Þeir fjárfestar sem skráðu sig fyrir hlut í Símanum í hlutafjárútboði sem lauk í dag þurfa flestir að greiða 3,4 krónur fyrir hvern hlut sem þeir kaupa í félaginu. Alls var 16 prósent hlutur seldur á því gengi en fimm prósent voru seld til minni fjárfesta á 3,1 krónur á hlut.
Mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í Símanum. Alls nam söluandvirði þess 21 prósent hlutar sem seldur var um 6,7 milljörðum króna. Heildareftirspurn var hins vegar 33 milljarðar króna. Því var eftirspurnin fimm sinnum meiri en framboðið. Verðið er hærra en flestir greiningaraðilar töldu að það yrði.
Í aðdraganda þess að hlutafjárútboðið fór fram ákvað Arion banki, sem varð stærsti eigandi Símans í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar hans sem lauk árið 2013, að selja tíu prósent hlut til valdra aðila. Fyrst ákvað bankinn að selja hópi stjórnenda Símans, og fjárfestahópi sem forstjóri félagsins hafði sett saman, fimm prósent hlut á genginu 2,5 krónur á hlut. Þessi viðskipti áttu sér stað í lok ágústmánaðar, rúmum mánuði áður en hlutafjárútboð Símans fór fram. Miðað við það gengi sem var á þorra þess hlutafjár sem Arion banki seldi í útboðinu, 3,4 krónur á hlut, hefur þessi hópur þegar ávaxtað fjárfestingu sína um 36 prósent á rúmum mánuði. Það þýðir að hlutur sem var keyptur á 100 milljónir króna er nú orðin 136 milljóna króna virði. Þó er vert að taka fram að hópurinn skuldbatt sig til að selja ekki hlutinn strax.
Síðari hluta september var síðan greint frá því að valdir viðskiptavinir Arion banka hefðu fengið að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Þessi viðskipti áttu sér stað nokkrum dögum áður en hlutafjárútboð Símans hófst. Ekki hefur verið upplýst um hverjir það voru sem fengu að kaupa á þessum afsláttarkjörum. Hlutur þeirra hefur hins vegar ávaxtast um 21,5 prósent á þessum fáu dögum sem liðnir eru frá því að þeir keyptu hann. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016.
Fyrstir inn á lágu verði
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þær sölur sem áttu sér stað í aðdraganda skráningarinnar á undanförnum vikum. Í fréttaskýringu hans sem birtist 25. ágúst var aðdragandi kaupa stjórnendahópsins og meðfjárfesta þeirra rakin.
Í ágúst var greint frá því að félagið L1088 ehf. hafi fengið að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,5 krónur á hlut. Sá hópur var settur saman af Orra Haukssyni, forstjóra Símans, og hann átti frumkvæði að því að leita til Arion banka til að koma viðskiptunum á. Að hópnum standa nokkrir erlendir fjárfestar með reynslu úr fjarskiptageiranum og Orri. Forstjórinn á alls 0,4 prósent hlut í Símanum sem hann fékk að kaupa á genginu 2,5 krónur á hlut. Orri greiddi rúmlega 100 milljónir króna fyrir hlutinn.
Aðrir í yfirstjórn Símans fengu líka að kaupa hluti í eigin nafni. Eign þeirra er þó öllu minni, en stjórnendurnir keypta alls fyrir um 1,8 milljón króna í eigin nafni. Forstjórinn Orri nýtti sér þennan rétt einnig. Þessum kaupum fylgja ákveðnar söluhömlur. L1088 ehf, félag Orra og fjárfestanna, má ekki selja fyrr en í janúar 2017 og yfirstjórnendurnir mega ekki selja fyrr en 1. mars 2016.
Hluti stjórnendanna sem fengu að kaupa hafa ekki starfað hjá Símanum lengi, og voru raunar ráðnir til starfa þar eftir að fjárhagslegri endurskipulagningu lauk. Orri var til að mynda ráðinn forstjóri í október 2013, eftir töluverða valdabaráttu í stjórn Símans, og Magnús Ragnarsson var ráðinn í sitt starf í apríl 2014. Áður hafði hann verið aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra.
Á hluthafafundi sem haldinn var hjá Símanum skömmu eftir að ákvörðunin um að selja ofangreindum hópi fimm prósent hlut var handsalað að öllum fastráðnum starfsmönnum myndi bjóðast að kaupa fyrir allt sex hundruð þúsund krónur á ári á genginu 2,5 krónur á hlut í þrjú ár. Þegar hafa 613 starfsmenn gert samninga um slík kaup fyrir samtals 1,1 milljarð króna. Nýtt hlutafé verður gefið út vegna kaupréttaráætlunar starfsmanna. Við það þynnist hlutur annarra hluthafa, sem að mestu eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Síðari hluta septembermánaðar, nokkrum dögum áður en fyrirhugað hlutafjárútboð fer fram, fengu nokkrir valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Ekki hefur verið gefið upp hverjir fjárfestarnir eru. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016.
Fimmföld eftirspurn
Margir viðmælendur Kjarnans innan viðskiptalífsins settu spurningar við þessa aðferðarfræði við sölu á tíu prósenta hlut í Símanum. Umframeftirspurn yrði nær örugglega eftir hlutum í félaginu í hlutafjárútboði og því þyrfti ekki að selja með afslætti til handvalinna aðila í aðdraganda þess.
Það varð líka raunin. Tæplega fimm þúsund fjárfestar óskuðu á endanum eftir því að eignast hlut í félaginu í hlutafjárútboðinu sem lauk í gær. Eftirspurnin var fimm sinnum meiri en framboðið og því þurfti að skerða áskriftir stórs hluta þeirra sem vildu eignast í félaginu.
Til sölu var fimm prósent hlutur á genginu 2,7 til 3,1 krónur á hlut og allt að 16 prósent hlutur á að minnsta kosti 2,7 krónur á hlut. Niðurstaðan varð sú að minni hluturinn fór á 3,1 krónur á hlut og 16 prósent hluturinn seldist fyrir 3,4 krónur á hlut. Miðað við meðalgengi útboðsins er markaðsvirði Símans 32 milljarðar króna.
Áætlað er að viðskipti með hluti í Símanum muni hefjast á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands á fimmtudaginn í næstu viku, þann 15. október. Áhugavert verður að sjá hvernig gengi bréfa hans þróast í viðskiptum fyrstu daganna eftir skráningu, sérstaklega í ljósi þeirrar miklu eftirspurnar eftir bréfum í Símanum sem birtist í nýafstöðnu hlutafjárútboði.