Mynd: Pexels.com

17 milljarða skattafsláttur á kostnað framtíðarkynslóða

Hluti landsmanna hefur fengið rúmlega 17 milljarða króna í skattaafslátt fyrir að nota séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar. Tekjuhærri eru mun líklegri til að nýta sér úrræðið en tekjulægri hópar. Skatttekjurnar sem ríkissjóður er að gefa eftir eru teknar að láni úr framtíðinni, þar sem séreign er skattlögð við útgreiðslu.

Frá árinu 2014 og út síð­asta ár hefur lækkun tekju­skatts og útsvars hjá þeim ein­stak­lingum sem hafa notað sér­eign­ar­sparnað sinn til að greiða niður hús­næð­is­skuldir skatt­frjálst verið 17,3 millj­arðar króna. 

Um er að ræða að minnsta kosti tæp­lega 59 þús­und ein­stak­linga, auk þeirra sem hófu að nýta sér úrræðið í fyrra. Um mitt síð­asta ár voru 209 þús­und ein­stak­lingar skráðir starf­andi á íslenskum vinnu­mark­aði. Því má ætla að undir 30 pró­sent starf­andi lands­manna nýti sér sér­eign­ar­sparn­að­ar­úr­ræð­ið. 

Tekju­hærri lands­menn eru mun lík­legri til að spara í sér­eign­ar­sparnað en þeir sem hafa lægri tekj­ur. Í skýrslu sér­fræð­inga­hóps um höf­uð­stólslækk­anir hús­næð­is­lána, sem skil­aði skýrslu til for­sæt­is­ráðu­neytis Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar síðla árs 2013, kom fram að með­­al­­launa­­tekjur fjöl­­skyldna sem spör­uðu í sér­­­eign og skuld­uðu í fast­­eign væri miklu hærri en með­­al­­launa­­tekjur þeirra sem spara ekki. „Al­­mennt eru tekjur þeirra sem spara í sér­­­eigna­líf­eyr­is­­sparn­aði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ stóð orð­rétt í skýrsl­unni.

73,5 millj­arðar inn á lán

Kjarn­inn hefur und­an­farna daga greint frá því að alls hafi nokkrir tugir þús­und Íslend­inga nýtt sér það að greiða sér­eign­ar­sparnað sinn inn á hús­næð­is­lán sín frá því að slíkt úrræði var kynnt til leiks um mitt ár 2014. Alls hefur þessi hópur greitt 73,5 millj­arða króna inn á hús­næð­is­lán sín, þegar með er tal­inn þeir sem nýttu sér seinna úrræði, kallað Fyrsta fast­eign, sem kynnt var í ágúst 2016. 

Inni í þess­ari tölu er ráð­stöfun á eigin sparn­aði upp á 47,6 millj­arða króna. Til við­bótar virkar sér­eign­ar­sparn­aður þannig að vinnu­veit­andi greiðir mót­fram­lag. Þar er um að ræða launa­hækkun sem er lög­fest og stendur ein­ungis þeim til boða sem velja að safna í sér­eign með þessum hætti. Sam­tals hafa vinnu­veit­endur greitt niður 26 millj­arða króna af hús­næð­is­lánum þessa rúma fjórð­ungs þjóð­ar­innar á und­an­förnum árum. 

Ofan á allt saman er þessi ráð­stöfun skatt­frjáls. Ríkið og sveit­ar­fé­lög gefa eftir tekjur til þeirra sem kjósa að nota sér­eign­ar­sparnað til að borga niður hús­næð­is­lán. Á árunum 2014 til 2018 nam lækkun tekju­skatts vegna þessa 8,6 millj­örðum króna og útsvar lækk­aði um 5,3 millj­arða króna. Áætlun fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins gerir ráð fyrir því að lækkun tekju­skatts hafi numið 2,1 millj­arði króna í fyrra og lækkun útsvars 1,3 millj­arða króna. 

Sam­tals gera þetta 17,3 millj­arða króna. 

Afsláttur á kostnað fram­tíð­ar­kyn­slóða

Þessi skatta­af­sláttur hefur hins vegar lítið sem engin áhrif á ráð­stöf­un­ar­tekjur rík­is­sjóðs í dag eða á næstu árum vegna þess að sér­eign­ar­sparn­aður er skatt­lagður við útgreiðslu. Þ.e. þegar fólk fer á eft­ir­laun. 

Þorri þeirra sem eru að nýta sér úrræðið í dag eiga tölu­vert langt í það. Því er verið að veita skatta­af­slátt á kostnað fram­tíð­ar­kyn­slóða. Þetta er raunar stað­fest í grein­ar­gerð frum­varps­ins sem lög­festi úrræðið þar sem sagði að „fram­leng­ingin hefur lítil áhrif á afkomu ríkis og sveit­ar­fé­laga á tíma­bili nýfram­lagðrar fjár­mála­á­ætl­unar sem nær til árs­ins 2024.“

Í svari fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um nýt­ingu sér­eign­ar­sparn­að­ar­úr­ræð­is­ins er þetta enn fremur stað­fest. 

Þar segir að mik­il­vægt sé að ger­a ­grein­ar­mun milli þeirrar fjár­hæðar sem ein­stak­lingar lækka tekju­skatt sinn um í gegnum úrræðið og svo þess sem telja má eig­in­legt tekju­tap ríkis og sveit­ar­fé­laga yfir tíma­bilið vegna úrræð­is­ins. „Stór hluti þeirra sem nýta sér og hafa nýtt sér úrræðið eru ein­stak­lingar sem þegar voru að leggja fyrir í sér­eign­ar­sparnað og voru þá þegar að lækka tekju­skatts­stofn sinn. Skattur af þeim sér­eign­ar­sparn­aði greið­ist svo loks við elli­líf­eyr­i­s­töku. Eig­in­legt tekju­tap hins opin­bera á sér þá stað í fram­tíð­inni á þeim tíma­punkti þegar krón­urn­ar, sem hafa verið nýttar skatt­frjál­st, hefðu verið skatt­lagð­ar. Það fram­tíð­ar­-­tekju­tap er lægri tala en lækkun tekju­skatts þessa hóps er í dag, þar sem  fólk er að jafn­aði með lægri tekjur á elli­líf­eyr­is­aldri heldur en á vinnu­aldri og þar með lægri skatt­pró­sentu jafn­framt. Hér er þess vegna ein­göngu reynt að svara hver sé lækkun tekju­skatts og útsvars hjá öllum þeim sem hafa nýtt sér hús­næðisúr­ræðin sem um ræð­ir.“

Átti að vera 70 millj­arðar á þremur árum

Kjarn­inn greindi frá því í gær að alls hefð­u 58.738 ein­stak­lingar nýtt sér sér­eigna­sparnað sinn til að greiða inn á lán eða í útborgun fyrir íbúð í lok árs 2018. Í þeirri tölu er ­sam­skatt­að­ir taldir sem tveir aðilar jafn­vel þótt að ein­ungis annar þeirra hafi greitt inn á höf­uð­stól hús­næð­is­láns þeirra. Um er að ræða bæði þá sem nýttu sér­eigna­sparnað sinn til hús­næð­is­kaupa og -lána­nið­ur­greiðslu sam­kvæmt úrræði þess efnis sem kynnt var undir hatti Leið­rétt­ing­ar­innar vorið 2014 og þá sem nýttu sér Fyrstu fast­eignar úrræð­ið, sem var kynnt í ágúst 2016. 

Leiðréttingin var eitt stærsta mál ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem sat frá 2013 og fram á árið 2016.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar úrræðið um að nota sér­eign­ar­sparnað sinn skatt­frjálst til að greiða niður hús­næð­is­lán var kynnt var það gert þannig að sá hópur sem áætlað var að nýtti sér það myndi geta notað alls 70 millj­arða króna til þeirra verka á tíma­bil­inu. Það byggði á skýrslu sér­fræð­inga­hóps sem skil­aði af sér skýrslu til for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins í nóv­em­ber 2013. Á meðal þeirra sem sátu í sér­fræði­hópnum voru Sig­urður Hann­es­son, nú fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðn­að­ar­ins, sem var for­maður hans og Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, nú mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra.

Þegar frum­varp var loks lagt fram, til að lög­binda úrræð­ið, sagði í grein­ar­gerð þess að áður­nefnt mat sér­fræð­inga­hóps­ins hefði verið „nokk­urri óvissu háð“. Ekk­ert talna­legt mat lægi fyrir á úrræð­inu.

Því skip­aði Bjarni Bene­dikts­son, þáver­andi og núver­andi fjár­mála- og efna­hags­hags­ráð­herra, nýjan starfs­hóp til að reikna áhrif úrræð­is­ins. Sá hópur skil­aði af sér þremur sviðs­myndum sem sýndu að fram á mitt ár 2017 myndu 56.066 til 81.597 ein­stak­lingar nýta sér sér­eigna­sparnað til að greiða niður hús­næð­is­lán eða til í útgreiðslu útborg­un­ar. Heild­ar­upp­hæðin sem þessi hópur átti að geta greitt inn á hús­næð­is­skuldir sínar átti að vera 60 til 82 millj­arðar króna. 

Um síð­ast­lið­inn ára­mót, tveimur og hálfu ári eftir að upp­haf­legur tímara­mmi úrræð­is­ins var lið­inn, þá var fjöldi þeirra sem höfðu nýtt sér úrræðið rétt yfir lægstu mörkum þess sem búist var við. Upp­hæðin sem nýtt hefur verið í sér­eign­ar­sparn­að­ar­úr­ræðið eitt og sér var um 68 millj­arðar króna, og hafði ekki náð þeirri 70 millj­arða króna upp­hæð sem kynnt var í Hörpu í mars 2014, þegar Leið­rétt­ingin var form­lega opin­beruð. Ofan á hana bæt­ist svo sú upp­hæð sem nýtt hefur verið í gegnum Fyrstu fast­eign, en sam­an­lagt nema heild­ar­um­svif beggja úrræða 74,5 millj­örðum króna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar