Píratar og Sjálfstæðisflokkur mælast nær hnífjafnir, með um 28 prósenta fylgi, í nýjustu kosningaspánni um fylgi flokkanna sem gerð var 4. júní. Sjálfstæðisflokkur missir rúmt prósentustig síðan í síðustu kosningaspá, 2. júní, en Píratar bæta við sig hálfu prósentustig. Viðreisn bætir við sig tæpum tveimur prósentustigum síðan kosningaspáin var gerð síðast.
Vinstri græn mælast með 17 prósent, en voru með 17,5 síðast. Framsóknarflokkur bætir við sig rúmu prósentustigi og mælist nú með 10,1 prósent. Samfylking stendur nær í stað með rúm sjö prósent og Viðreisn bætir við sig um tæp tvö prósentustig og fer úr 4,1 í 5,8 prósent.
Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar er gerð fyrir Alþingiskosningar sem boðaðar hafa verið í haust. Baldur hefur útbúið spálíkan sem vigtar kannanir sem gerðar eru á fylgi stjórnmálaflokka eftir áreiðanleika. Sama líkan var notað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 fyrir fylgi framboða í Reykjavík og niðurstaðan birt á vef Kjarnans og á vefnum kosningaspá.is. Í nýjustu kosningaspánni eru nýjustu kannanirnar vegnar:
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 1. til 2. júní (vægi 31,6%)
- Þjóðarpúls Gallup 28. apríl til 29. maí (vægi 47,4%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 21,0%)
Viðreisn mannar brátt lista
Eins og áður segir mælist Viðreisn með 5,8 prósenta fylgi í kosningaspánni og hefur slitið sig nokkuð rösklega frá Bjartri framtíð sem mælist nú með 3,6 prósent stuðning í kosningaspánni. Munurinn á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er einnig orðinn meiri en skekkjumörkin sem reiknuð eru með kosningaspánni og hægt er að fullyrða að Viðreisn sé orðið vinsælla framboð en Björt framtíð.
Í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem gerð var fyrir Morgunblaðið mælist Viðreisn með tæplega átta prósent stuðning. Í nýjustu kosningaspánni vegur sú könnun næst þyngst og fær 31,6 prósent vægi.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir þetta auðvitað ánægjulegar fréttir, sérstaklega í ljósi þess að flokkurinn hafi formlega verið til í minna en tvær vikur.
„Ég er býsna brattur með þetta, enda væri vanþakklátt að vera annað, eftir svona skamman tíma,“ segir hann. „En svo verðum við að standa okkur áfram, með því að vera með skynsamlega stefnu og góða frambjóðendur. Stefnan er nokkuð ljós, þannig að fólki fellur hún bærilega vel í geð. Svo er bara að stilla þessu upp.“
Spurning með Ragnheiði
Brátt verða skipaðar uppstillingarnefndir og þá taki hlutir að skýrast, að sögn Benedikts. Viðreisn stefnir að því að bjóða fram í öllum kjördæmum.
„Það eru ekki komnir frambjóðendur alls staðar, ekki frekar en hjá öðrum flokkum,” segir Benedikt. „En það er fólk víða um land sem sýnir þessu mikinn áhuga.“
Hann vill ekkert gefa upp varðandi mögulega frambjóðendur, ekki einu sinni varðandi sig sjálfan. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fráfarandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í gær að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Vangaveltur hafa verið uppi hvort hún muni færa sig yfir til Viðreisnar, en hún hvorki neitað því né játað. Það gerir Benedikt ekki heldur.
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum. Hægt er að lesa nánar um framkvæmd kosningaspárinnar hér.