Forsetakosningar í Bandaríkjunum

Fréttaskýring#Bandaríkin#Stjórnmál

Malt og appelsín á krana á ameríska vísu

Hillary Clinton er líklegust til að verða forseti Bandaríkjanna núna áður en forvali stóru flokkanna er lokið. Bryndís Ísfold, útsendari Kjarnans í Bandaríkjunum, var viðstödd framboðsfund Clinton í New York þar sem þakið ætlaði að rifna af húsinu.

Bryndís Ísfold7. mars 2016
Hillary Clinton á framboðsfundi í New York í síðustu viku. Stemmningin var gríðarlega góð á fundinum eins og útsendari Kjarnans komst að raun um.
Mynd: EPA

„Secret service“ stóð feit­letrað framan á skot­helda vesti örygg­is­gæslu­manna í Jacob Javits-ráð­stefnu­höll­inni, þar sem Hill­ary Clinton hélt fund með stuðn­ings­mönn­um. Það var mið­viku­dagur eftir súper-­þriðju­dag og hún var mætt í sitt heima­ríki til að ávarpa stuðn­ings­menn, sjö ríkjum rík­ari eftir góðan sigur á þriðju­dag. Á meðan verið var að róta í tösk­unni minni með vasa­ljósi, gekk ég and­spænis fleiri aðilum leyni­þjón­ust­unn­ar. Þessir voru klæddir í ódýr jakka­föt og úr hálskrag­anum lág hvít hring­laga snúra upp eftir háls­inum og bak við eyrað. Þeir voru þrír og stóðu þarna eins og varn­ar­menn í fót­bolta, til­búnir að verja sig um miðj­una ef bolt­inn skyldi óvart rata þang­að. Skimandi í allar átt­ir. 

Þegar ég gekk fram­hjá reyndi ég að gera upp við mig hvort grun­sam­legra væri að forð­ast augn­sam­band eða horfa þráð­beint í augun á þeim. Ekki hafði ég nokkuð að fela, nema kannski þá stað­reynd að ég var þarna á fölskum for­send­um, ég hafði ekki einu sinni kosn­inga­rétt í land­inu, sem lík­lega fór fram­hjá fram­boð­inu þegar þau buðu mér sér­stak­lega á þennan við­burð.

Eftir kjör­fundi í tólf ríkjum á súper-­þriðju­degi og fimm ríkjum síð­ast­lið­inn laug­ar­dag er Hill­ary Clint­on, fyrr­ver­andi utan­rík­is­ráð­herra, með tölu­verða yfir­burði fram yfir Bernie Sand­ers öld­unga­deild­ar­þing­mann­inn frá Vermont. Ef talin eru með þau atkvæði sem elíta flokks­ins mun greiða og hefur lofað öðrum hvorum fram­bjóð­and­anum á flokks­þing­inu í júní þá hefur hún 1121 atkvæði en Sand­ers 481. Án atkvæða elít­unnar er Hill­ary með 663 atkvæði og Sand­ers 459 atkvæði. Það er því ljóst að það er á bratt­ann að sækja fyrir Sand­ers ef hann ætlar að sigra Hill­ary, en alls ekki úti­lok­að.

Hjá repúblikön­unum hefur Cruz náð að minnka for­ystu Trumps sem hefur nú 382 atkvæði eða kjör­menn en Cruz 300. Lest­ina reka svo þeir Rubio með 128 og Kasich með 35. Sigur Cruz í Texas á þriðju­dag, þar sem hann fékk 102 kjör­menn og sigur hans á tveimur ríkjum á laug­ar­dag hefur styrkt stöðu hans til muna. Eftir þessa hrinu for­vala er ljóst að Rubio á litla sem enga mögu­leika á útnefn­ing­unni en hann hef­ur, bæði leynt og ljóst, verið vona­stjarna for­ystu flokks­ins. Þó erfitt sé að segja að hann sé hóf­samur í skoð­unum hefur hann þó verið tal­inn lík­legri til að ná til miðj­unn­ar. Sem dæmi má nefna að Rubio er, líkt og Cruz og Trump, á móti öllum frek­ari tak­mörk­unum á byssu­eign, hefur efa­semdir um að hlýnun jarðar sé af manna­völd­um, vill ekki hleypa sýr­lenskum flótta­mönnum inn í landið og vilja leggja niður Obamacare, sem veitti millj­ónum banda­ríkja­manna heil­brigð­is­trygg­ingu á síð­asta ári.   

