Viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra
við réttmætum og eðlilegum spurningum um hæfi hans til að taka ákvarðanir um
mótun og framkvæmd áætlunar um losun hafta hafa ekki bætt stöðu hans. Þau hafa
einkennst af hroka, sjálfsupphafningu og fullkominni vangetu til að setja sig í
spor annarra og sjá sig utan frá. Fyrst með því að svara engum spurningum
fjölmiðla í tíu daga, og svo með þeim svörum sem hann bauð upp á í mjög
þægilegum viðtölum við Fréttablaðið og Útvarp Sögu í gær, þar sem skýrt kom
fram að hann teldi sig ekki hafa gert nein mistök. Raunar hefur Sigmundur Davíð
aldrei, svo ég muni, gengist við því að hafa gert mistök.
Þaulskipulögð viðbrögð þingmanna Framsóknarflokksins og annarra úr innsta hring hans hafa heldur ekki verið þess eðlis að þau hafi jákvæð áhrif fyrir forsætisráðherra. Raunar hafa þau gert stöðuna mun verri fyrir hann. Sú skipulagða bræði hefur falist í því að ráðast á nafngreint fólk og fjölmiðla fyrir að vera óbilgjarnt gagnvart þjóðhetjunni Sigmundi Davíð. Hún hefur gengið út á að það ætti öllum að vera sýnilegt að Sigmundur Davíð hafi gengið manna harðast fram gegn kröfuhöfum. Það megi enginn draga í efa.
Vandamálið við þessa röksemdafærslu er að það eru afar fáir sem draga það í efa að forsætisráðherra hafi gengið hart fram í þessu stóra hagsmunamáli, þótt hann hafi haft nokkuð margar misvísandi skoðanir á hvernig ætti að leysa það. Og flestir, með nokkrum háværum undantekningum, virðast á þeirri skoðun að lausnin sem samið var um í fyrra við kröfuhafa sé mjög góð fyrir Ísland.
Þótt að Framsóknarmenn og DV öskri það af torgum að Sigmundur Davíð hafi nánast leyst málið einsamall þá er það kannski ekki endilega svo. Að minnsta kosti virðast allir aðrir sem komu að málinu af alvöru vera annarrar skoðunar. Þeirra meining, sem þeir sjá ekki þörf fyrir að básúna við hvert tækifæri, er sú að fyrri tvær ríkisstjórnir, Seðlabanki Íslands og síðast en ekki síst Bjarni Benediktsson, sem hafði málið á sínu forræði og ábyrgð, eigi ríkan þátt í því að málinu var lent með þeim hætti sem var gert.
Bardagahanabræðin
Þess utan snýst Wintris-málið ekki um meinta hörku forsætisráðherra. Það snýst heldur ekki um eiginkonu hans. Málið snýst í grunninn um tvennt: annars vegar hvort forsætisráðherra var hæfur til að koma að þeim ákvörðunum sem hann kom að varðandi losun hafta og hins vegar að forsætisráðherra leyndi almenningi upplýsingum sem sannarlega hefðu getað haft mótandi áhrif á kjósendur í kjörklefanum fyrir síðustu kosningar.
Bardagahanabræðin í hverjum þingmanni Framsóknar á fætur öðrum hefur ekkert gert til að draga úr mikilvægi þess að fá öllum spurningum um hæfi forsætisráðherra svarað né dregið úr kröfunni um að allar upplýsingar um erlendar eignir allra ráðherra verði dregnar fram. Það verður þó líkast til ekki gert nema með aðkomu umboðsmanns Alþingis, sjái hann tilefni til að taka málið upp. Eða annarra eftirlitsstofnanna eins og Fjármálaeftirlitsins, sem ber að fylgjast með réttri skráningu innherja.
Í millitíðinni ætti forsætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn, að íhuga vandlega að fá sér nýja ráðgjafa. Því vinur er sá sem til vamms segir, ekki sá sem mælir einungis af meðvirkni.
Tími vantraustsins
Á þingi virðist stjórnarandstaðan vera að bræða með sér vantrauststillögu á forsætisráðherra. Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem vantraust yrði borið fram á Alþingi eftir hrun. Þann 24. nóvember 2008 lagði þáverandi stjórnarandstaða fram vantrausttillögu á ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Steingrímur J. Sigfússon, þá formaður Vinstri grænna, mælti fyrir tillögunni. Hún var felld með afgerandi hætti.
Í apríl 2011 var Steingrímur, og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, komin hinum megin við borðið. Þá var lögð fram vantrausttillaga, af Sjálfstæðisflokknum sem leiddur var af Bjarna Benediktssyni, tveimur dögum eftir að þjóðin hafði hafnað Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu í annað sinn. Tillagan var naumlega felld með 32 atkvæðum gegn 30. Einn þingmaður sat hjá.
Í mars 2013, einungis nokkrum vikum fyrir síðustu kosningar, lagði Þór Saari, þá þingmaður Hreyfingarinnar, fram vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess að hann taldi ríkisstjórnina hafa svikið loforð um að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, þeir tveir flokkar sem hafa gert mest allra til að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá, studdu tillöguna. Tillagan var á endanum dregin til baka.
Gætu gert Sjálfstæðisflokkinn samsekan
Það skal fullyrt hér að sú tillaga sem nú virðist vera í burðarliðnum verður aldrei samþykkt, og stjórnarandstaðan veit það líklega. Í því felast ekki nægilega mikil pólitísk tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem á enn eftir að sigla nokkrum málum í höfn sem hann ætlar sér að nota við tælingu á kjósendum vorið 2017.
Vantrauststillaga gæti þó verið klókt herbragð hjá stjórnarandstöðuflokkunum, sérstaklega þeim þremur sem eru bókstaflega að berjast fyrir tilveru sinni: Samfylkingu, Vinstri grænum og Bjartri framtíð. Það er reyndar verðugt rannsóknarefni hvernig þeim þremur flokkum tekst ekki með nokkrum hætti að skapa sér stöðu og tilgang í þeirri miklu sundrungu og óánægju sem ríkir í íslensku samfélagi. Raunar má verulega fara að efast um almennt erindi flokkanna í ljósi þessa. En það er önnur og lengri saga.
Með því að leggja fram vantrauststillögu gera stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkinn, sem mun að mestu verja forsætisráðherra fyrir vantrausti, hins vegar samsekan með Sigmundi Davíð. Þeir neyða samstarfsflokkinn til að verja forsætisráðherra með formlegum hætti. Og halda málinu lifandi.
En það verður sem fyrr aðrir angar samfélagsins sem áfram bera hitann og þungann af því að leiða til lykta hvort það trúnaðarbrot sem við okkur blasir sé eitthvað sem eigi ekki að hafa neinar afleiðingar. Þeir eru fjölmiðlar, eftirlitsstofnanir og að endingu almenningur. Þeir sjá forsætisráðherra og málsvörn hans utan frá. Og geta bent á að keisarinn er kviknakinn.