Þjóðkirkjan hafnaði á föstudag beiðni innanríkisráðuneytisins um áframhaldandi niðurskurð. Hún vill að ríkið standi við hið svokallaða krikjujarðasamkomulag sem gert var árið 1997. Í því samkomulagi fólst að Þjóðkirkjan afhenti ríkinu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna Biskupsstofu. Samkvæmt frétt á heimasíðu Þjóðkirkjunnar var land undir Garðabæ og fleiri jarðir sem stór hluti bæjarfélaga stendur nú á á meðal þeirra jarða sem afhentar voru. Síðar bættist jörðin Þingvellir við.
Frá bankahruni hefur verið veittur afsláttur af þessu samkomulagi og Þjóðkirkjan áætlar að sá afsláttur nemi um 2,5 milljörðum króna. Nú vill kirkjan ekki lengur veita afslátt og náist ekki samkomulag milli innanríkisráðuneytisins og kirkjunnar um framlögin mun málið fara fyrir gerðardóm.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hún vonist eftir að samkomulag náist. Leiða verði að leita til að mæta kröfum kirkjunnar með einhverjum hætti.
En hvað finnst almenningi um framlag ríkissjóðs til Þjóðkirkjunnar? Myndi hann vilja ráðstafa því fé með öðrum hætti?
Fær um fimm milljarða á ári
Þjóðkirkjan fær ansi veglegt framlag úr ríkissjóði á hverju ári. Á fjárlögum 2015 er gert ráð fyrir að hún fái 1,5 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum til að standa undir starfsemi sinni. Hún fær einnig 1,9 milljarða króna í svokölluð sóknargjöld, sem skiptast á milli trúfélaga. Öll önnur trúfélög á landinu fá samtals 324 milljónir króna vegna slíkra gjalda.
Þá greiðir ríkissjóður 273 milljónir króna í Kirkjumálasjóð, 72 milljónir króna í Kristnisjóð og 353 milljónir króna í Jöfnunarsjóð sókna. Rekstur kirkjugarða kostar loks skattgreiðendur um einn milljarð króna á ári. Samtals er því kostnaður ríkissjóðs á þessu ári vegna Þjóðkirkjunnar og starfsemi hennar 5,1 milljarður króna. Þó er vert að taka fram að hluti þess kostnaðar sem fellur til vegna reksturs kirkjugarða myndi áfram falla á ríkið þótt kirkjan yrði aðskilin frá ríkisbákninu.
Mest greiddi ríkið til Þjóðkirkunnar á árunum 2008 og 2009, þegar framlög námu 5,4 milljörðum króna hvort árið.
Mun fleiri vilja aðskilnað ríkis og kirkju
En vilja Íslendingar Þjóðkirkju?
Í mars birti Viðskiptaráð niðurstöður könnunar sem það lét gera á viðhorfi almennings til fjármögnunar stofnana og embætta á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að 55,6 prósent svarenda töldu að ríkið eigi ýmist ekki eða að mjög litlu leyti að fjármagna Þjóðkirkjuna. 17 prósent sögðu að ríkið ættið að fjármagna kirkjuna til helminga en 27,4 prósent töldu að Þjóðkirkjan eigi að miklu eða öllu leyti að vera fjármögnuð af ríkissjóði. Mikill munur var á svörum eftir aldri. Yngra fólk var mun síður hlynnt ríkisfjármögnun kirkjunnar en þeir eldri. Þá var einnig verulegur munur á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Framsóknarmenn studdu ríkisfjármögnun kirkjunnar mest allra en flestir Píratar voru á móti henni.
Gallup hefur einnig kannað hug almennings gagnvart aðskilnaði ríkis og kirkju árlega um nokkuð langt skeið. Árið 1996 voru 53 prósent fylgjandi aðskilnaði en 31 prósent voru á móti. Árið 2003 voru 59 prósent fylgjandi aðskilnaði en 29 prósent á móti. Árið 2009 voru 60 prósent hlynnt aðskilnaði en 20 prósent á móti. Árið 2012 voru 59 prósent hlynnt aðskilnaði en um fimmtungur var á móti. Í lok árs 2014 hafði dregið úr fjölda þeirra sem ertu hlynntir aðskilnaði, og hlutfall þeirra komið niður í 51 prósent. Hins vegar voru einungis um 30 prósent sem voru á móti aðskilnaði. Því er enn mikill munur milli hópanna.
Það hefur líka einu sinni verið kosið um hlutverk kirkjunnar í íslenskri stjórnskipan. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá sem fram fór í október 2012. Þar var ein spurningin orðuð með eftirfarandi hætti: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um Þjóðkirkju á Íslandi?“. Alls sögðu 51 prósent þeirra sem svöruðu þessari spurningu að þeir vildu slíkt ákvæði en 38 prósent sögðu nei. Þó er vert að taka fram að einungis 24,6 prósent þeirra sem voru á kjörskrá þennan októberdag 2012 svöruðu henni játandi.
Stöðugur flótti úr Þjóðkirkjunni
Það fækkað jafnt og þétt í Þjóðkirkjunni. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 gengu 1.357 fleiri úr henni en í hana. Alls skráðu 1.706 einstaklingar sig úr Þjóðkirkjunni en 309 í hana. Sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar fækkaði um 3,2 prósent á árunum 2005 til 2014. Þeir voru 250.759 talsins í upphafi þess tímabils en 242.743 í lok árs í fyrra. Á sama tíma fjölgaði Íslendingum um 35.523, en sú fjölgun skilaði sér ekki neinni aukningu á sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar. Fækkun þeirra sem kjósa að vera í Þjóðkirkjunni hefur raunar verið mjög stöðugur um lengra skeið. Lengi vel var skipulag á Íslandi með þeim hætti að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Langflestar mæður voru í Þjóðkirkjunni og því fjölgaði sóknarbörnum hennar nánast til jafns við fædda Íslendinga.
Nú er fyrirkomulagið hins vegar þannig að nýjum foreldrum er gert að velja hvaða trúfélagi þau vilja að börn þeirra tilheyri þegar nafn þeirra er skráð, eða hvort þau vilji að börnin standi utan trúfélags, ef foreldrarnir eru ekki skráðir í sama trúfélag og eru skráðir í sambúð eða hjúskap.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í Þjóðkirkjuna. Um aldarmótin var það hlutfall komið niður í 89 prósent og í dag er það 73,8 prósent. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan Þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í byrjun þessa árs voru þeir 86.357 talsins. Þeim hefur því fjölgað um rúmlega 55 þúsund á 15 árum.