Bankasýsla ríkisins verður lögð niður og eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum færðir undir fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann á að setja sérstaka eigandastefnu ríkisins sem tekur til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd, án tilnefninga, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra eignarhluta. Þetta kemur fram í frumvarpi til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem útbýtt á vef þingsins miðdegis í dag.
Ríkið ætlar að selja 30 prósent í Landsbanka á næstu tveimur árum
Íslenska ríkið er umsvifamikill eigandi í bönkum landsins. Eftir bankahrunið voru eignir og skuldir föllnu bankanna færðar yfir í þá nýju með handafli ríkisins, þótt ríkið sjálft hafi aldrei átt þær eignir. Til viðbótar lagði ríkið til eiginfjárframlag í nýju bankana sem tryggði því á endanum 98 prósent hlut í Landsbankanum, 13 prósent hlut í Arion banka og fimm prósent hlut í Íslandsbanka.
Í ríkisfjármálaáætlun fram til ársins 2019, sem var einnig birt í dag, er gert ráð fyrir að ríkið selji 30 prósent af hlut í Landsbankanum á árunum 2015 og 2016. Söluandvirðið á að nota til að borga upp skuldabréf sem gefin voru út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008, og námu í lok síðasta árs 213 milljörðum króna. Þetta á að lækka vaxtakostnað ríkisins um 3-4 milljarða króna á ári næstu árin.
Auk þess á íslenska ríkið hluti í nokkrum sparisjóðum.
Einkavæðing banka, taka tvö
Síðasta ríkisstjórn setti á fót sérstaka ríkisstofnun, Bankasýslu ríkisins, til að halda á hlutum í fjármálafyrirtækjum. Í nýja frumvarpinu er lagt til að sú stofnun verði lögð niður og vald hennar fært beint undir fjármála- og efnahagsráðherra.
Tilgangurinn er augljóslega sá að hefja undirbúning að sölu og sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Nýtt einkavæðingarferli er i bígerð. Síðast þegar ríkið réðst í slíka einkavæðingaraðgerð, á árunum 2002 og 2003, gekk það ekki betur en svo að bankarnir sem það seldi uxu á örfáum árum upp í að verða margfalt stærri en þjóðarframleiðsla Íslendinga og hrundu svo eins og spilaborg haustið 2008. Sú einkavæðing hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir spillingu, ógegnsæi og ófaglegheit, enda reynsla þeirra sem fengu að kaupa bankana af fjármálastarfsemi lítil sem engin.
Ráðherra tekur einn ákvörðun um sölu
Samkvæmt nýja frumvarpinu hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, heimild til að selja eignarhluti ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka, sparisjóðum og 30 prósent hlut í Landsbankanum. Hann getur að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafanefndar sem hann einn skipar, hafið nýtt bankaeinkavæðingarferli. Þegar slíkt ákvörðun liggur fyrir skal lögð áhersla á „opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Við sölu skal kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“.
Ríkiskaup eiga að annast sölumeðferðina og skila ráðherranum rökstuddu mati á því hvaða tilboð sé best. Ráðherra tekur hins vegar einn ákvörðun um hvort að taka eigi tilboði í viðkomandi eignarhlut í banka eða ekki.
Lögin, verði þau samþykkt, taka gildi í byrjun næsta árs.