Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum sem fram fóru í gær, laugardaginn 25. júní. Síðan Guðni tilkynnti um framboð sitt um mánaðamótin apríl-maí hafði hann notið langmests fylgis í skoðanakönnunum og borið höfuð og herðar yfir aðra framjóðendur. Þangað til í kosningunum sjálfum.
Guðni sigraði í kosningunum með 39,1 prósent greiddra atkvæða, nokkru minna en hann hafði mælst með í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar í aðdraganda kosninga. Halla Tómasdóttir hlaut aftur á móti mun fleiri atkvæði en kosningaspáin hafði gert ráð fyrir föstudaginn fyrir kosningar, eins og sjá má á súluritinu hér að neðan.
Kosningaspáin er reiknilíkan sem ætlað er að birta sem raunhæfasta mynd af fylgi frambjóðenda á hverjum tímapunkti fyrir sig í aðdraganda kosninga. Í reiknilíkanið voru færðar nýjustu kannanir á fylgi frambjóðenda í embætti forseta og þeim gefið vægi eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Til að taka einfalt dæmi þá fær ný könnun meira vægi en eldri könnun og fjölmennari könnun fær meira vægi en fámennari. Þá hefur söguleg forspárgeta könnunaraðila einnig sitt að segja. Nánar má lesa um kosningaspána hér.
Kosningaspáin tekur þannig saman allar þær fyrirliggjandi kannanir sem hafa nægilega mikið vægi til að spá fyrir um fylgi hvers frambjóðenda meðal almennings. Í kosningaspánni eru áhrif svokallaðra útlaga dempuð, það eru kannanir sem lýsa ekki þýðinu nógu vel. Sveiflurnar á milli kosningaspáa verða minni fyrir vikið.
Það var þess vegna nokkuð óvænt að sjá stuðning við framboð Höllu Tómasdóttur aukast hratt í síðustu kosningaspám fyrir kosningar. Nokkrir dagar höfðu liðið þar til Fréttablaðið, Félagsvísindastofnun og Gallup birtu kannanir á fimmtudag og föstudag fyrir kosningar. Halla hafði á þeim tíma fengið meiri byr undir báða vængi en hún hafði áður gert og var á föstudag komin með upp undir 20 prósent fylgi í kosningaspánni, nokkuð meira en Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason, sem bitist höfðu um „annað sætið“ vikurnar á undan.
Á sama tíma og fylgið við Höllu óx féll fylgið við Guðna Th. Jóhannesson. Erfitt er að fullyrða um að hér hafi fólk orðið afhuga Guðna og ákveðið að velja Höllu í staðinn, því að þeim undanskildum var um sjö aðra frambjóðendur að velja. Þau Guðni, Halla, Davíð og Andri Snær skiptu hins vegar nær allan tíman með sér um og yfir 90 prósent fylgisins.
Niðurstöður kosninganna voru því rökrétt framhald af þeim fylgissveiflum sem lesa má úr línuritinu. Halla bætti við sig töluvert og tók mest af sínu aukafylgi af Guðna, Andra og Davíð.
Var of værukær
Þegar litið er á kosningabaráttu Guðna Th. Jóhannessonar má segja að hún hafi verið nokkurnveginn eftir bókinni. Guðni náði strax athygli kjósenda, þrátt fyrir að kanónur á borð við Ólaf Ragnar Grímsson, sitjandi forseta, og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefðu lýst yfir framboði. Guðni mældist þrátt fyrir það með um 70 prósent fylgi, rúmum mánuði fyrir kjördag.
Í þeim aðstæðum, þegar helstu skilaboðum og baráttumálum hefur verið komið á framfæri, munu flestir almannatenglar og kosningastjórar benda frambjóðanda sínum á að halda sig frekar til hlés og halda fyrirfram ákveðinni dagskrá. Óþarfi er að grípa til nokkurra aðgerða. Fréttir af könnunum, sem alltaf eru að fara að verða töluvert margar, munu sjá til þess að kynna frambjóðandann. Ekkert er vinsælla en vinsæll frambjóðandi.
En eins og Guðni hafði sjálfur spáð fyrir um þá tók fylgið að dala. Það féll ekki hratt í fyrstu og var lengst af yfir 60 prósent. En það hélt áfram að minnka og var komið undir 50 prósent í upphafi síðustu viku. „Ég hugsa að ég hafi orðið of værukær,“ sagði Guðni í kosningasjónvarpi RÚV um miðnætti á kosninganótt þegar línurnar voru farnar að skýrast. Það kann að vera rétt greining hjá Guðna en mestu fylgissveiflurnar mældust hugsanlega of seint fyrir framboð hans að bregðast við.