Líkt og Kjarninn hefur greint frá bíður ekkert frumvarp frá ríkisstjórninni þess nú að vera tekið til þinglegrar meðferðar á Alþingi. Fremur rólegt hefur verið á Alþingi af þessum sökum, en það þýðir ekki að svo verði áfram. Undanfarið hefur borið á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins séu mjög ósammála um ýmis stór mál, og Kjarninn tók saman nokkur þeirra mála sem líkleg eru til að valda deilum á þinginu - ef þau komast þangað.
1. Húsnæðismálin
Allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum lofaði hún breytingum til hins betra í húsnæðismálum. Síðasta þing má eiginlega segja að frumvarpa frá Eyglóu Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra hafi verið beðið með eftirvæntingu. Þau voru hins vegar lengi í vinnslu og voru sömuleiðis lengi í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu, sem varð meðal annars til þess að Eygló hvatti starfsfólk fjármálaráðuneytisins til að klára málin með því að senda þeim orkustangir og orðsendingu, sem hún birti opinberlega. Á endanum kom fram hörð gagnrýni á stærstu frumvörpin frá fjármálaráðuneytinu. Það breytti þó ekki því að ríkisstjórnin hafði húsnæðismálin sem eitt sinna trompa til að liðka fyrir gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Frumvörpin náðu þó ekki fram að ganga á því þingi, jafnvel þótt það starfaði vel inn í sumarið.
Strax síðastliðið sumar kom fram í fjölmiðlum að ekki væri víðtækur stuðningur við stóru frumvörpin, um húsnæðisbætur og það sem nú kallast frumvarp um almennar íbúðir, hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið hafði eftir þingmönnum að þau yrðu að taka verulegum breytingum til þess að sjálfstæðismenn gætu stutt þau.
Í janúar á þessu ári kom svo fram gagnrýni frá Ragnheiði Ríkharðsdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði þinghópinn hafa margt að athuga við frumvörpin, það hafi alltaf verið vitað að stefna Sjálfstæðisflokksins sé séreignastefna. Í febrúar tók Kjarninn alla þingmenn í velferðarnefnd tali og spurði út í frumvörpin, sem þá voru komin til meðferðar nefndarinnar. Þar kom enn á ný fram að ekki er sátt um frumvörpin óbreytt.
Húsnæðisfrumvörpin eru enn öll hjá velferðarnefnd, sem gæti gert breytingar sem mynda meiri sátt um málin, enda búið að lofa vinnumarkaðnum úrlausnum.
2. Sala bankanna
Fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir því að tæplega 30 prósenta hlutur ríkisins í Landsbankanum verði seldur á þessu ári fyrir 71,3 millarða króna. Bankasýsla ríkisins hefur hafið undirbúning sölunnar. Nú hefur reyndar Borgunarmálið sett strik í reikninginn og flestir vilja pasa að það hafi ekki áhrif á fyrirhugaða sölu. En jafnvel áður en það mál komst aftur í hámæli var komið í ljós að stjórnarflokkarnir tveir hafa afar ólíkar hugmyndir um hlutverk Landsbankans.
Framsóknarflokkurinn ályktaði á flokksþingi í fyrra að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu og eigi að starfa sem samfélagsbanki. Það er hugmynd sem hefur síðan verið haldið mjög á lofti, ekki síst af Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Bjarni Benediktsson segist hins vegar ekki vita hvað samfélagsbankar eigi að vera, hann vill ekki að ríkið eigi allan hlut sinn í Landsbankanum áfram en hefur sagt að ríkið verði samt stór eigandi þar áfram um eitthvert skeið.
Þá hefur Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður flokksins komið fram með þá hugmynd að allir Íslendingar geti beint og milliliðalaust eignast hlut í Íslandsbanka eða Landsbankanum. Þannig verði annar hvor bankanna gerður að samfélagsbanka, enda sé „mikilvægt að annar þessara banka verði að stórum hluta í eigu almennings í landinu.“
Flokkarnir eru því langt frá því að vera sammála um það hvert skuli stefna á fjármálamarkaði, þar sem ríkið er verulega stór eigandi. Hvort sem sala á hlut Landsbankans kemur til kasta þingsins í vor eða ekki er að minnsta kosti ljóst að um framhaldið verður ekki sátt.
3. Búvörusamningar
Það mátti kannski frá byrjun vera ljóst að ekki yrði víðtæk samstaða um undirritun nýrra búvörusamninga. Kostnaður ríkisins eykst um 900 milljónir á ári, samningarnir eru til 10 ára og þeir eru tvöfalt verðtryggðir.
Um leið og búið var að tilkynna um undirritun samninganna í síðasta mánuði var komin fram hörð gagnrýni á þá úr ranni Sjálfstæðisflokksins. Þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór þar fremst í flokki og sagðist alfarið á móti samningunum. „Eru menn ekki að grínast, aldrei með mínu samþykki,“ sagði hún. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, tók undir með Ragnheiði og sagðist lítast mjög illa á samningana. „Það er gjörsamlega ótækt að ætla að bæta svona í ríkisstyrki til landbúnaðarins.“ Vilhjálmur Bjarnason þingmaður flokksins hefur einnig gagnrýnt samningana harðlega.
Það gleymdist hins vegar kannski að Bjarni Benediktsson, formaður flokks þeirra, var einn þeirra sem undirrituðu samningana, þrátt fyrir að óumdeilt sé að þeir séu verk Framsóknarflokksins.
Þá er fólk ekkert sammála um það með hvaða hætti búvörusamningar koma til kasta þingsins. Bjarni Benediktsson hefur sagt að þeir komi þangað inn til samþykktar.