Formenn nokkurra stærstu aðildarfélaga Bændasamtaka Íslands (BÍ); Landssambands kúabænda, sauðfjárbænda, garðyrkjubænda og kartöflubænda, taka allir heilshugar undir orð formanns BÍ vegna harðorðar umsagnar Samkeppniseftirlitsins um búvörusamningana. Allir undirstrika að samningarnir séu undirritaðir og ekki komi til greina að endurskoða veigamikil atriði án þess að fara aftur í samningaferli. Þeir lýsa yfir áhyggjum af stjórnsýslunni og velta upp spurningu um hvort fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra hafi verið umboðslausir þegar þeir skrifuðu undir.
Andskoti hart ef samninganefnd hefur verið umboðslaus
Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, segir undirskrifaða samninga liggja fyrir og nú bíði það bara Alþingis að samþykkja fjárveitingar til þeirra, eða hafna þeim.
„Það er ekki hægt að breyta þeim núna. Þeir hafa verið samþykktir á öllum vígstöðvum, nema á Alþingi,“ segir hann. „Við erum með plagg, undirritað af samninganefnd ríkisins, og það er andskoti hart ef maður upplifir að hún hafi verið umboðslaus þegar hún skrifaði undir. Það er skrýtin stjórnsýsla.“
Arnar segir að ef það komi í ljós að eitthvað hafi verið ólöglegt í samningunum þurfi að leiða það til lykta fyrir dómstólum. „Það þarf að klára þetta eða byrja upp á nýtt. 75 prósent kúabænda samþykktu samningana og ef ferlið fer af stað aftur er ýmsilegt í uppnámi.“
Samningar skulu standa
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, tekur í sama streng.
„Það var setið við samingaborðið í langan tíma. Samningarnir eru undirritaðir af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi landbúnaðarráðherra, og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og í mínum huga er það þannig að samningar skulu standa,“ segir Þórarinn. Hann bætir við að samningarnir séu tengdir búvörulögum, sem Alþingi þurfi að taka ákvörðun um á endanum, og bendir á að gagnrýni Samkeppniseftirlitsins snúist fyrst og fremst að mjólkuriðnaðinum.
Vill ekki að búvörusamningarnir verði kosningamál
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, hefur miklar áhyggjur af því að samningarnir verði ekki staðfestir.
„Ég tek undir með Sindra. Þegar samningur hefur farið í atkvæðagreiðslu og hann samþykktur - velti ég fyrir mér hvort ríkið ætli svo að breyta samningnum einhliða. Ég hef áhyggjur af þessu,“ segir hann. „Menn lögðu af stað fyrir ári síðan og niðurstaðan var sú að leggja þennan samning í atkvæðagreiðslu og undir hann rita ráðherrar. Ég spyr mig í hvaða umboði voru þeir að skrifa, þegar atvinnuveganefnd segist ætla að kollvarpa samningnum.“
Gunnar segir stöðuna óþægilega. „Þetta er ekki góð stjórnsýsla. Og ef það verður gert að kosningamáli í haust hvernig reka eigi landbúnað á Íslandi, það lýst mér illa á.“
Gagnrýnir Samkeppniseftirlitið
Bergvin Jóhannsson, formaður Landssambands kartöflubænda, segir ljóst að ef það eigi að umturna samningunum, þurfi að byrja ferlið upp á nýtt. Hann gagnrýnir vinnuaðferðir Samkeppniseftirlisins.
„Þarf ekki að breyta vinnureglum þar innan dyra? Það virðist ekki allt vera í lagi þar,“ segir Bergvin. Hann undirstrikar að hann sé sáttur við samninginn sem lúti að garðyrkju. „Það er verið að opna þetta meira og meira og gera þetta öllum aðgengilegt. Í nær öllum landbúnaði. Það er mjög jákvætt.“
Félag atvinnurekenda segir samningana slæma
Búvörusamningarnir voru ekki afgreiddir á Alþingi fyrir sumarfrí. Formaður Bændasamtakanna sagði í kjölfarið að það setti samningana í óvissu. Það kom sannarlega á daginn. Í síðustu viku sendi Samkeppniseftirlitið harðorða umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis þar sem sagði að samningarnir þarfnist gagngerrar endurskoðunar til að tryggja almannahagsmuni áður en Alþingi samþykkir þá. Samningar við mjólkuriðnaðinn voru gagnrýndir hvað mest.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sagði við Stöð 2 í gær að búvörusamningarnir væru slæmir og að Alþingi ætti ekki að samþykkja þá.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði það ekki koma til greina að endurskoða stór atriði í samningunum, enda væru þeir undirritaðir og samþykktir af bændum og ríkinu. Ef til þess kæmi, yrði að hefja samingaferlið upp á nýtt. Þó verði að endurskoða atriði ef þau eru metin svo að þau stangist á við lög.