Sama dag og nýr fjármálaráðherra tók við stjórnartaumunum í Grikkland, Yanis Varoufakis úr Syriza flokknum, birtist eftir hann 60 síðna ritgerð í bókaformi inn á vefsíðu Amazon. Hún var þar öllum aðgengileg frá fyrsta degi hans við völd í fjármálaráðuneytinu. Bókin, sem nefnist Europe After the Minotaur - Greece and the Global Economy, er yfirlýstur leiðarvísir Varoufakis út úr þeim mikla vanda sem Grikkir eru í um þessar mundir. Að stofni til er þessi ritgerð stytt útgáfa af annarri bók hans um svipuð atriði, The Global Minotaur - America, Europe and the Future of Global Economy.
Raunhæf leið?
Í stuttu mál er lausnin á vanda Grikkja þessi: Varoufakis vill tengja endurgreiðslu á opinberum skuldum Grikkja beint við það hvernig efnahagur landsins gengur með hagvaxtartengdu skuldabréfi, og falla frá fyrra plani um endurgreiðslu skulda með stórfelldum niðurskurði opinberra starfa og eignasölu. Grikkir hafa unnið eftir því plani undanfarin tvö ár og hafa haft stuðning Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandsins við þær aðgerðir. Hagvaxtartölur í Grikklandi hafa verið örlítið að þokast upp á við, en atvinnuleysi hefur lítið minnkað. Það er nú 25,8 prósent, samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Meðaltalið í Evrópu er mun lægra, þó nokkuð hátt sé; 11,4 prósent.
Varoufakis nefnir í greiningu sinni að kröfuhafar landsins, vogunarsjóðir sem eiga kröfur á landið þar að stórum hluta, geti ekki endurheimt skuldir með óraunhæfri áætlun um gang efnahagsmála í Grikklandi. Með því að tengja endurgreiðslur við hagvöxt og endursemja um höfuðstól skulda gríska ríkisins, sé komið traustara land undir fótum almennings í Grikklandi sem hafi til þessa borið hitann og þungann af slæmri stöðu efnahagsmála í landinu, sem hann beri ekki ábyrgð á nema að litlum hluta. „Við getum ekki haldið áfram lengur. Nýtt upphaf er nauðsynlegt,“ segir Varoufakis. Hann segir að sú mynd sem máluð hafi verið upp af Grikkjum, á þá leið að þeir séu óráðsíumenn og eyðsluklær, sé ekki sanngjörn. Vandinn í efnahagsmálum heimsins sé sameiginlega á ábyrgð hins alþjóðavædda fjármálamarkaðar.
Þá rökstyður hann að leið mikils niðurskurðar í opinberum rekstri, hafi ekki gefið góða raun og grafið enn meira undan veikburða efnahag landsins.
A question of respect (or lack thereof)... http://t.co/USYdsC6zNJ
— Yanis Varoufakis (@yanisvaroufakis) January 29, 2015
1 til 1,5 prósent af landsframleiðslu
Með því að minnka endurgreiðslubyrði Grikklands til kröfuhafa landsins úr 4,5 prósent af árlegri landsframleiðslu niður í 1 til 1,5 prósent, þá á landið að geta endurráðið opinbera starfsmenn og hafið endurreisnina af meiri krafti „á forsendum Grikkja“.
Einn af þeim sem hefur hrósað Varouafakis fyrir þennan leiðarvísi út úr efnahagskröggum er Paul Krugman, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2008. Hann sagði í pistli á vef New York Times, að ef Þjóðverjar, sem hafa beitt sér af alefli fyrir því að Grikkir beygi sig undir kröfur Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandsins, geri kröfu um að Grikkir endurgreiði skuldir sínar að fullu, alveg sama þó hagtölurnar bendi til þess að það sé ekki að ganga upp, þá sé sú afstaða „brjálæði“.
Ekki svo einfalt
Allt hljómar þetta kannski einfalt, svona fljótt á litið, en svo er ekki. Seðlabanki Evrópu hefur þegar brugðist við nýrri stefnu stjórnvalda í Grikklandi með áhrifamiklum aðgerðum, sem vinna þvert gegn áformum nýrrar ríkisstjórnar Alexis Tsipras forsætisráðherra. Sú fyrsta var að tilkynna um að Seðlabankinn myndi ekki lána meira með veði í grískum ríkisskuldabréfum. Önnur aðgerðin var síðan að snúa alfarið frá því að aðstoða Grikki við að ná vopnum sínum með sérfræðiráðgjöf starfsmanna bankans. Skilaboðin frá Mario Draghi, forseta bankaráðs Seðlabanka Evrópu, og félögum er skýr; þið verðið að leysa úr þessari stöðu sjálf.
Æðstu ráðamenn Grikklands hafa fundað með helstu ráðamönnum Evrópusambandsins að undanförnu. Fundirnir hafa ekki skilað neinum árangri, og hafa sjónarmið nýrra valdhafa mætt andstöðu hjá Seðlabanka Evrópu.
Fundur Varoufakis með fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfang Schaeuble, frá því í gær, virtist vera svipuðu marki brenndur. Útaf þeim fundi kom Varoufakis með þau sjónarmið, að þeir félagar hefðu verið „sammála um að vera ósammála“. En það myndi engu breyta. „Við erum sjálfstætt ríki, við búum við lýðræði, við höfum gert samkomulag við þjóðina; við munum heiðra það samkomulag,“ sagði Varoufakis í þingræðu við mikið lófaklapp, eftir fundi með ráðamönnum í Evrópu. Þá gerði hann uppgang nasismans í Þýskalandi, á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar, að umtalsefni í viðtölum, og sagði hann vera áminningu til allrar Evrópu. „Ég held að af öllum þjóðum Evrópu skilji Þjóðverjar þessi skilaboð best,“ sagði hann í samtali við ARD í Þýskalandi. „Ef þú niðurlægir stolta þjóð of lengi... án ljóss við enda ganganna, þá mun þrýstingurinn rísa í þessu landi, á einhverjum tímapunkti.“
Hvaða gera kröfuhafarnir?
Stutt er liðið frá sögulegum kosningasigri Syriza og stefnubreytingu nýrra valdhafa, eða innan við mánuður. Á næstu mánuðum mun koma í ljós hvort nýju vopnin í efnahagsbaráttunni hjá nýrri ríkisstjórn Tsipras, Varoufakis og félaga mun reynast vel eða illa, og hvort kröfuhafar landsins sýni sveigjanleika þegar kemur að því að endursemja um skuldabyrgði þess. Eitt er þó augljóst og svo til óumdeilt, eins og mál standa nú. Sjálfstraustið skortir ekki hjá leiðtogum nýrrar ríkisstjórnar, í þessari vöggu lýðræðissögunnar í heiminum.