Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, „Einkavæðing bankanna hin síðari“ var kynnt í gær. Hún er í öllum meginatriðum endurtekning á þeim ásökunum sem Víglundur Þorsteinsson hefur lagt fram þrívegis á undanförnum árum. Þeim ásökunum hefur verið hafnað af þeim einstaklingum sem þær beinast að, þeim stofnunum sem komu að málinu og í áliti sem unnið var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan.
Samkvæmt ásökununum ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og sérstaklega fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, í samstarfi við embættismenn og Seðlabanka Íslands, að hefja aðför gegn neyðarlögunum í febrúar 2009 með það að markmiði að færa kröfuhöfum föllnu bankanna betri endurheimtir. Í þessari aðför var ákveðið að hundsa þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birt voru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) 14. nóvember 2008. Í skýrslunni er síðan reiknað út að ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna í áhættu í þágu kröfuhafa með þessum aðgerðum.
Í fréttatilkynningu segir að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem átti sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa.[...]Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin afi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum.“
Tveir nefndarmenn borguðu fyrir skýrsluna
Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í fundarherbergi fjárlaganefndar í gær. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður hennar, sáu um kynningu á henni.
Á fundinum vildi Vigdís ekki svara því til hverjir hefðu komið að gerð skýrslunnar utan nefndarmanna og starfsmanna fjárlaganefndar. Hún sagði að aðilar með sérfræðiþekkingu hefðu sett sig í samband við nefndina og lagt fram vinnu, en vildi ekki tilgreina hverjir þeir væru. Heildarkostnaður við gerð skýrslunnar var sagður 90 þúsund krónur og greiddu Vigdís og Guðlaugur Þór hann úr eigin vasa.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að engin beiðni hafi borist um greiðslu sérfræðikostnaðar vegna gerðar skýrslunnar. Hann veit ekki til þess að fordæmi séu fyrir því að nefndarmenn greiði sjálfir kostnað vegna skýrslugerðar.
Helgi segir skýrsluna væntanlega verða þingskjal sem skýrsla meirihluta fjárlaganefndar og því ætti hún að birtast á vef Alþingis.
Minnihluti fjárlaganefndar kom ekkert að gerð skýrslunnar og Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar sem situr í nefndinni, gagnrýndi gerð hennar harðlega áMorgunvaktinni á Rás 1 í morgun og sagði að hún vilji fá að vita hvernig skýrslan hafi verið unnin.
Eignir teknar gegn því að greitt yrði fyrir þær síðar
Til að átta sig á hvað málið allt snýst um þarf að hverfa aftur til október 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi við fordæmalausar aðstæður og neyðarlög voru sett í landinu. Stór hluti stærstu fyrirtækja landsins urðu tæknilega gjaldþrota, þúsundir heimila glímdu skyndilega við mikinn skuldavanda og ríkissjóður fór frá því að vera skuldlaus og fullur í að vera tómur og stórskuldugur. Til að takast á við þennan vanda þurfti að endurreisa bankakerfið sem hafði hrunið með einhverjum hætti.
Neyðarlögin gerðu eignir allra hluthafa í bönkunum þremur sem FME tók yfir að engu. Þau breyttu líka kröfuröð til að tryggja að allar íslenskar innistæður nytu forgangs og eignir voru teknar úr þrotabúum þessara banka og færðar inn í nýja með innistæðunum. Kröfuhafarnir sem lánað höfðu íslenskum bönkum háa fjármuni, töpuðu þúsundum milljarða króna. Þeir áttu síðan möguleika að fá hluta þess taps til baka þegar búið væri að gera upp slitabú Kaupþings, Landsbanka Íslands og Glitnis.
FME gerði bráðabirgðamat á virði þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýju bankanna og birti á heimasíðu sinni 14. nóvember 2008. Í neyðarlögunum var sérstaklega var tekið fram að FME væri heimilt „að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur“. Það var því ljóst frá byrjun að þær eignir sem teknar voru úr þrotabúunum yrðu metnar og síðan yrði greitt fyrir þær sannvirði.
Í stað þess að ríkissjóður fjármagnaði nýju bankanna að fullu, líkt og lagt var upp með við hrunið, var ákveðið að erlendir kröfuhafar myndu eignast hlut í þeim og eignir þeirra yrðu notaðar til slíks. Þar með losnaði galtómur ríkissjóður við að leggja nýju bönkunum til mikið eigið fé. Þegar búið var að fjármagna bankanna var hægt að endurskipuleggja atvinnulífið og skuldir heimila landsins. Þeirri vinnu er í dag að langmestu lokið.
Þegar kom að því að veita slitabúum föllnu bankanna undanþágu frá fjármagnshöftum til að ljúka slitum sínum var sett fram krafa um að þeir gæfu eftir hluta eigna sinna til að ógna ekki greiðslujöfnuði íslensks efnahags. Á þetta féllust þeir og „greiddu“ 384,3 milljarða króna í svokölluð stöðugleikaframlög. Langstærsti hlutinn er 288,2 milljarða framlag vegna viðskiptabankanna Íslandsbanka og Arion banka. Hið ætlaða tap vegna einkavæðingarinnar hinnar síðari varð því aldrei að veruleika.
Víglundur stígur fram...þrisvar
Víglundur Þorsteinsson hefur stigið þrívegis fram á undanförnum árum og sagt að samningarnir við kröfuhafanna, sem kallaðir hafa verið einkavæðingin hin síðari, standist ekki lög né stjórnarskrá. Ekki hafi verið heimilt að semja við kröfuhafa né að víkja frá þeim drögum að stofnefnahagsreikningum bankanna sem birt voru í nóvember 2008, um mánuði eftir bankahrun.
Þegar Víglundur steig fram með ásakanir sínar í þriðja sinn í janúar 2015 þá byggðu þær á nákvæmlega sömu gögnum og vísað er til í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar. Þá hélt Víglundur því fram að Íslendingar hefðu verið rændir um 300-400 milljarða króna þegar samið var um kröfuhafa. Hann ásakaði stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og starfsmenn eftirlitsstofnana hafa tekið sig saman í þessu samsæri gegn þegnum landsins. Í því samsæri hafi þeir gerst sekir um stórfelld brot á hegningarlögum og stjórnarskrá.
Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar er ekki jafn afgerandi í ásökunum sínum, en þær eru samt sem áður alvarlegar. Í inngangi hennar segir m.a. að hún varpi ljósi á „hvernig kröfuhöfum voru færðir íslensku bankarnir með mikilli meðgjöf frá skattgreiðendum með gríðarlegri áhættu fyrir ríkissjóð árið 2009.“
Ástæðan fyrir því að Víglundur talaði um rán en skýrsla meirihluta fjárlaganefndar um áhættu er sú að íslenska ríkið hefur eignast nýju bankanna að mestu á undanförnu ári. Ríkið hefur því ekki tapað neinu á aðkomu erlendu kröfuhafanna að eignarhaldi Arion banka, Íslandsbanka og um tíma hlutar í Landsbankanum. Þvert á móti er hagnaður ríkissjóðs vegna þessa áætlaður á annað hundrað milljarðar króna. Og „einkavæðingin“ sem skýrslan fjallar um er nánast að öllu leyti gengin til baka
Friðþæging eða að sefa
Í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar segir að fylgiskjöl hennar sýni „undarlegan ótta samningamanna við kröfuhafanna og vanmáttarkennd gagnvart hátt launuðum lögfræðingaher þeirra. Þau sýna sérkennilega áráttu íslenska samningafólksins til að gæta hagsmuna viðsemjenda sinna og tryggja að þeir bæru ekki skarðan hlut frá borði.“
Lykilatriði í kynningu á skýrslunni, sem notað er til að draga þessa ályktun, er fundargerð stýrinefndar ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar, Hawkpoint, frá 10. mars 2009. Í fréttatilkynningu sem send var út vegna útkomu skýrslunnar segir að í þessari fundargerð megi finna „sérstakt viðhorf samningamanna ríkisins t.d. má nefna orð ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu á fundi eftir að samningar við kröfuhafa voru komnir þangað inn á borð. Þar sagði hann „mikilvægt að trufla ekki samband skilanefndanna og kröfuhafanna. Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er.““
Ráðuneytisstjórinn sem um ræðir er Guðmundur Árnason, sem er enn í dag ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Fundargerðirnar sem vísað er til í skýrslunni hafa áður ratað í opinbera umræðu. Víglundur Þorsteinsson fékk þær afhentar árið 2013. Í opnu bréfi sem hann sendi forseta Alþingis í janúar 2014, þar sem hann fer yfir allar ásakanir sínar og veltir því fyrir sér hvort kalla ætti Landsdóm saman til að rétta yfir þeim sem áttu að hafa fært kröfuhöfum hundruð milljarða króna, er vísað í sömu fundargerðir. Þar er einnig talað um að ríkisstjórnin hafi verið „á fullri ferð við að friðþægja erlendu kröfuhafana með því að opna fyrir leiðir til að fara framhjá neyðarlögunum og úrskurðum FME.“
Fundargerðirnar voru ritaðar á ensku en Víglundur, og meirihluti fjárlaganefndar, fengu löggilta skjalaþýðendur til að þýða þær. Í báðum tilfellum komust þýðendurnir að þeirri niðurstöðu að setningin: „The state wants to appease the creditors to the extent possible þýði „Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er“.
Samkvæmt orðabók þýðir orðið „appease“ hins vegar ekki friðþæging, heldur að friða, róa, stilla eða sefa. Enska orðið fyrir friðþægingu er „atonement“.
Brynjar Níelsson hafnaði málatilbúnaðinum í skýrslu
Umræddar ásakanir Víglundar, og nú meirihluta fjárlaganefndar, hefur margoft verið hafnað af ýmsum aðilum. Fjármálaeftirlitið sendi frá sér tilkynningu í byrjun árs í fyrra þar sem það hafnaði því að drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna hafi verið eitthvað annað en drög. Í tilkynningunni sagði: „því er ranglega haldið fram að Fjármálaeftirlitið hafi með stofnúrskurði mælt fyrir um afskriftir á einstökum lánum. Eins og áður greinir tók Fjármálaeftirlitið ákvarðanir um hvaða eignir og skuldir færu yfir til nýju bankanna og eftir hvaða ferli skyldi meta virði þeirra. Þau fylgiskjöl sem nú hafa birst opinberlega, drög að stofnefnahagsreikningum bankanna þriggja frá í október 2008, höfðu þann eina tilgang að leiða fram gróft mat á efnahag bankanna við upphaf reksturs þeirra, stöðu sem fyrir fram var vitað að tæki breytingum á grundvelli áðurnefnds matsferlis. Enn fremur er rétt að benda á að FME kveður almennt ekki upp úrskurði.“
Fjármálaráðuneytið hefur einnig hafnað ásökunum Víglundar. Í fréttatilkynningu frá því í ágúst 2012 sagði það: „Dylgjum um að ráðuneytið, ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hafi haft afskipti af einstökum lánum eða lánveitendum er alfarið vísað á bug“.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið til skoðunar eftir að Víglundur ritaði hið opna bréf til forseta Alþingis. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hæstaréttarlögmaður og varaformaður nefndarinnar, tók að sér að fara yfir erindið og gefa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd álit sitt á því.
Í niðurstöðu sinni, sem birt var 17. febrúar í fyrra, sagði Brynjar að útilokað væri að taka undir þau sjónarmið sem Víglundur hefði sett fram um að bráðabirgðamat FME hefði verið endanlegur úrskurður um verðmæti eigna sem færðar voru með handafli ríkisins yfir til nýju bankanna.Í skýrslunni segir að „eignir gömlu bankanna eru varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Fráleitt væri því að ætla þeim, sem tekur eignir eignarnámi, að meta verðmæti þeirra og án allrar aðkomu þess sem þola þarf eignarnámið. Enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hér hafi eingöngu verið um viðmið að ræða en ekki endanlegt mat á verðmæti eignanna.“
Þá hafa Þorsteinn Þorsteinsson og Jóhannes Karl Sveinsson, sem voru í lykilhlutverkum við endurreisn bankakerfisins, einnig hafnað þessum ásökunum ítrekað í greinarskrifum, meðal annars í slíkir sem birtist á Kjarnanum 28. janúar 2015.
Loks hefur Bjarni Benediktsson lýst því yfir opinberlega að hann efist um ásakanir þess efnis að lögbrot hafi verið framin við endurreisn bankakerfisins.
Sigmundur Davíð vildi að kröfuhafar fengu bankana
Í þeim ásökunum sem fram hafa verið settar gagnvart vinstristjórninni sem sat frá 1. febrúar 2009 í þessu máli hefur verið horft fram hjá því að viðræður um að erlendir kröfuhafar myndu eignast í nýju bönkunum voru hafnar þegar hún tók við.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, greindi frá því í sjónvarpsviðtal á RÚV 3. desember 2008 að ríkisstjórnin vildi bjóða erlendum kröfuhöfum hlut í nýju bönkunum og að tveir vinnuhópar á vegum fjármálaráðuneytis og skilanefnda gömlu bankanna væru að vinna að útfærslu á því. Formlegar viðræður við kröfuhafanna myndu hefjast 11. desember 2008. Margt mælti með því að erlendir kröfuhafar myndu eignast hlut í íslensku bönkunum. Þáverandi fjármálaráðherra var Árni Mathiesen, Sjálfstæðisflokki.
Ný minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók síðan við völdum 1. febrúar 2009 og sat fram að kosningum 25. apríl sama ár. Hún var varin falli fram að kosningum af Framsóknarflokknum og formanni hans, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Sigmundur Davíð fór í viðtal við Fréttablaðið 21. febrúar 2009. Þar var hann meðal annars spurður út í hvað hann vildi sjá verða um bankana. Sigmundur Davíð svaraði þeirri spurningu á eftirfarandi hátt: „Að mínu mati er langbesta leiðin að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum. Fyrir því eru nokkrar ástæður, helst þær að með því öðlast bankakerfið aukið traust - því miður er traust á íslenskum stjórnvöldum og bankakerfi ákaflega lítið. Þá dregur það úr þeirri hættu að þau mistök sem voru gerð endurtaki sig. Ef bankarnir fara í eigu erlendu kröfuhafanna þá hafa þeir ríka ástæðu til að bönkunum gangi vel og halda þeim gangandi. En til að þetta megi verða þarf að tryggja stöðu þeirra sem skulda bönkunum að því leyti að ekki verði gengið að þeim og íslenskt efnahagslíf lagt í rúst. Sé það tryggt þá er þetta besta leiðin.“
Formaður Framsóknarflokksins var því sammála því mati á þeim tíma að rétt væri að semja við erlendu kröfuhafanna um að þeir myndu eignast í íslensku bönkunum.