Ungir Íslendingar borða skyndibita eða annan tilbúinn mat oftar en annan hvern dag og eyða um 26 þúsund krónum á mánuði í slíkt. Samkvæmt niðurstöðum Meniga borðar ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára úti eða kaupir sér tilbúinn mat, oftast á skyndibitastöðum, tæplega 18 daga í mánuði að meðaltali.
Dominos er vinsælasti veitingastaður landsins samkvæmt tölum frá Meniga. Nítján þúsund Meniganotendur fengu sér Dominospitsu árið 2015. Þetta þýðir að um 81 prósent þeirra sem versluðu sér tilbúinn mat versluðu einu sinni eða oftar við Dominos. Subway er næstvinsælasti skyndibitastaður landsins, með 17.500 heimsóknir frá Meniganotendum á mánuði og KFC í þriðja sæti, með 16.000. Hlutföllin þar eru 75 prósent hjá Subway og 69 prósent hjá KFC. Fleiri vinsælir staðir eru Bakarameistarinn, Te og kaffi, Saffran og Serrano. Nærri jafn margir Meniga notendur fengu sér pylsu á Bæjarins bestu og versluðu við sjálfsala Ölgerðarinnar árið 2015. 10.850 fengu sér næringu úr sjálfsala og 10.640 fengu sér Bæjarins bestu pylsu.
Yngri fara oftar en eyða minna
Oftast er mikill munur á útgjöldum eftir aldurshópum og sést það mjög greinilega þegar kemur að skyndibitaáti. Kjarninn fékk tölulegar upplýsingar frá Meniga sem sýna neysluhegðun um 50.000 Íslendinga árið 2015. Undir þennan lið falla allir staðir sem selja tilbúinn mat eins og skyndibitastaðir, kaffihús, veitingastaðir og bakarí.
Fólk á aldrinum 26 til 35 ára eyða mestum peningum í skyndibita, tæplega 30 þúsund krónum á mánuði. Upphæðin lækkar eftir því sem fólk eldist, en elsti aldurshópurinn, 66 ára og eldri, eyðir tæpum 12 þúsund krónum. Og það er eins með fjölda heimsókna á skyndibitastaði og aldurinn, því skiptum fækkar eftir því sem fólk verður eldra. Fólk yfir 66 ára fer að meðaltali fimm sinnum í mánuði á skyndibitastað.
Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Tölurnar byggja á fjárhagslegum 16 milljón færslum 50 þúsund notenda sem veltu um 84 milljörðum króna árið 2015. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnoktun einstaklinga.
Oftast er mikill munur á útgjöldum fólks eftir aldurshópum. Mesti munurinn er á veitinga- og skyndibitamarkaðnum, en nær helmingur, eða 43 prósent, útgjalda ungs fólks á aldrinum 16 til 25 ára fer í mat og veitingar.
Eyðir tæpri milljón í mat
Þó að Íslendingar borði oft skyndibita og eyði hundruð þúsunda á ári í slíkan mat, þá er langstærsti útgjaldaliðurinn matvöruverslanir. Samkvæmt tölum Meniga er fjölskyldufólk að eyða tæpum 900 þúsund krónum á ári í matvöruverslanir.
Í þessum útgjaldalið er mikið bil á milli aldursflokka. Fjölskyldufólk í yngri kantinum, á aldrinum 26 til 55 ára, eyðir mestu, eða um 75 þúsund krónum á mánuði. Yngsti aldurshópurinn eyðir um 25 þúsund krónum á mánuði og sá elsti um 56 þúsund krónum.
Fólk á aldrinum 36 til 45 ára fer að meðaltali annan hvern dag í matvöruverslun, en tíðnin minnkar eftir því sem fólk verður eldra. Þó fer yngsti aldurshópurinn sjaldnast í matvörubúð, eða um þriðja hvern dag.