Undanfarið hefur verið greint frá því hversu mikið starfsmenn eignarhaldsfélaga utan um eignir föllnu bankanna eiga að fá greitt í bónus fyrir góð störf í þágu kröfuhafa þeirra. Um er að ræða milljarða króna sem eiga að langmestu leyti að renna til fólks sem starfaði við slit á búum Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans áður en að nauðasamningar þeirra voru samþykktir, og starfar enn hjá þeim félögum sem stofnuð voru utan um eftirstandandi eignir búanna.
Ljóst er að kröfuhafarnir voru afar ánægðir með þá niðurstöðu sem þeir fengu að lokum í skylmingum sínum við íslenska ríkið. Endurheimtir þeirra urðu enda betri en þeir höfðu reiknað með á undanförnum árum.
Í stað 39 prósent stöðugleikaskatts, sem átti að skila 850 milljörðum króna fyrir frádrátt, mun ríkið fá 384,3 milljarða króna í stöðugleikaframlag. 288,2 milljarðar króna af því eru vegna viðskiptabankanna Íslandsbanka og Arion banka, sem þó liggur ekkert fyrir um hvers virði séu. Þessi upphæð getur því lækkað mikið.
Um þetta hefur ríkið hins vegar samið við kröfuhafanna og því verður ekki breytt. Það jákvæða er að vandinn sem slitabúin sköpuðu íslensku efnahagskerfi er horfinn og við getum haldið áfram sem samfélag. Hið neikvæða er að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar fylltu þjóðina af ranghugmyndunum um miklu hærri gullpott með kynningu sinni á aðgerðaráætlun um losun fjármagnshafta í júní í fyrra.
En hvernig sem er þá hefur Íslandsveðmál kröfuhafanna gengið upp. Þeir sitja eftir með meira fé en þeir reiknuðu með. Og þeir vilja ólmir greiða starfsfólki sínu bónusa fyrir það.
Er fólk sem fær ekki bónus latt?
Opinberlega er þetta ekki framsett með þessum hætti. Paul Copley, forstjóri Kaupþings, mætti í viðtal í Kastljósi til að svara fyrir bónusgreiðslurnar á fimmtudag í síðustu viku. Þar sagði hann starfsfólk sitt vera afar hæft, og endurtók svo í sífellu sömu röksemdarfærsluna. Að það væri hans markmið að ljúka starfsemi og tilveru Kaupþings sem fyrst og því þyrfti að skapa hvata fyrir starfsmenn til að leggja niður störf þeirra. Þetta væri eðlilegt í alþjóðlegu samhengi.
Það er erfitt að láta þessa röksemdarfærslu ganga upp. Ef fólkið sem starfar hjá Kaupþingi er svona mikið yfirburðafólk líkt og af er látið ætti það að búa yfir nægilega góðu vinnusiðferði til að vinna vinnuna sína án þess að þurfi tugmilljónahvata hver til þess að gera það.
Í eignaumsýslu félaga utan um eignir gjaldþrota banka hljóta sömu lögmál að gilda og í öðrum starfsstéttum þar sem fólk fær greitt laun fyrir vinnu sína. Þ.e. að það sinni þeim störfum eftir bestu getu. Ef það er latt eða sinnir starfi sínu illa þá er starfsfólkið einfaldlega rekið. Starfsfólk eignarhaldsfélaganna sem er að selja eignir gjaldþrota banka eru mjög vel launað í öllu íslensku samhengi. Samt þarf að borga því samanlagt milljarða króna fyrir að vera ekki latt í vinnunni sinni.
Og það mun engum takast að sannfæra mig um að eignaumsýsla og -sala sé svo margbrotið og flókið starf að það geti einungis handfylli ofurfólks sinnt því. Miðað við þann fjölda starfa sem skorin hafa verið niður í fjármálageiranum eftir hrun ætti að vera fólk með B.S.-gráður í viðskiptafræði í röðum eftir að komast að þessum kjötkötlum.
Einblínt á afmarkaða þætti
Tvenns konar rök hafa verið ráðandi hjá mörgum sem varið hafa bónusgreiðslurnar í opinberri umræðu. Önnur eru þau að þá verði peningarnir að minnsta kosti eftir í íslensku samfélagi í stað þess að renna til erlendra hrægamma. Þeim verði síðan eytt hérlendis og þannig hafi þessar bónusgreiðslur samfélags margfeldisáhrif öllum til góða. Af þessu þurfi auk þess að greiða skatt sem endi í ríkissjóði.
Hin rökin eru þau að eigendur peninga megi bara eyða þeim á hvern þann hátt sem þeir vilja. Og ef erlendir hrægammar vilja borga íslenskum viðskiptafræðingum og lögfræðingum milljarða króna fyrir að selja eignirnar þeirra þá verði þeim að því.
Bæði sjónarmiðin eru þess eðlis að fullt tilefni er að taka tillit til þeirra, þó maður sé ekki sammála þeim. En þeir sem halda þeim fram virðast ekki sjá heildarmyndina heldur einblína á afmarkaða þætti eins og frelsi til ráðstöfunar eigna.