Cruz er nátengdur svo­kall­aðri teboðs­hreyf­ingu og talar mikið um Guð og trú sína í ræð­um. Stundum hljómar hann meira eins og predik­ari í kirkju en fram­bjóð­andi. En Cruz á ekki langt að sækja þessa takta því Raf­ael Cruz faðir hans, sem einnig er inn­flytj­andi frá Kúbu, er einmitt prestur í kirkju í Dallas, Texa­s. 

Heyra mátti í kapp­ræðum repúblik­ana að allir fram­bjóð­endur ákalla Guð sér til hjálpar til að fá til liðs við sig fleiri kjós­end­ur. Eini fram­bjóð­and­inn sem er lík­legur til að tala um allt annað líka er svo Trump, sem lét þau ummæli falla að menn ættu að spá í stærð­ina á hönd­unum á sér og gætu þar af leið­andi verið full­vissir um að aðrir lík­ams­partar væru í stærra lagi lík­a...

Þrátt fyrir að Trump hafi haldið athygli fjöl­miðla með gríni og glensi héldu þeir Rubio og Cruz áfram að sækja að Trump með bæri­legum árangri.

Þegar búið var að skanna mig fram og til baka var mér hleypt inn í sal­inn þar sem smærra svæði innan hans var afmarkað með him­in­háum fán­um, sem teygðu sig úr lofti niður á gólf. Fyrir miðju sal­ar­ins var lítið svið með púlti á. Á móti púlt­inu og til hliðar við það voru svo raðir sjón­varps­mynda­véla og ljós­mynd­arar sátu þétt í neðri röðum bekkj­anna og mund­uðu löngu linsurnar sín­ar. Fyrir aftan sviðið röð­uðu verka­lýðs­hreyf­ing­arnar sér upp í hóp­um, undir borða sem á stóð „Smiðir fyrir Hill­ary“ og álíka. Þar voru sterk­lega vaxnir menn á öllum aldri í rykugum þykkum úlp­um, í Caterpillar skóm, með örygg­is­hálma á höfð­inu. Hér var engin eins­leitni. Hægra megin í salnum var við­skipta­fólkið mætt í Arman­i-jakk­fötum og drögt­um, fólk af öllum mögu­legum upp­runa. Eina sem hefði mátt vera meira af var ungt fólk. Það var því lík­lega sökum „æsku minn­ar“, sem slær fjóra tugi að ári, að fékk ég úthlutað sæti á besta stað í saln­um, sem einnig var þráð­beint fyrir framan mynda­vél­arn­ar. 

Risastórir bandarískir fánar mættu þeim sem gengu í ráðstefnuhöllina í New York.
Mynd: Bryndís Ísfold

„Let them hear it!“ var hrópað úr hópnum sem fagnaði Clinton.Þeldökk kona á níræð­is­aldri með fal­legan fjöð­ur­nældan hatt sat fyrir framan mig og hróp­aði reglu­lega fal­lega und­ir­tóna með suð­ur­ríkja­hreim þegar leið á dag­skránna: „Aha“, „I say“, “Let them hear it!“.

Það er ekki ofsögum sagt að Hill­ary nýtur mik­ils stuðn­ings meðal svartra kjós­enda um allt land­ið. Á þriðju­dag­inn síð­asta fékk hún mik­inn meiri­hluta atkvæða svartra kjós­enda. Stuðn­ingur um 90 pró­sent stuðn­ingur svartra er mik­il­vægur á stöðum eins og í Suð­ur­-Kar­ólínu þar sem um 55 pró­sent kjós­enda eru svart­ir. Í þeim ríkjum sem kosið hefur verið nú þegar nýtur hún í flestum til­fellum um 70-95 pró­sent stuðn­ings svartra kjós­enda, en þeir eru í heild­ina 12,4 pró­sent þeirra sem mega kjósa.

Fólk af rómansk-am­er­ískum upp­runa með kosn­inga­rétt hefur aldrei verið fleira en nú, eða um 27 millj­ónir eða 11,9 pró­sent. Það sem er sér­stak­lega áhuga­vert við þennan hóp er að 44 pró­sent þeirra eru fædd eftir 1980. Þessi ungi hópur er síður lík­legur til að skrá sig til að kjósa en þeir sem eldri eru. Engu að síður eru áhrif þeirra mik­il; Demókratar njóta frekar stuðn­ings kjós­enda af rómansk-am­er­ískum upp­runa. Hins veg­ar, ef Cruz verður fram­bjóð­andi repúblikana, gæti það haft áhrif því hann er sonur inn­flytj­anda frá Kúbu. Fái Trump útnefn­ing­una er ólík­legt að þetta fylgi rati til repúblik­ana en Trump hefur skapað sér mikla óvild í þessum hóp í kjöl­far árása hans á ólög­lega inn­flytj­endur og tali um að vísa þeim öllum úr landi.

Allt þetta tal um kjós­endur sem hafa rétt til að kjósa en ekki ein­fald­lega að tala um kjós­endur eins og gert er þegar fjallað er um sam­bæri­leg mál á Íslandi er vegna tveggja þátta. Ann­ars vegar þarf í flestum ríkjum Banda­ríkj­anna að skrá sig til að kjósa. Það er æði mis­mun­andi hvenær það þarf að vera búið að skrá sig og hvaða skil­ríki þarf að sýna til að sanna til­vist sína. Flækju­stigið dregur veru­lega úr því að fólk skráir sig. Eru það sér­tak­lega ómennt­að­ir, fátæktir og inn­flytj­endur sem hverfa úr skrán­ing­ar­ferl­inu. Kjör­sókn er hins vegar almennt mjög léleg í Banda­ríkj­un­um; aðeins um fjórð­ungur kýs í kosn­ingum til þings og þegar for­seta­kosn­ingar eru mjög spenn­andi kýs um það bil helm­ingur kjós­enda. 

Þeg­ar upp­runi kjós­enda er skoð­aður og hlut­fall þeirra sem mögu­legir kjós­endur kemur í ljós að svartir kjós­endur mæta best á kjör­stað eða 66,6 pró­sent þeirra. Næst eru kjós­endur með hvítan hör­unds­lit, sem mæta í 64,1 pró­sent til­fella, en fólk af rómansk-am­er­ískum og asískum upp­runa mæta í 48 pró­sent til­fella.

Upp­takt­ur­inn fyrir stjörnu dags­ins var magn­aður og það má með sanni segja að það er ekki til sá lands­fundur á Íslandi fyrr né síðar sem nær með tærnar þar sem kan­inn hefur hæl­ana í að halda uppi stemm­ingu á svona kosn­inga­fund­um. Til­finn­ingin var dáítið eins og Björk, Helga Möll­er, Bubbi og Pálmi Gunn­ars stæðu og öskr­uðu öll í einu „eru ekki allir í stuði“ þús­und sinnum á meðan íslenska hand­boltaliðið stýrði veifum á Laug­ar­dal­vell­in­um, Lax­ness læsi Sjálf­stætt fólk yfir hópnum og þjóð­söngnum væri bla­stað í bak­grunni. Stórir skjáir með myndum af smá­börnum og Gull­foss til skipt­is. Kandíflos og SS pyls­ur, malt og app­el­sín á krana, fána­borðar í ljós flétt­uðu hár­inu. Hver myndi ekki dilla sér með í þannig fjöri?

Svona við­burðir eru nán­ast dag­legt brauð hjá öllum for­es­eta­fram­bjóð­end­unum og því lík­legt að þau sé orðin ansi vön að skapa ógleym­an­lega stemm­ingu. En eitt­hvað kostar að halda svona við­burði, þó mest allur pen­ingur fram­bjóð­end­anna fari að jafn­aði í aug­lýs­ing­ar, þarf mikla fjár­muni til að keyra svona kosn­inga­bar­áttu, dag eftir dag. 

Vef­ur­inn Open Secrets heldur úti yfir­liti yfir fjár­söfnun fram­bjóð­end­anna með mik­illi nákvæmni. Á vefnum má sjá að Hill­ary Clinton er búin að brjóta enn eitt gler­þakið því hún hefur safnað mest allra fram­bjóð­enda, eða því sem nemur um 17 millj­örðum íslenskra króna sem sam­svarar 130 milljón doll­ur­um. Næstur á eftir kemur Sand­ers með um 96 millj­ónir doll­ara, Ted Cruz hefur safnað um 54 millj­ónum doll­ara, Rubio 34 millj­ón­um, Trump 25 millj­ónum (sem hann hefur að mestu tekið úr eigin vasa) og Kasich rekur lest­ina með átta og hálfa milljón doll­ara. Eru þá ekki með taldar þær 147 millj­ónir doll­ara sem safnað hefur verið fyrir fram­bjóð­end­urna í gegnum svoköll­uð stuðn­ings­fé­lög eða PACs.

Þar hefur Hill­ary einnig vinn­ing­inn með 57 milljón doll­ara en Sand­ers er aðeins með 45 þús­und doll­ara. Repúblik­ana megin njóta bæði Cruz og Rubio veg­legs stuðn­ings en Trump fær þar aðeins tæp­lega tvær millj­ónir doll­ara.

Hjá Sand­ers er mest um smáa styrki að ræða og þar sker hann sig úr hópnum því lang­flestir sem styðja hann eru ein­stak­lingar með smáar upp­hæð­ir. Þannig fékk hann 70 pró­sent af styrkjum sín­um. Hill­ary sækir aðeins 28 pró­sent styrkja til smárra upp­hæða. Hún er einnig eini fram­bjóð­and­inn sem nýtur jafns fjár­hags­stuðn­ings frá konum og körlum, allir hinir fram­bjóð­end­urnir eru studdir fjár­hags­lega að mestu af körl­um.

Sá hópur sem er svo lík­leg­astur til að gefa pen­inga til fram­bjóð­enda eru þeir sem eru hættir að vinna og komnir á eft­ir­laun, fjár­festar og svo fast­eigna­salar en þaðan koma flestir stuðn­ings­menn Cruz.

Þegar leik­ar­inn John Legu­izamo, sem sumir þekkja sem rödd Sid úr Ísöld­inni og Benny Blanco úr Car­lito´s Way, var búinn að halda sína ræðu rak hver verka­lýðs­hetjan aðra. Vin­sæl­asti borg­ar­full­trú­inn hélt ræðu, kynnti svo borg­ar­stjór­ann sem hélt ræðu og kynnti svo tals­mann rétt­inda borg­ar­búa sem kynnti svo rík­is­stjór­ann sem hélt ræðu og kynnti svo unga konu úr Bronx hverfi sem hafði verið hálf­-ætt­leidd af Hill­ary fyrir ríf­lega ára­tug þegar móðir hennar sem þá var ein­stæði kynnt­ist Hill­ary. Þannig lauk tveggja tíma upp­hitun fyrir „næsta for­seta hins frjálsa heims“ eins og unga fóst­ur­dóttirin orð­aði það. Allt með und­ir­leik mestu stuð­tón­listar fyrr og síð­ar.

Þið skiljið hvers vegna ég var allt í einu farin að klappa og syngja og hrópa eins og inn­fædd áður en ég vissi af. Ég lét fán­ann sem mér var réttur reyndar hverfa ofan í tösku. Þegar þjóð­söng­ur­inn var svo sung­inn létu allir hend­ina yfir hjartað á sér, réttu úr bak­inu og horfðu opin­minntir þráð­beint fram eins og vél­menni. Ég stóð eins og álka, hend­urnar á mér virt­ust allt í einu eins og illa gerðir hlutir og ég var sann­færð um að nú kæm­ist upp um leynd­ar­málið mitt. Eins og ofdekraður ung­lingur í upp­reisn stakk ég hönd­unum í vas­ann og starði þráð­beint á mynda­véla­hafið and­spænis mér. Nú var ég viss um að ég yrði dregin út af leyni­þjón­ust­unni. Það var bara þarna sem ég gat ekki leikið hlut­verkið til fullustu, ekki vildi ég eiga hættu á að bera ábyrgð á því að Jón Sig­urðs­son myndi snúa sér í gröf­inni.

Stemmningin í ráðstefnuhöllinni var gríðarlega góð þegar Clinton steig loks á svið og flutti ræðu sína. Sjá má höfund greinarinnar á myndinni, beint fyrir ofan hausinn á Hillary Clinton.
Mynd: EPA

Svo var hún mætt, for­seta­frúin fyrr­ver­andi, öld­unga­deild­ar­þing­mað­ur­inn og utan­rík­is­ráð­herrann, 68 ára og mögu­lega bara rétt að byrja. Þakið ætl­aði bók­staf­lega af hús­inu og hljóð­himnan á mér ýlfraði yfir lát­un­um. Veif­andi gekk hún upp á sviðið og faðm­aði að sér fóst­ur­dótt­ur­ina frá Bronx og hóf ræðu sína. Það verður að segj­ast eins og er að þessi ræða var bæði efn­is­mikil og ein af þeim betri sem und­ir­rituð hefur séð, en vel má vera að áhrif upp­hit­un­ar­innar hafi haft áhrif á dóm­greind­ina. 

Mark­verð­ast í ræð­unni var áherslan á lág­marks­laun, að það yrði tryggt að allir í land­inu fengju að lág­marki 15 doll­ara á tím­ann, að allir sem ynnu fulla vinnu gætu lifað sóma­sam­legu lífi, en í dag býr stór hluti þjóð­ar­innar við mik­inn efna­hags­legan skort. Áhersla á að halda áfram að byggja ofan á heil­bryggð­is­tryggja­kerfið sem Obama setti á, tekið yrði á lög­reglu­of­beldi gegn svörtum íbú­um, launa­munur kynj­anna tækl­aður og stuðn­ingur við ríkin sem vilja tryggja leik­skóla­pláss fyrir öll börn 4 ára og eldri og fleira. Hún eyddi dálítum tíma í að gagn­rýna and­stæð­inga sína en sagði ekki styggð­ar­yrði um með­fram­bjóð­and­ann sinn, Bernie Sand­ers.  Það var alveg ljóst að það fór ekki ein mann­eskja út úr þessum sal án þess að vera full­viss um að þetta væri næsti for­seti Banda­ríkj­anna.

Eins og kann­anir líta út í dag er það einmitt lík­leg­ast að Hill­ary Clinton verði næsti for­seti Banda­ríkj­anna en þó er alls ekki útséð með það. Nokkrir þættir eru taldir geta breytt þessu. Í fyrsta lagi er það kjör­sókn í for­völum repúblik­ana sem hefur verið sögu­lega há í mörgum fylkjum á meðan kjör­sókn hefur verið í lak­ara lagi hjá demókröt­um. Þetta er rakið til þess að Trump virð­ist ná til fólks sem að jafn­aði tekur ekki mik­inn þátt í kosn­ing­um, í það minnsta ekki í for­völum flokk­anna. Fylgi þessi ákafi stuðn­ingur Trump í kosn­ing­arnar sjálf­ar, fái Trump útnefn­ingu flokks­ins, er erfitt að spá fyrir um nið­ur­stöð­una. En eins og áður kom fram kýs ein­ungis um helm­ingur þeirra sem hafa rétt til að kjósa. En það gæti verið skekkja í könn­unum sem mæla afstöðu fólks því skoð­ana­kann­an­irnar eru flestar gerðar meðal fólks sem hefur lagt í vana sinn að kjósa.

Enn aðrir benda á að sá mikli stuðn­ingur sem Sand­ers nýtur sé svo mik­ill meðal yngri kjós­enda en þeir skila sér síður á kjör­stað. Á sama tíma er stuðn­ingur Hill­ary meiri meðal kvenna og eldri kjós­enda sem skila sér betur á kjör­stað en aðr­ir. Þyngst vegur að Hill­ary hefur ríkan stuðn­ing meðal svartra og rómansk-am­er­ísk ætt­aðra auk hvítra, sem aðrir fram­bjóð­endur hafa ekki náð að krækja í. Þá benda stjórn­mála­skýrendur ítrekað á að Hill­ary sé sá fram­bjóð­andi sem hefur mátt þola mest mót­læti í þau ríf­lega 20 ár sem hún hefur verið í deigl­unni. Þrátt fyrir það nýtur hún mik­illa vin­sælda og því sé hún lík­leg til að geta þolað vel hvað sem verður dregið upp gegn henni í kos­ing­unum sjálf­um. 

Clinton eyddi rúmri klukkustund með kjósendum og ræddi við þau um heima og geima.
Mynd: Bryndís Ísfold.

Þegar búið var að klappa og stappa yfir ræðu Hill­ary í dágóðan hálf­tíma var stjórn­mála­el­íta New York-­ríkis komin upp á svið. Þegar loks var búið að hylla þau öll með við­eig­andi hróp­um, sem sessu­nautur minn tók virkan þátt í þó hún væri orðin of þreytt til að standa, var þessu lok­ið. Mynda­vél­unum var pakkað ofan í tösku og farið var að brjóta saman stól­ana og rífa niður borð­ana. 

En sumir sýndu ekk­ert á sér fara­snið og stóðu með­fram girð­ingu sem afmark­aði svið­ið. Ég tók mér stöðu og ákvað að fylgj­ast með. Flestum að óvörum gekk fram­bjóð­and­inn hægum skrefum með­fram hópn­um, tók allar þær „selfies“ sem óskað var eft­ir, spjall­aði og var hin allra róleg­asta. Fyrir framan hana þræddi leyni­þjón­ustan hóp­inn með rann­sak­andi aug­um, Robin Mook, 37 ára kosn­inga­stjóri fram­boðs­ins, gekk um gólf í krump­uðum fötum og dálítið úfinn. Djúpt sokk­inn ofan í sím­tal á milli þess sem hann leit upp rann­sak­andi í kringum sig og gróf sig svo ofaní sam­talið á ný. Huma Abed­in, sér­leg hægri hönd Hill­ary til margra ára, gekk um og heils­aði fólki poll­ró­leg og skæl­bros­andi með eldrauðan vara­lit og í pinn­háum hæl­um. Það var áhuga­vert að hlusta á fram­bjóð­and­ann ræða málin í róleg­heit­unum og gefa sér tíma til að kyssa smá­börn og árita bækur eins og hún hefði allan tím­ann í heim­in­um.

Þegar hálf­tími var lið­inn og mér farið að leiðast, hélt ég að þessu færi nú að ljúka, en þá átti hún eftir að þræða helm­ing­inn af hópnum og það var ekki fyrr en því var lok­ið, rúmum klukku­tíma síð­ar, sem hún fór loks bak­sviðs. Á útleið blasti svo við löng röð þar sem fyr­ir­menni borg­ar­innar biðu eftir því að kom­ast bak­sviðs til að heilsa líka upp á Hill­ary. Þegar frostið mætti mér úti í myrkr­inu hugg­aði ég mig við það að í þetta sinn var það þó sauð­svartur almúg­inn fékk að hitta fram­bjóð­and­ann fyrst. Það var þó ljóst að allir sem gengu út eftir þennan fund, jafn­vel þeir sem engan kosn­inga­rétt­inn hafa, voru orðnir harðir stuðn­ings­menn Hill­ary Clint­on. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar