Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu klukkan 4:10 í nótt þar sem tilkynnt var að íslenska ríkið væri að fara að eignast annan banka, Íslandsbanka, að öllu leyti. Fyrir á ríkið Landsbankann. Eini stóri viðskiptabankinn sem verður ekki nánast að fullu í ríkiseigu að loknu slitaferli gömlu bankanna verður því Arion banki.
Þetta var niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu á tímabilinu 25. september til 13. október vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna. Eftir þessar breytingar telur framkvæmdahópurinn að slitabú Glitnis sé að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og því séu forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum fyrir hendi. Og eftir þessa breytingu er íslenska ríkið orðið eigandi að tveimur af þremur stærstu bönkum landsins.
Ekki liggur fyrir um hversu mikið endanlegt stöðugleikaframlag mun hækka við þessa breytingu. Það kemur ekki í ljós fyrr en ríkið selur Íslandsbanka, ef það ákveður að gera það.
Kom ekki að öllu leyti á óvart
Tilkynningin kom ekki að öllu leyti á óvart, þótt óvenjulega mikil þögn hafi ríkt um innihald hennar. Kjarninn hefur greint frá því að undanförnu að slitabú bæði Kaupþings og Landsbankans séu langt komin með að sýna fram á að þau séu að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Sömu sögu hafi ekki verið að segja af Glitni, sem á að greiða hæsta stöðugleikaframlagið og setti fram flóknustu forskriftina til að koma framlaginu til skila.
Kjarninn hafði einnig greint frá því að mikill titringur hafi verið á meðal kröfuhafa að undanförnu, sérstaklega eftir að Seðlabankinn frestaði birtingu á Fjármálastöðugleikariti sínu. Þar átti að vera viðauki um þau stöðugleikaskilyrði sem slitabúin þurfa að greiða til að komast hjá 39 prósent stöðugleikaskatti og um nauðasamning þeirra. Á kynningarfundi vegna útkomu ritsins átti líka að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ættu sett stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Fjármálastöðugleikaritið var birt í síðustu viku en ekki viðaukin. Og nú er ljóst af hverju birtingu hans var frestað.
Þá var greint frá því á Bloomberg í gær að ólíklegt væri að íslensk stjórnvöld myndu taka þeim tilboðum sem stærstu kröfuhafar slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa lagt fram um að mæta settum stöðugleikaskilyrðum. Þetta hafði Bloomberg eftir tveimur embættismönnum sem tengjast ferlinu. Ekki var tilgreint hvaða tilboð um var að ræða. Í frétt Bloomberg sagði einfaldlega að stjórnvöld séu að miða við að stöðugleikaframlagið þurfi að vera um 470 milljarðar króna í útreikningum sínum, og því hafi of mikið borið á milli, en slitabúin hafa þegar samþykkt að greiða 334 milljarða króna.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Breyting á framlagi liggur ekki fyrir
Samkvæmt þeim tillögum sem lagðar voru fram af kröfuhöfum Glitnis í aðdraganda kynningar á áætlun stjórnvalda um losun hafta í júní var innbyggður hagur í því fyrir kröfuhafana að selja Íslandsbanka til erlenda aðila. Ef aðrir gjaldmiðlar en íslensk króna hefðu fengist fyrir bankann, miðað við bókfært virði hans, hefði slitabúið fengið 40 prósent af kaupverðinu og íslenska ríkið 60 prósent. Ef söluverðið yrði bókfært virði Íslandsbanka átti það að skila ríkissjóði 71 milljarði króna í erlendum gjaldeyri. Það er fé sem ríkið getur notað til að greiða niður skuldir sínar og lækka fjármagnskostnað. Til viðbótar átti slitabú Glitnis að greiða ríkissjóði 37 milljarða króna arðgreiðslu til að lækka eigið fé Íslandsbanka fyrir sölu.
Ef bankinn yrði seldur til innlendra aðila átti hins vegar að gefa út veðskuldabréf til ríkisins að andvirði 119 milljarðar króna. Skuldabréfið átti að vera til þriggja ára og ber 5,5 prósent vexti. Ríkið átti að fá þriðjung þess söluhagnaðar sem yrði til á bilinu 85 til 119 milljarðar króna. Upphæðin átti síðan að hækka eftir því sem Íslandsbanki selst fyrir meira fé. Þótt um sé að ræða hærri upphæð í krónum talið en ef Íslandsbanki yrði seldur til erlendra aðila var þetta fé ekki jafn „verðmætt“ fyrir íslensk stjórnvöld vegna þess að það er ekki hægt að nota það til að greiða niður erlendar skuldir, líkt og væri hægt með gjaldeyrinn sem erlendir kaupendur myndu borga með.
Samkvæmt þessari áætlun taldi slitabú Glitnis að mæting stöðugleikaskilyrða muni kosta kröfuhafa þess 205,4 til 254,4 milljarða króna. Og að líklegast yrði að kostnaðurinn yrði nær lægri mörkunum.
Þær breytingar sem ferðar hafa verið á samkomulagi kröfuhafa Glitnis og stjórnvalda, og kynntar voru í nótt, fela eftirfarandi í sér:
- Sem hluti af stöðugleikaframlagi mun Glitnir afsala öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95 prósent hlutafjár Íslandsbanka hf., til stjórnvalda. Vegna þessarar breytingar falla eftirfarandi þættir í fyrri tillögum kröfuhafa Glitnis niður:
- Afkomuskiptasamningur um arðsemi hlutafjár Íslandsbanka;
- Skilyrt skuldabréf að fjárhæð 119 milljarðar króna;
- Arðgreiðsla Íslandsbanka í erlendum gjaldeyri að fjárhæð 16 milljarðar króna til Glitnis og aðrar fyrirhugaðar arðgreiðslur.
- Framsal lausafjáreigna, reiðufjár og ígildi reiðufjár, mun samkvæmt framangreindri tillögu lækka um 16 milljarða króna vegna fyrirhugaðrar arðgreiðslu í erlendum gjaldeyri til Glitnis, sem ekki verður af, og 36 milljarða króna vegna annarra breytinga sem felast í endurskoðuðum tillögum kröfuhafa Glitnis. Umbreyting innlána Glitnis í erlendum gjaldeyri í Íslandsbanka í staðlaða skuldabréfaútgáfu mun taka mið af sérstöku samkomulagi Glitnis og Íslandsbanka. Glitnir mun greiða fyrir og eignast fyrirgreiðslu ríkissjóðs við Íslandsbanka sem veitt var í formi víkjandi skuldabréfs í erlendri mynt á nafnvirði auk greiðslu áfallinna vaxta.
Ekki er ljóst hversu miklu fé til viðbótar þetta fyrirkomulag mun skila íslenska ríkinu. Það ræðst vitanlega á því hvað fæst fyrir Íslandsbanka þegar hann verður seldur.
Lengi staðið til að selja erlendum aðilum
Það hefur lengi staðið til hjá Glitni, og helstu kröfuhöfum bankans, að reyna að selja Íslandsbanka til erlendra aðila. Viðræður við nokkra hópa höfðu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna rituðu undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar síðastliðnum. Þá hafa einnig verið kannaðir möguleikar á því að skrá Íslandsbanka á markað erlendis, annað hvort í Svíþjóð eða Noregi, og koma að minnsta kosti hluta af eignarhaldi hans í erlenda eigu með þeim hætti.
Í júlí var meira að segja tilkynnt um rammasamkomulag um samstarf milli Glitnis og Íslandsbanka svo að slitameðferð þess fyrrnefnda myndi ná fram að ganga. Í rammasamkomulaginu var meðal annars kveðið á um að sala Íslandsbanka til íslenskra fjárfesta yrði takmörkuð.
Það er líka áhugi hjá stjórnendum Íslandsbanka á því að fá erlenda eigendur. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í júní að það væri ágætt ef einn banki væri í erlendri eigu að hluta eða algjörlega. Hún hafi greinilega orðið var við áhuga erlendra fjárfesta á Íslandsbanka. „Ég hef kynnt bankann fyrir utan Ísland og mér finnst ótrúlega gaman að heyra að það er áhugi á eignarhaldinu frá ýmsum aðilum[…]En auðvitað er þetta alltaf spurning um verð. Við höfum náttúrulega verið að skoða hvort skráning erlendis kæmi til greina og rætt við fjárfesta tengda því. Ég held að það séu mismunandi hópar, sem hafa velt þessu fyrir sér. Það væri ágætt að einn banki væri í erlendri eigu að einhverjum hluta eða algjörlega. Það myndi auka fjölbreytnina“
Erlent eignarhald á banka umdeilt
Ljóst var þó að sala á Íslandsbanka var umdeild og margir leikendur í íslensku viðskiptalífi sjá sér hag í að bankinn verði seldur innlendum aðilum. Íslandsbanki á gríðarlegt eigið fé (185 milljarða króna um mitt þetta ár), er með mikla markaðshlutdeild og getu til að vaxa. Því er skiljanlegt að margir íslenskir fjárfestar horfi hýru auga til bankans.
Það hefur einnig verið pólitísk andstaða. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook þann 9. júní að honum þætti afar „einkennilegt að það geti samrýmst markmiðum um efnahagslegan stöðugleika og þjóðarhagsmuni að selja erlendum aðilum bankana“. Ástæðan væri sú að erlendur kaupandi gæti sogað hundruði milljarða króna í gjaldeyri út úr hagkerfinu í formi arðgreiðslna. Það var reyndar svo, samkvæmt samþykktri tillögu Glitnis um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda, að þau geta gert kröfu um takmarkanir á arðgreiðslum í gjaldeyri til erlendra eigenda til að verja greiðslujöfnuð.
Slitabú föllnu bankana eiga Íslandsbanka og Arion banka að mestu leiti og áforma að selja þá á þessu ári ef aðstæður...Posted by Frosti Sigurjonsson on Tuesday, June 9, 2015
Þá hefur InDefence-hópurinn, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilheyrði einu sinni, gagnrýnt það ferli sem átt hefur sér stað eftir kynningu á áætlun um losun hafta. Hópurinn telur skorta á upplýsingagjöf og gagnsæi og telur kröfuhafar vera að fá ódýra leið út úr höftum sem muni skerða lífskjör almennings.
Hver mun halda á hlutnum?
Nú er ljóst ekkert verður af því að Glitnir selji Íslandsbanka. Engar upplýsingar voru um það í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem send var út í nótt hvað ríkið mun gera við þessa nýju eign sína. Þ.e. hvort það hyggist eiga hann eða hvort hann eigi að seljast.
Þá er eignarhald ríkisins á nýjum banka einnig athyglisvert í ljósi þess að í frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram á síðasta þingi, var gengið út frá því að Bankasýsla ríkisins, sem heldur á hlutum ríkisinsí fjármálafyrirtækjum, yrði lögð niður um áramót og eignarhlutir ríkisins í bönkunum færðir beint undir ráðherrann. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er ennfremur ekki gert ráð fyrir því að Bankasýslan fái eina krónu frá ríkinu.
Þrátt fyrir þetta auglýsti Bankasýsla ríkisins eftir starfsfólki í verkefni tengd fyrirhugaðri sölumeðferð ríkisins á eignarhlut í Landsbankanum hf. í lok síðustu viku. Bankasýslan óskaði eftir sérfræðingi í eignaumsýslu og lögfræðingi og hyggst ráða tvo til þrjá einstaklinga í tímabundin verkefni.