur því að hafa áhrif á mótun barnanna. Þann 19. janúar sl. kom fram í viðtölum við barnasálfræðingana Soffíu Elínu Sigurðardóttur og Helgu Arnfríði Haraldsdóttur í fréttatíma Sjónvarpsins að kvíði er æ algengari fylgifiskur þessa fyrirkomulags enda sé dagskráin stundum þéttari hjá börnunum en foreldrunum þegar tómstundastarfið er tekið með. Þar að auki séu börnin stöðugt að vinna eftir forskrift annarra, stöðugt verið að gera kröfur til þeirra, og þess vegna hafi þau minni tíma til að leika sér frjálst. Ég spyr: Skyldi þetta hafa áhrif á sköpunargáfu og frumkvæði?
Rannsóknir hafa sýnt að mikil fjarvera foreldra frá börnum, t.d. vegna yfirvinnu, hefur neikvæð áhrif á málþroska, auk þess sem fylgni er á milli fjarveru og vímuefnaneyslu. Þá hefur Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir fært rök fyrir því, m.a. í bókinni Árin sem enginn man: áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna, að tengslamyndun fyrstu áranna hafi afgerandi áhrif á sjálfsmynd barna, samskiptahæfni þeirra og hæfileikann til að tengjast öðrum á fullorðinsárum. Hún hefur líka bent á að atlætið fyrstu árin hafi áhrif á geðheilbrigði fólks það sem eftir er ævinnar. Þetta þýðir að börn sem lítið hafa af foreldrum sínum að segja á viðkvæmum mótunaraldri fá annars konar sjálfsmynd en hin og margt bendir til þess að fjarvera foreldranna hafi áhrif á hæfni þeirra til að fást við streitu og setja sig í spor annarra „og virða [þau] þar af leiðandi hvorki reglur né mörk samfélagsins,“ segir Sæunn í greininni „Við vissum það ekki þá en við vitum það núna“. Samfélagsgerðin hlýtur því að breytast þegar flestir alast upp á stofnunum og kannski erum við þegar farin að sjá merki þess. Ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem unnið er í skólakerfinu og tómstundastarfi en fyrr má nú rota en dauðrota.
Það einkennilegasta í þessu öllu er samt að foreldrar skuli hafa fyrir því að eignast börn til þess að koma þeim strax í vistun, rétt eins og foreldrahlutverkinu hafi verið útvistað sem hverjum öðrum verkþætti og hafi minnst með hina raunverulegu foreldra að gera. Samfélagsforeldrun hafi tekið við. Sjálfur var ég svo eigingjarn að ég gat ekki neitað mér um samveru við syni mína í uppeldinu – vann heima og var heimavinnandi þótt ekkert væri feðraorlofið og sé ekki eftir því. Þetta voru góð ár þótt við hjónin hefðum þurft að neita okkur um gólfefni og glæsibifreið. Nú njótum við hins vegar afrakstursins í ýmsu formi. Enn er það svo að ég veigra mér við að vera lengi í útlöndum án sona minna þó að starf mitt bjóði upp á það og geri jafnvel vissa kröfu til þess. Hva, geta þeir ekki verið einir heima? spurði kunningi minn. Jú, þeir geta verið einir heima en ég vil bara umgangast þá sem mest meðan þeir búa enn heima.