Undanfarin ár og áratugi hafa fyrirtæki verið að auka markaðsáherslur og setja viðskiptavininn í fyrsta sætið til að auka líkur á að ná forskoti á markaði eða að eiga ekki á hættu að verða undir í samkeppninni. Hins vegar virðast fá fyrirtæki yfirfæra þessa hugsun þegar það kemur að vali á stjórnarmönnum í stjórnir fyrirtækja.
Í þessari grein ætla ég að skoða hvort skynsamlegt sé fyrir eigendur íslenskra fyrirtækja að fjölga stjórnarmönnum með þekkingu og reynslu af markaðsmálum.
Til að taka stöðuna hér á á landi gerði ég grófa greiningu á starfsreynslu og menntun stjórnarmanna fyrirtækja sem eru á aðallista Kauphallar Íslands. Eftir að hafa skoðað ferilskrár aðalmanna í stjórnum kom í ljós að margir eru með þekkingu og reynslu í lögfræði annarsvegar og fjármálum hinsvegar. Þegar horft er til þekkingar og reynslu af markaðsmálum var hlutfallið um 6% sem er ívið hærra en erlendar rannsóknir sýna. Til samanburðar var gerð könnun árið 2013 á 10 þúsund stjórnarmönnum á Fortune 1000 fyrirtækjalistanum. Niðurstöður hennar voru á þá leið að undir 1% fyrirtækja voru með stjórnarmann með þekkingu og reynslu af markaðsmálum. Vænta má að hlutfallið sé eitthvað hærra í dag.
Það má því færa góð rök fyrir því að það skiptir máli í rekstri fyrirtækja að auka markaðsþekkingu á stjórnarstigi. Eigendur íslenskra fyrirtækja þurfa að horfa til þess að vera með a.m.k. einn stjórnaraðila sem hefur þekkingu og reynslu af markaðsmálum. Þvert á það sem mætti kannski halda þá eru sterkar vísbendingar sem benda til þess að það hafi jákvæðari áhrif fyrir fyrirtæki að hafa markaðsþekkingu í stjórn félagsins heldur en í framkvæmdastjórn.
Ég hvet því eigendur fyrirtækja og tilnefningarnefndir til að setja það sem skilyrði að einn stjórnarmanna búi yfir þekkingu og reynslu af markaðsmálum við næsta stjórnarkjör. Það hljómar líka mjög skynsamlega að stjórnir fyrirtækja séu samsettar af fólki með fjölbreyttan bakgrunn.
Fyrir áhugasama er hægt að kynna sér rannsókn MSI hér.
Höfundur er ráðgjafi hjá Brand Huxland.