Bandaríkin hafa kosið vanhæfa raunveruleikastjörnu sem forseta. Mann sem ætlar að byggja bæði raunverulega og ímyndaða veggi í kringum landið. Mann sem hefur móðgað og atyrt innflytjendur, konur, múslima og ýmis þjóðerni. Mann sem ætlar að segja upp viðskiptasamningum, ógilda Parísarsamkomulagið og gera grundvallarbreytingar á NATO. Mann sem boðar einfaldar töfralausnir á flóknum vandamálum. Mann sem er alveg sama hvort það sem hann segir opinberlega sé satt eða ekki, hann trúir því að ef eitthvað sé sagt nægilega oft þá verði það á endanum satt. Mann sem boðar vanþekkingu og fordóma og sækir allan sinn styrk í að ala á þeim.
Upplýst fólk spyr sig af hverju? Hvað hefur valdið því að Bandaríkjamenn, og sérstaklega þeir sem búa utan borga, hafi valið sér svona flón sem forseta? Stórhættulegan mann sem frá og með janúarmánuði mun ráða yfir stærsta kjarnorkuvopnabúri veraldar?
„Þeirra heimur er að hrynja, okkar er að byggjast upp“
Það eru margar ástæður fyrir því að Trump vann. Þær snúast um peninga, þær snúast um fordóma og þær snúast um kynþáttahyggju, svo fátt eitt sé nefnt. En fyrst og síðast snúast þær líklega um stéttabaráttu, afleiðingar alþjóðavæðingu og misskiptingu gæðanna sem hið kapítalíska markaðshagkerfi hennar hefur leitt af sér.
Augljóst er að sífellt minnkandi millistétt Bandaríkjanna, og sífellt stækkandi lágstétt, er að spyrna við fótum gegn kerfi sem stéttunum finnst að skili þeim sífellt lakari lífsgæðum en fóðri fjarlæga ofur-yfirstétt stjórnmálamanna og viðskiptaforkólfa af völdum og peningum. Misskipting þeirra gæða sem orðið hafa til með aukinni alþjóðavæðingu, þar sem efstu lög samfélaga hafa hagnast ævintýralega á meðan að millistéttir eru að hverfa, er meginástæða þess að popúlistar eins og Trump, eins og þeir sem ráku Brexit-baráttuna í Bretlandi, eins og Duterte á Filippseyjum, eru að ná miklum árangri.
Nú hljóta allra augu að vera á forsetakosningunum í Frakklandi á næsta ári. Ef Marie Le Pen vinnur þar – en það er mjög raunverulegur möguleiki – þá stöndum við frammi fyrir gerbreyttum vestrænum heimi. Bretar hafa þá dregið sig úr Evrópusambandinu og feta leið einangrunarhyggju, Bandaríkjamenn hafa kosið sér forseta sem er á sömu bylgjulengd og er auk þess algjörlega vanhæft ólíkindatól, og Frakkar kosið yfir sig forseta sem elur á útlendingaandúð og andstöðu við alþjóðavæðingu. Florian Philippot, einn helsti ráðgjafi Le Pen, skrifaði á Twitter í morgun, þegar fyrir lá að Trump væri að sigra: „Þeirra heimur er að hrynja. Okkar er að byggjast upp.“
Afturhvarf til millistríðsáranna
Það er ansi ólíklegt að þeir sem kusu Trump fái það sem þeir eru að leita eftir. Efnahagsáætlun hans snýst í grófum dráttum um að reisa tollamúra (allt að 35 prósent) utan um Bandaríkin, lækka skatta og umbreyta skattkerfinu. Hann ætlar að auka gríðarlega við fjárfestingu í innviðum og hita hagkerfið þannig innan frá. Hann ætlar auk þess að takmarka innflæði innflytjenda (vinnuafl Bandaríkjanna mun dragast saman um ellefu milljónir ef hann heldur sig við að framfylgja innflytjendalögum út í ystu æsar líkt og hann hefur lofað) og kippa úr sambandi fríverslunarsamningum sem eiga að gera það að verkum, samkvæmt áætluninni, að störfum fjölgi til muna í Bandaríkjunum. Trump ætlar líka að fjölga upp í 540 þúsund manns í Bandaríkjaher, byggja fleiri ný skip fyrir sjóherinn, fjölga herflugvélum lofthersins í 1.200 og fjölga herdeildum í landhernum í 36. Allt þetta býr til ný störf.
Nær allir sérfræðingar sem rýnt hafa í stefnu Trump telja að hún muni hafa þveröfug áhrif. Að enn muni hægjast á hagvexti í Bandaríkjunum verði hún innleidd og eftir tvö ár verði hann sá minnsti síðan í eftirköstum kreppunnar miklu á þriðja áratugnum.
Það vekur þó ugg að margt er sameiginlegt með Trump og því sem gerðist í Evrópu á millistríðsárunum. Auðvitað verður alltaf að fara varlega í að bera nokkurn mann saman við Hitler, og Trump nýtur eðlilega vafans í flestu tilliti í þeim samanburði þangað til að sýnt hefur verið fram á annað, en efnahagsstefnur þeirra eiga margt sameiginlegt.
Hitler lagði upp með að banna Gyðingum að starfa í Þýskalandi. Hann reisti tollamúra. Hann réðst í miklar innviðauppbyggingar til að skapa enn fleiri störf, m.a. á vegakerfi landsins. Hann innleiddi líka herskyldu, sem er alltaf prýðileg leið til að fela atvinnuleysi. Hitler kaus hins vegar þjóðnýtingar fram yfir skattalækkanir. Þar ber á milli.
Tvenns konar heimska
Heimska er sterkt hugtak. Orðabókarskilgreiningin á því er „skortur á þekkingu, vitsmunum, skilningsgáfu, rökviti eða ályktunarhæfileikum“. Heimska er þó hugtak sem á vel við til að lýsa því sem er að gerast í heiminum í dag. Við lifum á tímum þar sem tilfinning trompar staðreyndir. Alls staðar er fólk að rísa upp gegn yfirvaldinu, hvort sem það eru ríkisstjórnir eða yfirþjóðleg bandalög, og kjósa þann valkost sem vinnur gegn ríkjandi kerfi. Allt of mörgum finnst þeir afgangsstærð og láta selja sér einfaldar skýringar á því hvað það sé sem valdi því. Heimska og hræðsla eru nefnilega náskyldar systur og saman geta þær leitt til atburða eins og þeirra að Donald J. Trump hefur nú verið kosinn forseti Bandaríkjanna.
Það verður heldur ekki litið fram hjá því að hin frjálslynda elíta vestræns heims, sem telur sig alltaf hafa rétt fyrir sér og vera með réttlætið í sínu liði, þarf að fara í naflaskoðun. Það er til að mynda nokkuð augljóst að misskipting auðs leikur risastóra rullu í þeirri þróun sem við sjáum nú hellast yfir heiminn. Með því að hunsa yfirstandandi þróun sem vanþekkingu almúgans, og gefa sér að hatandi rasistar sem skeyti ekkert um grundvallarmannréttindi milljóna manna né staðreyndir mála geti náð árangri í lýðræðislegu samfélagi, hefur hún sýnt af sér algjöran skort á þekkingu, skilningsgáfu og ályktunarhæfileikum sjálf. Og er þar af leiðandi sek um mjög alvarlega heimsku.
Ekki spurning um hvort, heldur hvenær
Mér verður oftar og oftar hugsað til greinar sem Nick Hanauer, milljarðamæringur sem hefur hagnast gríðarlega í hinu alþjóðlega fjármálakerfi, skrifaði í Politico sumarið 2014. Hanauer er ekkert sérlega geðugur náungi en greinin var mjög hreinskiptin og góð. Í henni sagði hann heiðarlega frá því að hann tilheyrði því 0,01 prósent Bandaríkjamanna sem nytu ávaxta ríkjandi kerfis umfram alla hina. Hann ætti banka með vinum sínum, einkaflugvél, fullt af heimilum víða um heim o.s.frv.
Í greininni sagði Hanauer að hann væri ekki gáfaðasti maður sem fyrir fyndist. Hann væri heldur ekkert sérlega duglegur og hefði alla tíð verið miðlungs námsmaður. Hann hefði heldur í raun enga sérstaka hæfileika. Eina sem aðskildi Hanauer frá flestum væri að hann væri tilbúinn að taka áhættur sem flestir myndu ekki taka. Hann spurði síðan sjálfan sig hvernig framtíðin liti út. Svarið var einfalt: „Ég sé heygaffla“.
Það sem Hanauer átti við var að 99,99 prósent af íbúum hins vestræna heims væru skildir eftir á meðan að 0,01 prósent lifðu fjarstæðukenndu velmegunarlífi, sem erfitt væri að réttlæta. Bilið milli þeirra sem ættu og þeirra sem ættu lítið eða ekkert væri sífellt að aukast. Árið 1980 hefði efsta prósent ríkra í Bandaríkjunum átt átta prósent af árlegri þjóðarframleiðslu en fátækari helmingur þjóðarinnar 18 prósent. Árið 2014 hafði það breyst þannig að efsta prósentið ætti 20 prósent af henni en fátækari helmingurinn 12. „Ef við breytum ekki stefnunni okkar á dramatískan hátt þá mun millistéttin hverfa og við færumst aftur til síðari hluta 18. aldar í Frakklandi, áður en að byltingin þar átti sér stað,“ sagði Hanauer,
Hinir svívirðilega ríku þyrftu að vakna og átta sig á að engin samfélagsgerð gæti borið slíka aukningu í misskiptingu eins og við værum að lifa. Það myndi óumflýjanlega leiða til þess að heygafflarnir yrðu mundaðir. „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær“.
Nú, rúmum tveimur árum eftir að Hanauer birti grein sína hefur spádómur hans ræst. Þeir sem telja sig ekki njóta lystisemda alþjóðavæðingar og hins kapítalíska kerfis hafa risið upp gegn því. Þeir hafa kosið stórhættulegan popúlista sem forseta Bandaríkjanna. Mikil er þeirra ábyrgð. En þessi niðurstaða er afleiðing orsakar. Og orsökin er þeim að kenna sem töldu að þetta myndi aldrei gerast. Þeir gengu alltaf út frá því – fullir af yfirlæti – að helmingur bandarísku þjóðarinnar vissi ekki hvað væri þeim fyrir bestu og myndi treysta öðrum til að ákveða það fyrir sig. Þeir höfðu rangt fyrir sér.