Mynd: Pexels.com

Vogunarsjóðir mokgræða á nýju tilboði Seðlabankans

Það margborgaði sig fyrir vogunarsjóðina og hina fjárfestana sem áttu aflandskrónur að hafna því að taka þátt í útboði Seðlabanka Íslands í fyrra. Þeir fá nú 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar.

Þeir vog­un­ar­sjóðir sem neit­uðu að taka þátt í aflandskrón­u­út­boði Seðla­banka Íslands í fyrra hafa hagn­ast mjög á ákvörðun sinni. Í því útboði bauðst þeim að borga 190 krónur fyrir hverja evru en sam­kvæmt nýju sam­komu­lagi sem Seðla­banki Íslands hefur gert við eig­endur krónu­eign­anna þurfa þeir ein­ungis að greiða 137,5 krónur á hverja evru. Ávinn­ingur þeirra, í evrum talið, er um 38 pró­sent. Þ.e. þeir fá um 38 pró­sent fleiri evrur fyrir krón­urnar sínar en þeir hefðu fengið ef sjóð­irnir hefðu tekið til­boði Seðla­banka Íslands í fyrra­sum­ar.

Raunar hefur krónan styrkst svo mikið síðan þá að skráð gengi Seðla­banka Íslands á þeim tíma sem útboðið fór fram, sem var 16. júní 2016, var 138,6 krónur gagn­vart evru. Það þýðir að vog­un­ar­sjóð­irnir sem eiga þessar krónu­eignir fá nú fleiri evrur fyrir krón­urnar sínar en ef þeir hefðu fengið að skipta þeim í banka síð­ast­liðið sum­ar.

Þrátt fyrir þetta hafa ekki allir erlendir eig­endur krónu­eigna sam­þykkt að fara út úr íslensku hag­kerfi á þeim kjörum sem Seðla­banki Íslands býð­ur. Alls hafa eig­endur 90 millj­arða króna sam­þykkt til­boð Seðla­banka Íslands en eig­endur 105 millj­arða króna hafa ekki tekið því til­boði. Að minnsta kosti ekki ennþá. Þar gæti spilað inn í vænt­ingar um að íslenska krónan muni styrkj­ast enn meira eftir að höftum verður lyft að fullu. Þeir gætu því tekið út enn meiri geng­is­hagnað en þeim býðst nú ef svo fer og leið opn­ast fyrir þá út úr íslensku efna­hags­kerfi.

Hót­unin reynd­ist inni­halds­lítil

Íslensk stjórn­völd voru dig­ur­barka­leg þegar þau til­kynntu um stór skref í átt að losun hafta snemma síð­asta sum­ar. Þá var boðað að í aðdrag­anda skrefa sem átti að stíga til að losa um höft á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki myndu aflandskrónu­eig­end­um, að mestu banda­rískir vog­un­ar­sjóð­ir, bjóð­ast afar­kost­ir. Þeir yrðu þannig að annað hvort myndu þeir sætta sig við það gengi sem Seðla­banki Íslands bauð þeim fyrir krón­urnar þeirra eða að eignir þeirra yrðu settar inn á nær vaxta­lausa reikn­inga í refs­ing­ar­skyni og þeim færu aft­ast í röð­ina þegar kæmi að því að fá að yfir­gefa íslenskt efna­hags­kerfi eftir losun hafta. Stærstir á meðal þess­ara sjóða eru banda­rísku sjóð­irnir Eaton Vance Corp. og Autonomy Capi­tal LP.

Flestir aflandskrónu­eig­end­urnir sáu í gegnum þessar hót­anir og neit­uðu að taka þátt. Heild­ar­um­fang vand­ans á þeim tíma þegar útboð­in, þau voru tvö, fóru fram var 319 millj­arðar króna. Fjár­­hæð sam­­þykktra til­­­boða í báðum útboð­unum var 83 millj­­arðar króna sem þýddi að þorri eig­enda krón­anna fannst til­boðið ekki ásætt­an­legt.

Þess í stað fólu sjóð­irnir lög­manni sínum að kanna grund­­völl fyrir mög­u­­legri máls­höfðun á hendur íslenska rík­­inu auk þess sem þeir kvört­uðu til Eft­ir­lits­­stofn­unar EFTA (ESA) vegna laga­­setn­ingar sem sam­­þykkt voru aðfara­nótt 23. maí 2016 og þeir töldu að fæli í sér eign­­ar­­upp­­­töku og brot á jafn­­ræð­is­­reglu.

Keyptu aug­lýs­ingar gegn íslenskum stjórn­völdum

Þeir gerðu raunar ýmis­legt annað líka. Eða rétt­ara sagt keyptar hug­veitur á þeirra veg­um. Á síð­asta ári, og sér­stak­lega í aðdrag­anda kosn­inga, fóru aug­lýs­ing­­arnar að birt­ast um afstöðu íslenskra stjórn­valda gagn­vart erlendum fjár­fest­um. Aug­lýs­ing­arnar voru frá fyr­ir­bæri sem kallar sig Iceland Watch, og er rekið af hug­veit­unni Institute for Liberty.

Iceland­Watch.org verk­efnið vakti fyrst athygli hér­­­­­lendis þegar það keypti birt­ingar á Twitter til að koma boð­­­skap sínum á fram­­­færi. Aug­­­ljóst var að til­­­­­gang­­­ur­inn var að gæta hags­muna erlendra kröf­u­hafa sem neit­uðu að taka þátt í aflandskrón­u­­­upp­­­­­boði Seðla­­­banka Íslands.

 Ein þeirra auglýsinga sem birtar voru í fyrrahaust.

Þann 14. októ­ber 2016 birt­ust síðan heil­­síð­u­aug­lýs­ingar í bæði Frétta­­blað­inu og Morg­un­­blað­inu frá Iceland Watch. Aug­lýs­ing­­arnar birt­ust einnig á  á dönsku í dönskum fjöl­miðlum, m.a. við­­­skipta­­­blað­inu Bör­sen, og á ensku í banda­rískum fjöl­mið­l­­­um.

Í aug­lýs­ing­unni voru Íslend­ingar varaðir við því að mis­­muna alþjóða­fjár­­­fest­­um. Þar sagð­i:„Við höfum séð þetta áður­. Þegar kæru­­­laus stjórn­­­völd fyr­ir­­­gera rétt­­­ar­­­rík­­­inu hverfur erlend fjár­­­­­fest­ing og lands­­­menn gjalda fyrir það. Á Íslandi mis­­­muna ný lög alþjóð­­­legum fjár­­­­­festum og neyða þá til að selja skulda­bréf sem ­tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikn­inga sem ber­a enga vext­i. ­Tölum skýrt: Sví­virð­i­­­leg ný lög lands­ins mis­­­muna fjár­­­­­festum eftir þjóð­erni þeirra. Frekar en að halda áfram við­ræðum við alþjóð­­­lega fjár­­­­­festa sem reynt hafa að ná ­samn­ingum í góðri trú hefur Ísland stillt þeim upp við vegg.“

Dag­anna fyrir kosn­ing­arnar í lok októ­ber 2016 birti Iceland Watch svo nýja aug­lýs­ingu í Morg­un­­blað­inu. Nú var hún með mynd af Má Guð­­munds­­syni seðla­­banka­­stjóra og spurt hver „greiði fyrir spill­ingu og mis­mun­un­ar­reglur á Íslandi“ og sagt að les­endur gerðu það. Þar var einnig spurt hvort Sturla Páls­­son, fram­­kvæmda­­stjóri hjá Seðla­­bank­an­um, hafi „notað þekk­ingu sína á nýlega til­­kynntri lög­­­gjöf um gjald­eyr­is­höft sem mis­­munar erlendum fjár­­­festum um að stunda inn­herj­a­við­skipti“.

Í aug­lýs­ing­unni var því haldið fram að mis­mun­un­ar­stefna íslenskra íslensku gjald­eyr­is­haft­anna hafi kostað hvern Íslend­ing á bil­inu 1,7 til 3,1 milljón króna. Þetta hafi komið fram í „nýrri rann­­sókn“ sem er þó ekki til­­­tekið hver hafi fram­­kvæmt eða hvern­ig.

Iceland Watch reyndi einnig að fá aug­lýs­ing­una birta í Frétta­­blað­inu en blaðið neit­aði að gera það.

Ráð­herra­­nefnd um efna­hags­­mál fund­aði sér­stak­lega um málið nokkrum dögum áður en að kosn­ing­arnar fóru fram. Már Guð­­munds­­son seðla­­banka­­stjóri sat líka þá fundi. Í yfir­­lýs­ingu sem ráð­herra­­nefnd­in sendi frá sér 28. októ­ber 2016, dag­inn fyrir þing­kosn­ing­ar, var þeim rang­­færslum sem birt­ust í aug­lýs­ing­unum mót­­mælt. „Ljóst er að erlendir aðil­­ar, sem telja sig hafa hags­muni af því að ráð­­stöf­unum um með­­­ferð aflandskróna verði breytt, standa að baki þessum aug­lýs­ing­um, þar sem einnig er vegið með ósmekk­­legum hætti að starfs­heiðri til­­­tek­inna starfs­­manna Seðla­­banka Íslands. Ein­stakir stærri aflandskrón­u­eig­endur hafa að und­ir­­förnu freistað þess að hafa áhrif á alþjóð­­legar stofn­an­ir, láns­hæf­is­­mats­­fyr­ir­tæki og almenna fjöl­miðlaum­­fjöllun en orðið lítið ágeng­t.“

Það þarf neyð til að beita neyð­ar­rétti

En aflandskrónu­eig­end­unum varð þrátt fyrir allt ágengt. Fyrir skemmstu var greint frá því að full­trúar íslenskra stjórn­valda hefðu fundað með full­trúum sjóð­anna í New York til að reyna að höggva á hnút­inn. Bara það að íslensk stjórn­völd, sem höfðu ítrekað sagt að ekki yrði kvikað frá þeirri hörðu línu sem lögð hafði verið gagn­art vog­un­ar­sjóð­un­um, vildu hitta þá til að ræða lausnir var sigur í sjálfu sér.

Ríkisstjórnin sem tók við 2013 skilgreindi sig að mörgu leyti út frá þeirri hörku sem hún taldi sig hafa sýnt vögunarsjóðum. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leiddu þá ríkisstjórn.
Mynd: Birgir Þór

Batn­andi efna­hags­að­stæður hér­lend­is, og mikil styrk­ing krón­unn­ar, hefur gert það að verkum að erf­ið­ara og erf­ið­ara hefur verið að rétt­læta  sér­tækar laga­setn­ingar gagn­vart einum hópi. Heim­ildir Kjarn­ans herma að fleiri og fleiri innan stjórn­sýsl­unnar séu komnir á þá skoðun að slíkar hömlur gætu mögu­lega ekki stað­ist lög, en laga­setn­ing sem Alþingi setti í aðdrag­anda aflandskrón­u­út­boð­anna í fyrra var rök­studd með því að aðgerð­­­irnar þættu nauð­­­syn­­­legar til að stuðla að greiðslu­­­jafn­­­vægi í íslenska efna­hags­­­kerf­inu og verja stöð­ug­­­leika lands­ins.

Það þarf að vera neyð ef setja á neyð­ar­lög. Og land sem var með 7,2 pró­sent hag­vöxt í fyrra, sem hefur upp­lifað stans­lausan háan vöxt árum sam­an, sem er búið að semja við kröfu­hafa bank­anna um að gefa eftir hluta inn­lendra eigna þeirra gegn því að fá aðganga að öðrum eign­um, sem er komið með gott láns­hæf­is­mat og mjög við­ráð­an­lega rík­is­skulda­stöðu, og upp­lifir tug­pró­senta styrk­ingu á gjald­miðli sínum á mjög skömmu tíma­bili, getur illa borið fyrir sig neyð til að rök­styðja sér­tækar aðgerð­ir. Þessa stöðu lásu vog­un­ar­sjóð­irnir og munu nú njóta árangur þol­in­mæði sinn­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None