Mynd: Bára Huld Beck Sólveig Anna Jónsdóttir
Mynd: Bára Huld Beck

Sólveig Anna býður sig aftur fram til formanns Eflingar – Ætla að „umbylta félaginu“

Baráttulistinn, með Sólveigu Önnu Jónsdóttur í broddi fylkingar, mun sækjast eftir því að stýra Eflingu. Hópurinn vill stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar, taka upp sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum og standa alfarið gegn innleiðingu á SALEK. Hljóti hann brautargengi mun Efling gera ríkar kröfur á stjórnvöld um kerfisbreytingar við komandi kjarasamningagerð.

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, sem sagði af sér for­mennsku í Efl­ingu í fyrra­haust, mun bjóða sig fram til for­manns að nýju í stjórn­ar­kjöri í stétt­ar­fé­lag­inu sem hefst 9. febr­úar næst­kom­andi og mun standa yfir til klukkan 20 þann 15. febr­ú­ar. 

Hún mun leiða hóp Efl­ing­ar­fé­laga sem bjóða fram svo­kall­aðan B-lista, sem kall­aður er Bar­áttu­list­inn. Hóp­ur­inn seg­ist eiga „það sam­eig­in­legt að vilja umbylta félag­inu okk­ar.“ Aðrir á list­anum eru Dan­íel Örn Arn­ars­son, Inn­ocentia F. Frið­geirs­son, Ísak Jóns­son, Kol­brún Valv­es­dótt­ir, Mich­ael Bragi Whal­ley, Olga Leons­dóttir og Sæþór Benja­mín Randals­son. Allir sem sitja á list­anum hafa reynslu af trún­að­ar­störfum fyrir Efl­ingu og fjögur þeirra sitja þegar í stjórn Efl­ing­ar. Dan­íel er í dag rit­ari stjórn­ar.

Í kynn­ing­ar­efni um list­ann, sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, segir að hóp­ur­inn hafi öðl­ast beina reynslu af þeim miklu breyt­ingum sem hafa orðið í félag­inu síðan 2018 undir nýrri for­ystu, en Sól­veig Anna var fyrst kjörin for­maður Efl­ingar í febr­úar 2018. „Það sem sam­einar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að gera Efl­ingu að öfl­ugu vopni í kjara­bar­áttu lág­launa­fólks. Breyt­ingar í félag­inu okkar á síð­ustu árum hafa gefið okkur von og sann­fær­ingu um að þetta sé hægt. Skipu­lögð og ein­beitt bar­átta skilar árangri. Við viljum byggja á þeim grunni og þess vegna viljum við starfa í stjórn Efl­ingar undir for­mennsku Sól­veigar Önnu Jóns­dótt­ur."

Trún­að­ar­ráð Efl­ingar sam­þykkti á fundi sínum 13. jan­úar síð­ast­lið­inn til­lögu upp­still­ing­ar­nefndar um svo­kall­aðan A-lista, en Ólöf Helga Adolfs­dótt­ir, sem setið hefur sem vara­for­maður stjórnar Efl­ingar frá því að Sól­veig Anna sagði af sér, leiðir þann lista. Tveir aðrir núver­andi stjórn­ar­menn eru á þeim lista en Agni­ezka Ewa Ziólkowska, sem tók við for­mennsku í Efl­ingu eftir að Sól­veig Anna hætti, verður ekki í fram­boð­i. 

Guð­mundur Bald­urs­son, stjórn­ar­maður í Efl­ingu, hefur einnig boðað að hann ætli sér að leggja fram eigin lista. Því stefnir í að óbreyttu að þrír listar verði í boði fyrir félags­menn Efl­ingar í stjórn­ar­kjör­inu.

Þegar Sól­veig Anna bauð sig fyrst fram til for­manns Efl­ingar árið 2018, gegn A-lista upp­still­ing­ar­nefndar Efl­ing­ar, fékk list­inn sem hún leiddi 2.099 atkvæði en hinn list­inn 519 atkvæði. Listi Sól­veigar Önnu var svo einn í fram­boði árið 2020 og hún þá sjálf­krafa end­ur­kjörin for­mað­ur­.  

Vilja stór­auka áhrif Efl­ingar innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar

Kjarn­inn hefur fengið að sjá yfir­lit yfir helstu stefnu­mál Bar­áttu­list­ans, en stefnan er brotin niður í alls níu und­ir­flokka. Á meðal þess sem þar kemur fram er að list­inn vilji láta leiða í lög ákvæði um beint sjóðs­fé­lags­lýð­ræði í líf­eyr­is­sjóðum lands­ins að upp­fylltum ákveðnum skil­yrð­um. „Það þarf að stokka spilin upp á nýtt til að færa þetta ástand í rétt horf og stíga skref í átt að eðli­legu lýð­ræði. Bar­áttu­list­inn krefst þess að sjóð­fé­lagar í líf­eyr­is­sjóðum fái í hendur tæki til beinna áhrifa á ákvarð­ana­töku er varðar sam­fé­lags­á­byrgð og eðli­legt aðhald í rekstri án neit­un­ar­valds atvinnu­rek­enda.“

Í stefnu­skránni segir að of algengt sé að atvinnu­rek­endur nýti sér hótun um upp­sögn sem ögun­ar­tæki þegar verka­fólk óski eftir því að rétt­indi þess séu virt. „Hið mikla frelsi til upp­sagnar á ráðn­ing­ar­sam­bandi sem ríkir á íslenskum vinnu­mark­aði er í dag mis­notað af atvinnu­rek­end­um. Sem við­bragð við þessu vill Bar­áttu­list­inn láta inn­leiða án tafar við­ur­lög og sektir vegna van­greiddra launa og ann­arra brota á ákvæðum kjara- og ráðn­ing­ar­samn­inga.“

Þá vill list­inn stór­auka áhrif Efl­ingar innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. „Efl­ing­ar­fé­lagar eru yfir 40 pró­sent af félags­fólki í Starfs­greina­sam­bandi Íslands (SGS) og yfir 20 pró­sent af félags­fólki í Alþýðu­sam­bandi Íslands. Efl­ing greiðir nú yfir 130 millj­ónir króna á ári í félags­gjöld til SGS og ASÍ, þar af yfir 90 millj­ónir til þess síð­ar­nefnda. Áhrif Efl­ing­ar­fé­laga á ákvarð­ana­töku og stefnu þess­ara lands­sam­banda eru hins vegar hvorki í sam­ræmi við fjölda félags­manna né þær miklu greiðslur sem þeir greiða til þeirra.“

Bar­áttu­list­inn vill að lagt verði mat á ávinn­ing Efl­ing­ar­fé­laga af þátt­töku í lands­sam­böndum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. „Þar verði horft til áhrifa Efl­ing­ar­fé­laga í hlut­falli við fjölda þeirra og þær háu greiðslur sem þeir greiða til sam­band­anna. Bar­áttu­list­inn vill einnig taka inn í mynd­ina að hve miklu leyti lands­sam­böndin þjóna í reynd hags­munum verka- og lág­launa­fólks.“

Ætla að berj­ast gegn SALEK og „stand­andi gerð­ar­dómi“

Þá verði staðið gegn því sem list­inn kallar áform rík­is­stjórn­ar­innar og afla innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar um inn­leið­ingu á SALEK- fyr­ir­komu­lag­inu. SALEK stendur fyrir „sam­­starf um launa­­upp­­lýs­ingar og efna­hags­­for­­sendur kjara­­samn­ing­­ar“ og mark­miðið með sam­­starf­inu, sem stór hluti vinn­u­­mark­að­­ar­ins sam­­þykkti að taka þátt í árið 2015, var að auka kaup­mátt á grund­velli lágrar verð­­bólgu, lágra vaxta og stöðugs geng­­is. Auk þess átti sam­komu­lagið að stuðla að friði á vinn­u­­mark­aði og auknum stöð­ug­­leika. Eftir að nýtt fólk var kjörið í for­ystu stærstu stétt­­ar­­fé­laga lands­ins, VR og Efl­ingu, lifði þetta samn­ings­líkan ekki leng­i. 

Í stefnu­skránni er því hafnað í einu og öllu að verk­falls­réttur verði skert­ur, hvort sem það er með „stand­andi gerð­ar­dómi“ eins og talað er um í rík­is­stjórn­ar­sátt­mála eða öðrum leið­um. „Bar­áttu­list­inn vil að Efl­ing und­ir­riti kom­andi kjara­samn­ing með skýrum fyr­ir­vara um að hann sé upp­segj­an­legur ef Alþingi hreyfi á minnsta hátt við núgild­andi lag­ara­mma vinnu­mark­að­ar­ins eða taki skref í átt að SALEK.“

Vilja stór­á­tak í hús­næð­is­málum og lækkun líf­eyr­is­ald­urs

Á meðal ann­arra bar­áttu­mála list­ans eru kröfur sem munu bein­ast gegn stjórn­völdum við kom­andi kjara­samn­inga­gerð. Á meðal þeirra er að krefj­ast skuld­bind­ingar til útfærðra aðgerða, sem séu bæði tíma­settar og fjár­magn­að­ar, í hús­næð­is­mál­um, að skatt­byrði sé borin af þeim sem hana þola og bætur verði ekki bundnar ein­ungis við sára­fá­tæka. Þá lýsir list­inn yfir „sam­stöðu með bar­áttu öryrkja og eldri borg­ara gegn skerð­ingum og krefst taf­ar­lausrar hækk­unar á skerð­ing­ar­mörk­um, sem í dag eru alltof lág.“

Þá vill list­inn að líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, vinnu­mark­að­ur­inn og þjóð­fé­lagið taki til­lit til aðstæðna erf­ið­is­vinnu­fólks og tryggi því sam­bæri­legt ævi­kvöld og öðru launa­fólki. „Leiðin til þess er að lækka líf­eyr­i­s­töku­aldur verka- og lág­launa­fólks sem unnið hefur lang­vinna erf­ið­is­vinnu. Bar­áttu­list­inn vill horfa til fyr­ir­mynda frá Norð­ur­lönd­unum þar sem einmitt þetta hefur verið gert.“

Ætla að fella ákvæði um ábyrgð stjórn­ar­manna á starfs­manna­haldi úr lögum

Í stefnu­skrá Bar­áttu­list­ans er ýmis­legt sem snýr að innra starfi Efl­ingar og sér­stak­lega starfs­manna­málum félags­ins. List­inn vill meðal ann­ars auka hlut­verk félags­fólks sjálfs í skipu­lagi, und­ir­bún­ingi og utan­um­haldi tengt félags­legu starfi og efla og end­ur­skoða skipu­lag á fræðslu­málum félags­fólks. 

Þá segir að list­inn vilji koma á umbótum í starfs­manna­málum á skrif­stofu Efl­ing­ar, meðal ann­ars með því að taka upp gagn­sætt launa­kerf­i, inn­leiða jafn­launa­vottun og ljúka vinnu við ítar­lega starfs­manna­hand­bók og yfir­ferð starfs­lýs­inga. „­Stjórn fái reglu­lega heild­ar­mynd af stöðu starfs­manna­mála, svo sem nið­ur­stöðum starfs­á­nægjukann­ana og tölum yfir launa­kostn­að, stöðu­gildi og starfs­manna­veltu. Mönn­un­ar­þörf starf­sem­innar verði metin reglu­lega. Stjórn fjalli um og veiti sam­þykki fyrir stefnu­mark­andi ákvörð­unum í starfs­manna­haldi, svo sem launa­kerfi, starfs­manna­stefnu og starfs­manna­hand­bók. Byggð verði upp heil­brigð vinnu­staða­menn­ing sem tekur til­lit til eðli starf­sem­innar og teikn­aður upp ítar­legur sátt­máli um góð sam­skipti innan vinnu­stað­ar­ins.“

Bar­áttu­list­inn vill einnig að ábyrgð fag­lega ráð­inna yfir­stjórn­enda á dag­legum rekstri skrif­stofu Efl­ingar verði áréttuð og skýrð. „Þetta verði end­ur­speglað í lögum félags­ins, byggt á fyr­ir­myndum ann­arra íslenskra stétt­ar­fé­laga á borð við VR. Úrelt ákvæði um beina ábyrgð stjórn­ar­manna á starfs­manna­haldi (t.d. 11. grein) verði felld út úr lögum Efl­ing­ar. Stjórn setji sér starfs­reglur um aðkomu hennar að rekstr­ar­mál­um, þar með talið áætl­ana­gerð og eft­ir­lit, þar sem skýrt verði með hvaða hætti stjórn sé upp­lýst um rekstr­ar­mál og hvernig hún veiti aðhald varð­andi þau.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar