Fréttaskýring
Íslenska útrásin í norska olíuiðnaðinn gæti endað í milljarðatapi
Tilboð í hlut lífeyrissjóða í Fáfni Offshore var upp á lítið brot af upphaflegri fjárfestingu þeirra. Líflínusamningur Fáfnis er í uppnámi og íslenskir bankar sem lánað hafa milljarða til olíuþjónustufyrirtækja í Noregi gætu tapað miklu.
Það mun ráðast í febrúar hvort nýr samningur Fáfnis Offshore við sýslumanninn á Svalbarða, sem snýst um að fyrirtækið sinni verkefnum fyrir hann í níu mánuði á ári í stað sex, muni halda. Þetta herma heimildir Kjarnans. Samningurinn skiptir miklu máli fyrir Fáfni Offshore, sem er að nánast öllu leyti í íslenskri eigu, þar sem markaðurinn sem fyrirtækið starfar á, þjónusta við olíuiðnað í Norðursjó, hefur hrunið undanfarin misseri.
DV greindi frá því nýverið að Steingrímur Erlingsson, fyrrum forstjóri og stofnandi Fáfnis Offshore, hefði boðið í hlut tveggja framtakssjóða, Akurs og Horns II, í Fáfni Offshore í janúar. Tilboðið, sem rann út í byrjun síðustu viku, var samkvæmt heimildum Kjarnans upp á um tíu prósent af þeirri upphæð sem sjóðirnir tveir settu upphaflega í Fáfni Offshore, sem nam um tveimur milljörðum króna. Því hefðu framtakssjóðirnir tekið á sig gríðarlegt tap ef þeir hefðu samþykkt tilboðið. Það gerðu þeir ekki.
Stærstu eigendur umræddra framtakssjóða eru íslenskir lífeyrissjóðir. Ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbanki Íslands, eiga einnig hlut í þeim ásamt Vátryggingafélagi Íslands.
Auk þess hafa tveir íslenskir bankar, Íslandsbanki og Arion banki, lánað milljarða króna til norsks fyrirtækis á undanförnum áum sem starfar á sama markaði og Fáfnir Offshore. Það fyrirtæki, Havila Shipping, glímir við mikla rekstrarerfiðleika og reynir nú að semja við lánadrottna sína um endurskipulagningu á skuldum sínum.
Miðað við stöðu Fáfnis, og markaðsaðstæður á þeim markaði sem félagið ætlaði sér að starfa, þá eru miklar líkur á því að fjárfesting þessara aðila, sem var greiddi inn í Fáfni Offshore síðla árs 2014, hafi rýrnað verulega í verði og sé mögulega að hluta töpuð. Til viðbótar eru lánveitingar íslenskra banka til Havila í uppnámi. Það má því segja að útrás íslenskra fjárfesta, aðallega lífeyrissjóða, og banka í olíuiðnaðinn í Norðursjó sé í miklu uppnámi.
Var sætasta stelpan á ballinu...árið 2014
Síðla árs 2014 var Fáfnir Offshore ein sætasta stelpan á fjárfestingarballinu. Íslenskir fjárfestar, aðallega lífeyrissjóðir í gegnum framtakssjóði, kepptust við að fjárfesta í fyrirtækinu fyrir milljarða króna. Það var „hiti“ í kringum fyrirtækið og menn létu það ekkert mikið á sig fá þótt heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrunið úr um 115 dölum á tunnu sumarið 2014 í um 60 dali í janúar 2015. Hermann Þórisson, framkvæmdastjóri Horns II, talaði meira að segja um það í viðtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í þeim mánuði að Fáfnir væri „fyrirtæki sem mög áhugavert væri að sjá fara á markað. Vissulega eru erfiðar markaðsaðstæður í oliugeiranum akkúrat í dag, en þær voru mjög góðar fyrir sex mánuðum.“ Hermann sagði að ef ytri aðstæður myndu batna þá gæti Fáfnir Offshore vel verið nógu stórt til að fara á markað.
Ári síðar er heimsmarkaðsverð á olíu komið niður í 26,7 dali á tunnu. Það er tæplega fjórðungur þess sem það var sumarið 2014. Þumalputtareglan er sú að til að olíuvinnsla á norðlægum slóðum borgi sig þurfi heimsmarkaðsverð á olíu að vera að minnsta kosti 60 dalir á tunnu. Verðið í dag er því rúmlega helmingur þess sem það þarf að vera. Talið er að um eitt hundrað þúsund störf hafi tapast á undanförnum misserum vegna samdráttar á olíuvinnslu í Norðursjó. Tugir skipa sem gera út á sama markað og Fáfnir Offshore hefur verið lagt og fyrirtækin sem eiga þau glíma nú við mikinn rekstrarvanda. Þá hefur olíuborpöllum í Norðursjó fækkað mikið.
Viðmælendur Kjarnans segja að allt bendi til þess að heimsmarkaðsverð á olíu muni hækka aftur. Vandamálið sé að það geti enginn sagt til um hvort það gerist eftir tvo mánuði eða tíu ár.
Skip sem kostaði yfir fimm milljarða
Fáfnir Offshore á skipið Polarsyssel, sem kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða til tíu ára um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Sá samningur gengur út á að sýslumannsembættið hefur skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó.
Í október síðastliðnum var gerður nýr samningur við sýslumannsembættið á Svalbarða. Hann átti að tryggja Polarsyssel verkefni í níu mánuði á ári. Þessi samningur er eina verkefni Fáfnis Offshore sem stendur og því gríðarlega mikilvægur. Óljóst er hversu öruggur hann er og standa yfir viðræður vegna þessa. Það mun skýrast fyrir lok febrúar mánaðar hvort af framlengingunni verði.
Fáfnir Offshore var stórhuga verkefni og fyrirtækið ætlaði sér stóra hluti. Steingrimur Erlingsson, stofnandi fyrirtækisins, þykir mjög drífandi eldhugi og náði að sannfæra ansi marga á árinu 2014 um þau tækifæri sem biðu handan við hornið. Í nóvember 2014 var Steingrímur viðmælandi á fræðslufundi VÍB, sem er hluti af Íslandsbanka. Þar sagði hann meðal annars að Fáfnir Offshore stefndi að því að vera með 3-4 skip í rekstri á næstu árum.
Fundurinn var aðgengilegur á netinu í rúmt ár eftir að hann fór fram. Eftir að málefni Fáfnis Offshore komu aftur í umræðuna fyrir nokkrum vikum var hann hins vegar fjarlægður af netinu.
Afhending á seinna skipi Fáfnis tafist
Samhliða lækkandi oliuverði hefur vandi Fáfnis Offshore aukist jafnt og þétt. Kjarninn greindi frá því í byrjun desember 2015 að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars 2016 en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017. Ástæða frestunarinnar á afhendingu á nýja skipinu sé einföld: ástandið á olíumarkaði hefur leitt til þess að engin verkefni séu til staðar fyrir skip eins og Fáfni Viking.
Nokkrum dögum síðar var Steingrimi Erlingssyni sagt upp störfum sem forstjóra fyrirtækisins. Heimildir Kjarnans herma að miklir samstarfserfiðleikar hafi verið milli stjórnar Fáfnis Offshore og Steingríms í aðdraganda uppsagnar hans.
Steingrímur, sem á enn 21 prósent hlut í fyrirtækinu, stofnaði Fáfni Offshore árið 2012. Hann reyndi í janúar 2016 að kaupa hlut tveggja stærstu hluthafa Fáfnis Offshore, sjóðanna Akurs og Horns II, sem eru í eigu íslenskra lífeyrissjóða, banka og VÍS, fyrir brotabrot af því fé sem sjóðirnir hafa lagt í fyrirtækið. Samkvæmt fréttum DV um málið hafði Steingrímur tryggt sér fjármögnun hjá kanadíska fjármálafyrirtækinu Prospect Financial Group. Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, er starfsmaður Prospect Financial Group. Tilboði Steingrims var hafnað.
Havila setur íslenska banka í vanda
En það er ekki bara vegna Fáfni Offshore sem íslenskir aðilar eru í vandræðum vegna samdráttar á olíuvinnslu í Norðursjó. Eitt þeirra fyrirtækja sem á í miklum vanda vegna þessa er norska fyrirtækið Havila Shipping ASA. Hlutabréf í Havila, hafa lækkað um 90,43 prósent á einu ári og ýmsir greinendur hafa nú í nokkurn tíma spáð því að afar óvíst sé að Havila lifi af þá niðursveiflu sem nú standi yfir.
Í byrjun janúar sendi Havila frá sér tilkynningu til norsku Kauphallarinnar, þar sem fyrirtækið er skráð á markað, og tilkynnti um að það hefði hafið viðræður við kröfuhafa sína um endurskipulagningu á skuldum sínum. Í tilkynningunni segir að Havila sjái fyrir sér „alvarlega fjárhagslega erfiðleika á tímabilinu 2016-2018“ vegna þeirrar niðursveiflu sem átt hafi sér stað á þjónustumarkaði við olíuiðnaðinn í Norðursjó, oftast kallaður „Offshore“-markaðurinn.
Havila sagði að framundan á næstu mánuðum væru stórir gjalddagar sem fyrirtækið hefði engin tök á að greiða né að endurfjármagna. Til að takast á við þennan vanda hefði fyrirtækið teiknað upp samkomulag sem gerir því, í stuttu máli, kleift að fresta greiðslum og endursemja um lánakjör. Auk þess taldi Havila sig þurfa að fá inn 200 milljónir norskra króna, um þrjá milljarða króna, í nýtt eigin fé. Kröfuhafar Havila höfðu upphaflega til loka janúarmánaðar að samþykkja þennan strúktúr en sá frestur hefur nú verið lengdur til 15. febrúar, eða næsta mánudags.
Ástæðan þess að miklu púðri er eytt í stöðu Havila, sem á 27 skip sem þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó, hér er sú að íslenskir bankar eru á meðal kröfuhafa fyrirtækisins. Og það er frekar stutt síðan að þeir ákváðu að gerast slíkir.
Í júlí 2014 lánaði Arion banki Havila 300 milljónir norskra króna, um 4,5 milljarða króna. Íslandsbanki lánaði fyrirtækinu enn meira, alls 475 milljónir norskra króna, rúmlega sjö milljarða króna. Þessir tveir bankar, sem eru annars vegar að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og hins vegar að hluta (ríkið á þrettán prósent hlut í Arion banka), eiga því umtalsvert undir að Havila muni geta borgað skuldir sínar.