Píratar hafa nú mælst með yfir 30 prósent fylgi í skoðanakönnunum frá því í febrúar. Þótt margir sem láta stjórnmálaaflið fara ævintýralega í taugarnar á sér tali í síbylju um að Píratar séu bóla sem hafi oft blásist áður upp í íslenskri stjórnmálasögu þá er ekki svo. Engin nýlegur flokkur sem á þegar kjörna fulltrúa á þingi hefur náð slíkum hæðum í skoðanakönnunum og enginn hefur haldið þeim í jafn langan tíma. Í fylgi Pírata endurspeglast enda bæði krafa um breyttar áherslur við stýringu samfélagsins, vilji til að almenningur fái að koma beint að fleiri ákvörðunum og óþol fyrir því hvernig stjórnmál hafa verið stunduð í allt of langan tíma.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var í viðtali við mbl.is í byrjun september, í kjölfar þess að flokkur hans mældist enn og aftur með mest fylgi íslenskra flokka. Þar varaði hann við því að staða Pírata gæti breyst snögglega þegar nær drægi kosningum, með innkomu nýrra framboða og að hinir flokkarnir hlytu að endurskoða sína stöðu og breyta viðhorfum sinna til ákveðinna mála, í ljós slælegs fylgis. „„Vonandi verður það í þá átt að það verði ekki jafn mikil þörf á okkur. Við viljum helst ekki þurfa að vera til. Það væri best ef það væri engin þörf á lýðræðis- og kerfisbreytingum. Það væri best ef það væri til samkeppni um lýðræðisumbætur meðal annarra flokka. Jafnvel ef fylgið fer niður, þá er það ekki sjálfu sér ekki áhyggjuefni ef það gerist á réttum forsendum,“ sagði Helgi Hrafn. Ósk hans virðist vera komin á rekspöl í átt að rætast. Að minnta kosti að hluta.
Meira frjálsyndi, minna íhald
Tveir landsfundir fjórflokka fóru fram um helgina. Vinstri græn samþykktu meðal annars á sínum fundi ályktun þar sem rík áhersla var lögð á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og að vægi þjóðaratkvæðagreiðslna við að útkljá mál verði aukið, sem eru bæði á meðal helstu baráttumála Pírata.
En stóru breytingarnar áttu sér stað hjá Sjálfstæðisflokknum. Á landsfundi hans stormuðu inn hundruð ungliða vopnuð allskyns breytingartillögum á stefnu flokksins. Ljóst er að mörgum kristnum íhaldsmanninum hefur svelgst alverulega á kaffinu þegar krafa ungliðanna um nýjan gjaldmiðil, aðskilnað ríkis og kirkju, aukið netfrelsi, aflagningu refsistefnu í fíkinefnamálum, aukin mannréttindi handa trans- og intersexfólki, tilfærslu hjónavígslna alfarið til sýslumanna, aflagningu mannanafnanefndar, að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð, að kvótakerfið í landbúnaði verði afnumið og að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár, voru lagðar fram.
Og ekki skánaði það þegar þorri tillagnanna hlutu brautargengi í málefnanefndum. Þótt allar kröfur ungliðanna hafi ekki náð í gegn á endanum höfðu þær gríðarlega áhrif á landsfundinn og niðurstöðu hans. Það endurspeglaðist ágætlega í kosningu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem hafði leitt hópinn, sem ritara.
Skilaboðin voru skýr: Meira frjálslyndi, minna íhald.
Vöruðust ekki eftirlíkingar
Ljóst er að einhverjir sjálfstæðismenn höfðu óttast nákvæmlega þessa niðurstöðu í aðdraganda landsfundar. Davíð Oddsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri Morgunblaðsins, reyndi til að mynda að leggja mönnum línurnar í leiðara á föstudag sem bar yfirskriftina „Varist eftirlíkingar“. Þar sagði Davíð að stjórnmálamönnum sem horfðu til kannana væri vorkun og að Píratar stæðu ekki fyrir neitt. Það ætti ekki að einhenda sér í að apa upp eftir þeim sem mælast með mest fylgi. Í stað þess ætti Sjálfstæðisflokkurinn að skerpa á sínum áherslum. Það hefði hann gert þegar Kvennalistinn mældist með meira fylgi en hann fyrir tæpum aldarfjórðungi og þá skilaði það góðri útkomu í kosningum og ríkisstjórnarsetu.
Í lok leiðarans sagði síðan: „Sagt er að Sjálfstæðisflokkurinn vilji nú krukka í stjórnarskrána, þótt ekki sé minnsti áhugi fyrir því hjá stuðningsmönnum þess flokks. Eina ástæðan, sem upp er gefin, er að það sé svo píratalegt og því kannski vænlegt til fylgisaukninar! Trúa menn því virkilega? Sé svo, er langt í vaxandi traust“.
Hlustuðu ekki á varnaðarorð Davíðs
SJálfstæðismenn virðast ekki hafa hlustað á varnaðarorð Davíðs. Á meðal þeirra ályktanna sem samþykktar voru á landsfundinum voru lokaályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem segir m.a.: „Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að tilteknir kaflar og ákvæði stjórnarskrárinnar verði tekin til endurskoðunar. Í stjórnarskránni ætti að vera ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, þannig að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lagafrumvörp.“
Í lokaályktun efnahags- og viðskiptanefndar flokksins segir m.a.: „Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka átt í alþjóðlegri samkeppni. Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.“
Þótt á öðrum stað segi að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins, og að viðræður við það verði ekki teknar upp að nýja fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, er ljóst að krafa um nýjan gjaldmiðil ýtir flokknum aftur nær aðildardaðri. Það var að minnsta kosti niðurstaða Seðlabanka Íslands, í ítarlegri skýrslu um möguleika Íslands í gjaldmiðlamálum sem birt var fyrir rúmum þremur árum, að þeir möguleikar væru tveir: íslensk króna eða upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu.
Færast nær Pírötum
Píratar samþykktu fyrr á þessu ári að lofa íslensku þjóðinni, fái flokkurinn umboð hennar til þess í næstu kosningum, að Alþingi muni aðallega fjalla um og samþykkja tvö mál. „Í fyrsta lagi að samþykkja nýja stjórnarskrá þar sem tillögur stjórnlagaráðs sem verði lagðar til grundvallar og í öðru lagi boða til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu vegna umsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Að þessum málum afgreiddum verði boðað til nýrra Alþingiskosninga svo ný stjórnarskrá geti tekið gildi“.
Þótt fáir telji það líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni kúvendast í frjálslyndisátt á næsta eina og hálfa árinu, þótt margar samþykktar landsfundarályktanir endurspegli að lítið sé að breytast í sögulegri varðstöðu flokksins um sjávarútveg, landbúnað og þjóðkirkju, og þótt stjórnmálamenn kjósi að túlka ályktanir flokka sinna mjög frjálslega þegar á reynir, þá voru stór skref stigin um helgina.
Hluti nýsamþykktra ályktanna Sjálfstæðisflokksins eru nefnilega nokkuð nærri áherslum Pírata.