Röskun á sáttmála
Þetta snýst nefnilega um samhengi og siðferði. Eitt helsta þjóðarmeinið sem við Íslendingar glímum við er ójafnræði í skiptingu gæða. Á árinu 2014 þénaði ríkasta eitt prósent þjóðarinnar til að mynda tæplega helming allra fjármagnstekna. Sama ár féll helmingur alls nýs auðs sem varð til í landinu þeim fimmtungi landsmanna sem höfðu hæstar tekjur í skaut og ráðstöfunartekjur ríkasta prósentsins hækkuðu umtalsvert meira en allra hinna. Á sama tíma og þorri launafólks á Íslandi glímir við að finna allt of lítið fyrir yfirstandandi góðæri og skert lífsgæði vegna lágra launa, hárra vaxta, bólu á fasteignamarkaði og skertri velferðarþjónustu þá eru hinir ríku alltaf að verða ríkari.
Það hefur átt sér stað röskun á samfélagssáttmálanum. Og óeðlilegt ójafnvægi í skiptingu gæðanna þar sem hæfileikar, áhætta og dugnaður skipta mun minna máli en gott aðgengi að rétta fólkinu í réttu stöðunum. Þess vegna er fólk brjálað þegar fréttir eru sagðar af því að það eigi að greiða venjulegu skrifstofufólki milljarða fyrir að hámarka virði eigna gjaldþrota banka. Banka sem ollu allri þjóðinni skaða með atferli sínu fyrir hrun.
Lögmálið um bónus fyrir bankafólk
Sömu rök fyrir kaupaukum hafa auðvitað verið notuð áður. T.d. þegar íslenska ríkið samdi við kröfuhafa gamla Landsbankans í desember 2009 um að gefa starfsmönnum bankans rúmlega tveggja prósenta hlut í honum fyrir að rukka inn tvö lánasöfn, Pegasus og Pony, í botn. Heildarvirði hlutarins hleypur á milljörðum króna. Þá var sagt að betra væri að starfsfólk Landsbankans fengi þennan hlut en erlendir hrægammar. Þau rök reyndust reyndar byggð á sandi. Hluturinn hefði alltaf farið á endanum til ríkisins ef Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hefði ekki samið um að afhenda hann starfsmönnum Landsbankans.
Svo hafa auðvitað verið sett upp kaupaukakerfi í Íslandsbanka og Arion banka sem endurreistir voru fyrir innstæður Íslendinga eftir að þeim var stýrt í duftið af áhættusæknum dæmdum glæpamönnum haustið 2008. Samtals hafa verið bókfærðar bónusgreiðslur upp á tvo og hálfan milljarð króna til starfsmenn bankanna á þremur árum Þetta hefur verið gert þrátt fyrir að Ísland sé enn í höftum, að í gildi sé enn full ríkisábyrgð á öllum þessum endurreistu bönkum, og að engin alþjóðleg eftirspurn sé eftir íslenskum bankamönnum. Engin haldbær rök eru fyrir því að greiða kaupauka í íslenskum bönkum utan þeirra að það tíðkist bara í fjármálageiranum að gera það. Líkt og að um einhverskonar lögmál sé að ræða.
Bónusar eru skaðlegir
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, náði ágætlega utan um fyrirhugaðar bónusgreiðslur gömlu slitabúanna í fréttaviðtali í síðustu viku þegar hann sagði að það væri ekkert að því að menn hagnist í samfélaginu okkar ef þeir hafi tekið áhættu eða leggja fjármagn sitt undir. „En þegar menn taka enga áhættu, eru bara að mæta í vinnuna, og eru að semja við jafnfurðuleg fyrirbæri og þessar skeljar af gömlu bönkunum eru í einhverju svona lokuðu mengi, þá verður allt málið að skoðast í öðru ljósi. Þess vegna kemur strax upp í hugann orðið „sjálftaka“ þegar maður sér svona niðurstöðu.“ Þessa skýringu má færa yfir á mörg önnur svið hins innilokaða íslenska bankakerfis.
Bónusar á borð við þá sem greiddir eru í fjármála- og slitabúakerfinu okkar eru skaðlegir. Þeir eru skaðlegir vegna þess að þeir auka áhættusækni. Þeir búa til hvata til að brjóta reglur. Þeir auka líkurnar á því að úrlausnin sem verði fyrir valinu í sölu eignanna miði fyrst og síðast við hversu háa greiðslu sá sem sýslar með eignina getur fengið fyrir hana en ekki hversu góð sú lausn er fyrir íslenskt efnahagskerfi. Þeir búa til aukin verðmæti þar sem engin eru. Og þeir eru skaðlegir vegna þess að þeir draga úr trausti milli fólks og stofnana í landi þar sem skortur á trausti er eitt helsta þjóðfélagsmeinið.
Völd spretta af peningum og með því að færa afmörkuðum hópum gríðarlegt magn af slikum þá veitum við þeim að minnsta kosti tækifæri umfram aðra að hafa áhrif á samfélagið sem við búum í.
Við það hriktir í stoðum samfélagssáttmálans. Og þess vegna er fólk svona reitt.