Ráðningu Bannon hefur verið mótmælt harðlega.
Mynd: EPA

Sótt að Trump vegna ráðningar Bannon

Stephen Bannon er verulega umdeildur maður sem fær bráðum skrifstofu í Hvíta húsinu og mikil völd. Hann hefur undanfarin ár stýrt Breitbart News, sem hefur verið lýst sem miðli fyrir þá sem þykir Fox News of kurteis og hófsamur fjölmiðill.

Eng­inn skortur er þessa dag­ana á gagn­rýni á Don­ald Trump, verð­andi for­seti Banda­ríkj­anna, frekar en verið hefur und­an­farna mán­uði og ár. Hann til­kynnti um fyrstu ráðn­ingar sínar sem for­seti, og hefur ráðið Reince Priebus, for­mann lands­nefndar Repúblikana­flokks­ins, í starf starfs­manna­stjóra Hvíta húss­ins. Ráðn­ingu Priebus hefur verið fagnað af Repúblikön­um, enda innsti koppur í búri þar á bæ. Hin ráðn­ingin vakti minni lukku, og miklu meiri gagn­rýni. Í starf yfir­manns stefnu­mót­unar og ráð­gjafa réði Trump nefni­lega mann að nafni Stephen Bann­on. Bannon tók við stjórn­ar­taumunum á kosn­inga­bar­áttu Trumps undir það síð­asta, frá því í ágúst síð­ast­liðn­um, en hann var fram að því stjórn­ar­for­maður Breit­bart News, sem er hægri­s­inn­aður fjöl­mið­ill sem hefur verið lýst sem frétta­miðli þeirra sem finnst Fox News of kurt­eis og hóf­samur fjöl­mið­ill. 

„Maður sem hvetur til hat­urs“

Bannon er meðal ann­ars sak­aður um að hafa ýtt undir kyn­þátta­for­dóma, gyð­inga­hatur og kynja­mis­munun í starfi sínu hjá Breit­bart. Ýmsir mann­rétt­inda­hópar gagn­rýndu ráðn­ing­una strax, sem og margir Demókratar og þónokkrir Repúblikan­ar. Flestir þeirra ein­beittu sér þó að því að fagna hinni ráðn­ing­unni, og minnt­ust ekki á Bann­on. En John Wea­ver, sem var kosn­inga­stjóri John Kasich í for­kosn­ing­unum og áður ráð­gjafi John McCain, tjáði sig frjáls­lega. „Ra­síska, fasíska öfga­hægrið er með full­trúa nokkrum skrefum frá skrif­stofu for­set­ans. Vertu á varð­bergi Amer­ík­a.“ 

Eliza­beth War­ren, hinn áhrifa­mikli öld­unga­deild­ar­þing­maður Demókrata, var meðal þeirra sem gagn­rýndi ráðn­ing­una harð­lega. „Þetta er maður sem hvetur til hat­urs, hann hefur verið lof­aður af stuðn­ings­mönnum KKK og nas­ista, og hann hefur verið for­dæmdur af rétt­inda­sam­tök­um,“ sagði hún meðal ann­ars. „For­seti Banda­ríkj­anna á að for­dæma ofstæk­is­menn – ekki afhenda þeim skrif­stofu í Vest­ur­álm­unni (e. West Wing) og veita þeim völd til að taka ákvarð­anir sem varða fram­tíð lands­ins okk­ar. Don­ald Trump seg­ist vilja vera for­seti fyrir alla Banda­ríkja­menn. En ráðn­ing Bannon sýnir að hingað til er verð­andi for­set­inn Trump á sömu braut ljót­leika og sund­ur­lyndis og hann var á alla kosn­inga­bar­átt­una.“ Nancy Pelosy, leið­togi Demókrata í full­trúa­deild þings­ins, sagði að það væri ekki hægt að syk­ur­húða þá stað­reynd að búið væri að ráða hvítan þjóð­ern­is­sinna sem yfir­mann í stjórn Trump. 

Bernie Sand­ers, keppi­nautur Hill­ary Clinton um útnefn­ingu Demókra­ta­flokks­ins sem for­seta­fram­bjóð­andi, tjáði sig líka um ráðn­ing­una á Bannon og segir að þjóðin ætti að vera „mjög áhyggju­full“ yfir henni. Banda­ríkin hafi barist við mis­rétti, ras­is­ma, karl­rembu og for­dóma gegn hinsegin fólki í hund­ruð ára, og mætti ekki við því að stíga skref til baka. „Við munum segja herra Bannon og öðrum ráð­gjöfum að við munum ekki snú­ast gegn hverju öðru. Við munum standa sam­an­.“ 

Einn hópur fagnar ráðn­ing­unni

Og þessir hvítu þjóð­ern­is­sinnar og kyn­þátta­hyggju­hópar fagna ráðn­ingu hans. Fyrr­ver­andi leið­togi Ku Klux Klan, David Duke, segir að honum þyki ráðn­ingin fram­úr­skar­andi góð. „Það er gott að sjá að hann (Trump) heldur sig við mál­efnin og hug­mynd­irnar sem hann setti fram sem fram­bjóð­andi. Nú er hann verð­andi for­seti og hann heldur sig við þetta og ítrekar þessi mál­efn­i.“ 

Peter Brim­elow, sem stjórnar kyn­þátta­hyggju­síðu sem heitir VDARE og ein­beitir sér aðal­lega að mik­illi harð­línu­stefnu gagn­vart inn­flytj­end­um, fagn­aði líka ráðn­ing­unni við CNN og sagði hana gefa Trump teng­ingu við svo­kall­aða alt-hægri hreyf­ingu á net­inu. „Mér finnst þetta frá­bært. Get­urðu ímyndað þér Mitt Rom­ney gera þetta? Það er næstum eins og Trump sé annt um hug­mynd­ir.“ Enn annar stjórn­andi kyn­þátta­hyggju­síðu, Brad Griffin, seg­ist telja að Bannon muni halda Trump við efnið þegar kemur að lof­orðum eins og því að byggja vegg á landa­mær­unum við Mexíkó, vísa inn­flytj­endum burt úr land­inu og hætta að taka á móti flótta­mönn­um. 

Leið­togi banda­ríska nas­ista­flokks­ins, Rocky J. Suhayda, finnst ráðn­ingin til marks um alvöru Don­alds Trump, en hann hafi átt von á að hann myndi ekki velja Bannon vegna mót­mæla ann­arra. „Kannski verður hann þá ekki önnur strengja­brúða...og ætlar í alvöru að rugga bátn­um. Tím­inn mun leiða það í ljós.“ 

Annað fólk innan úr kosn­ingateymi Trumps hefur líka komið honum til varn­ar. Kellyanne Conway, einn helsti ráð­gjafi Trump, sagði til að mynda við New York Times að fólk ætti að skoða alla fer­il­skrána hjá Bann­on. Hann væri með gráðu frá Harvard, hefði verið í sjó­hernum og náð árangri í skemmt­ana­brans­an­um. Hún neit­aði því að hann hefði nokkra teng­ingu við öfga­fulla hægri þjóð­ern­is­sinna. Bannon sjálfur hefur sagt að það séu vissu­lega snertifletir með þessum hópum væru gagn­rýnendur hans að „mála með of breiðum bursta.“ Þetta fólk væru föð­ur­lands­vinir sem elska landið sitt. 

Stephen Breitbart.

En hvernig er Breit­bart?

Áður en Bannon fór yfir í kosn­ingateymi Trumps var mjög ljóst að hann, og Breit­bart News undir hans stjórn, styddu Trump. Í mars síð­ast­liðnum komst fjöl­mið­ill­inn í frétt­irnar í tengslum við Trump, eftir að blaða­maður þar, Michelle Fields, sak­aði þáver­andi kosn­inga­stjóra Trump um að hafa gripið í sig og ýtt sér í burtu frá Trump. Hún hætti í kjöl­far þess að fjöl­mið­ill­inn tók ekki undir hennar mál­stað, heldur birti fréttir um að hún hefði mis­skilið hlut­ina eitt­hvað. Einn rit­stjór­anna á Breit­bart, Ben Shap­iro, og þónokkrir blaða­menn til við­bót­ar, hættu einnig. Shap­iro sagði í sinni yfir­lýs­ingu að Steve Bannon væri fant­ur, tuddi, sem hefði svikið hug­sjón­ina sem fjöl­mið­ill­inn hefði verið stofn­aður utan um til þess að styðja annan fant, Don­ald Trump. Bannon hefði gert fyr­ir­tækið að eins­konar per­sónu­legri Prövdu fyrir Trump, í svo miklum mæli að hann styddi ekki einu sinni sinn eigin frétta­mann gegn enn öðrum fanti, kosn­inga­stjór­anum þáver­andi Corey Lewandowski. Þá var greint frá því að allar fréttir um Trump þyrftu að fara í gegnum Bannon sjálfan áður en þær birt­ust. 

Eftir að Bannon var ráð­inn í Hvíta húsið tjáði Shap­iro sig enn frekar um málið. Þá sagði hann sjálfur að Bannon hefði tekið ras­istum opnum örm­um, auk þess sem hann væri hefni­gjarn og ógeð­felldur maður sem væri þekktur fyrir að atyrða bæði vini sína og hóta óvin­um. Hann væri klár­ari útgáfa af Trump. 

Um leið og Breit­bart studdi Trump, gagn­rýndi mið­ill­inn um leið fjöl­marga hefð­bundn­ari Repúblik­ana. Steve Bannon tók við stjórn­ar­taumunum þar árið 2012 eftir að stofn­and­inn og vinur hans Andrew Breit­bart lést. Flestir eru þeirrar skoð­unar að Bannon hafi togað mið­il­inn enn lengra til hægri en áður var, og jafn­vel íhalds­menn sem áður höfðu tengsl við Breit­bart hafa afneitað miðl­inum sem hat­ursá­róðri, sem ýti undir mis­rétti og for­dóma. New York Times hefur tekið saman nokkrar af umdeild­ustu frétt­unum sem mið­ill­inn hefur birt undir stjórn Bann­on. 

Breitbart birti þessa frétt í lok síðasta árs. Meðal frétta á vefnum er þessi hér til vinstri, um að getn­að­ar­varnir geri konur óaðl­að­andi og klikk­að­ar. Þá eru þar greinar um að Huma Abed­in, einn helsti ráð­gjafi Hill­ary Clint­on, sé að öllum lík­indum njósn­ari frá Sádi-­Ar­abíu með mikil tengsl við alþjóð­lega hryðju­verka­starf­semi. Þá er talað með mjög niðr­andi hætti um trans­fólk, sam­kyn­hneigða og kon­ur. 

Konur ættu bara að hætta á internetinu til að losna við áreiti, að mati Breitbart.Meðal þess sem sagt er um konur er að það halli í raun ekk­ert á konur í ráðn­ingum í tækni­geir­an­um. Þær séu bara mjög lélegar í við­töl­u­m. 

Þá er sagt að lausnin við áreiti á net­inu sé ein­föld, konur eigi ein­fald­lega að hætta á net­in­u. 

Einnig er talað með niðr­andi hætti um gyð­inga, og Bannon sjálfur hefur skrifað um kæru gegn yfir­manni Fox News sem plott til að auka líkur Hill­ary Clinton á að verða for­seti. Roger Ailes, yfir­maður á Fox, var kærður fyrir kyn­ferð­is­lega áreitni, en Bannon sagði þetta ekki bara ætlað til að auka líkur Hill­ary heldur líka til að gefa sam­tökum eins og Black Lives Matter „og öllum hinum klikk­haus­un­um“ meira væg­i. 

Mót­mæl­unum vegna þess­arar ráðn­ingar virð­ist ekki vera að linna, og þegar er fjöld­inn allur af und­ir­skrifta­söfn­unum kom­inn af stað til að krefj­ast þess að Trump standi ekki við ráðn­ing­una og hleypi Bannon í þessa ábyrgð­ar­stöð­u. 







Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórunn Elísabet Bogadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar