Umræða um upprunamerkingu matvæla hefur verið áberandi að undanförnu m.a. í ljósi opinberrar umfjöllunar um búvörusamninga. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um að gera ríkari kröfur um upprunamerkingu matvæla og sú krafa m.a. gerð að samþykkt búvörusamninga og tollasamnings við ESB um inn- og útflutning á matvælum grundvallist á innleiðingu á regluverki samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um upprunamerkingu matvæla. Þannig hafa einnig formenn Svínaræktarfélags Íslands og Félags kjúklingabænda nýlega ritað grein sem beint er að ákveðnum hagsmunasamtökum og framkvæmdastjóra þeirra vegna afstöðu þeirra hagsmunasamtaka gagnvart kröfu um upprunamerkingar.
Af þessari umræðu, hvort sem hún á sér stað í þingheim eða fjölmiðlum, má ráða að það sé einbeittur vilji innflytjenda og verslana að leyna uppruna matvæla fyrir neytendum. Hér eru óneitanlega á ferðinni digurbarkalegar yfirlýsingar um meintan vilja hagsmunaaðila um að brjóta gegn trausti viðskiptavina sinna. En er það virkilega svo að neytendur eigi ekki rétt á upplýsingum um uppruna matvæla?
Í starfsemi sem grundvallast á samkeppnislegum forsendum gera verslunareigendur sér fyllilega grein fyrir því að virk samkeppni leiðir til þess að upplýstur neytandi hefur val um við hvern hann verslar. Sé þjónusta eða upplýsingagjöf ekki að skapi neytenda þá velur hann að beina viðskiptum til samkeppnisaðila. Þannig virkar samkeppni í sinni einföldustu mynd en vissulega á samkeppni ekki við í öllum atvinnugreinum enda eru tilteknar greinar undanskildar þeim lögmálum, s.s. tiltekin innlend matvælaframleiðsla.
Verslunin hefur gert sér grein fyrir mikilvægi þess að veita neytendum upplýsingar um uppruna matvæla. Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill bæta upprunamerkingar matvæla og skiptir uppruni matvæla því miklu máli við ákvörðun um kaup. Í ljósi þessa tóku SVÞ höndum saman við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin, ásamt dyggri ráðgjöf frá Matvælastofnun, og gáfu út í febrúar 2015 ítarlegar leiðbeiningar til aðildarfyrirtækja sinna um upprunamerkingar matvæla. Þar eru á mjög svo upplýsandi hátt, bæði í rit- og myndmáli, settar fram ábendingar til framleiðenda, innflytjenda og veitingastaða um upprunamerkingar á þeim vörum sem eru í boði. Eins og fram kemur í inngangi þeirra leiðbeininga þurfa neytendur að fá vitneskju á umbúðum matvæla, eða með merkingum á sölustað og við fjarsölu, um upprunaland þeirrar vöru sem þeir kaupa.
Í umræddum leiðbeiningum er ekki eingöngu tekið tillit til þeirra reglna sem gilda hér á landi um upprunamerkingar heldur er þar gengið enn lengra og settar fram tillögur um merkingar á þeim sviðum þar sem reglur um upprunamerkingar hafa enn ekki tekið gildi. Því má með sanni segja að íslensk verslun hefur axlað ábyrgð á skyldu um upprunamerkingar og í þeirri vegferð tekið á sig skyldur umfram lagaskyldu.
Hagsmunir neytenda verða ávallt að vera í forgangi þannig að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um vörukaup og er upprunamerking þar lykilatriði. SVÞ benda á að verslun hefur, og mun ávallt, axlað sína ábyrgð varðandi upplýsingar til neytenda og því er bæði réttlátt og sanngjörn krafa að innlendir matvælaframleiðendur, þ.m.t. svína- og kjúklingaframleiðendur, opni dyrnar hjá sér varðandi aðbúnað og framleiðsluferli í sinni starfsemi til að upplýsa neytendur um sína starfsemi.
Höfundur er lögmaður hjá Samtökum verslunar og þjónustu.