Í liðinni viku átti hrunið sjö ára afmæli. Sjö ár liðin frá því að sturlunargóðærið sprakk framan í neysluóða þjóð þjakaða af meðvirkni með raunveruleikahvelli og tilheyrandi skerðingu á lífsgæðum. Í huga margra átti hrunið að marka ákveðin vatnaskil. Það átti að vera minnisvarði um samfélagsgerð spillingar, frændhygli, ójöfnuðar og óhofsgræðgi sem íslenskt samfélag ætlaði sér að útrýma.
Síðasta vika var mikil fréttavika. Fréttamiðlar voru bókstaflega í vandræðum með að segja almennilega frá öllu sem átti sér stað. Og mörg þeirra mála sem upp komu eru góður mælikvarði á hversu vel okkur hefur tekist að byggja upp betra íslenskt samfélag á undanförnum sjö árum.
Það er gott að vera pilsfaldarkapítalisti
Á þriðjudag var kynntur nýr vegvísir ferðaþjónustunnar á Íslandi. Kynningin fór fram með viðhöfn í Hörpu þar sem forvígismenn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sögðu meðal annars að tilbúningur á nýrri stofnun, Stjórnstöðvar ferðamála, væri svarið við þeim vaxtaverkjum sem Ísland stendur frammi fyrir vegna ótrúlegrar aukningar á fjölda ferðamanna. Síðar kom í ljós að Stjórnstöðin er reyndar ekki stofnun heldur einhverskonar semí-stofnun, fjármögnuð til helminga af SAF og ríkinu. Áætlaður árlegur kostnaður er 140 milljónir króna.
Ráðgjafafyrirtækið LC ráðgjöf var fengið til að móta stefnuna í ferðamálum. Fyrir það greiddi ráðuneytið 14,6 milljónir króna. LC ráðgjöf er raunar uppáhaldsráðgjafarfyrirtæki fleiri ráðuneyta innan sitjandi ríkisstjórnar. Það hefur einnig unnið fyrir Landsspítalann og mennta- og menningarmálaráðuneytið að mjög ólíkum verkefnum. Samkvæmt fréttaflutningi eru greiðslur til þessa fyrirtækis á undanförnum árum farnar að nálgast 70 milljónir króna. Eigandi fyrirtækisins er Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Eini starfsmaður þess utan Guðfinnu er eiginmaður hennar.
Þungavigtarmenn eru mikilvægir
Þegar lúðrarnir þögnuðu í Hörpu fóru ansi margir að spá betur í því sem fyrir þá hafði verið borið. Sérstaklega þá staðreynd að þegar var búið að ráða framkvæmdastjóra, Hörð Þórhallsson, yfir hina nýju Stjórnstöð ferðamála. Starfið var ekki auglýst.
Ragnheiður Elín sagði í Facebook-færslu að frumkvæðið að ráðningu Harðar hefði komið frá SAF. Í svörum atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið kemur hins vegar skýrt fram að hann var ráðinn af ráðuneytinu. Samningur Harðar er því við hið opinbera, ekki SAF.
Ragnheiður Elín rökstuddi einnig ráðninguna með því að Hörður væri „þungavigtarmaður“. Hann er svo mikill þungavigtarmaður að hann fær um tvær milljónir króna í laun á mánuði fyrir að stýra hálf-opinberri Stjórnstöð ferðamála. Það eru töluvert hærri laun en t.d. forsætisráðherra þjóðarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fær fyrir að stýra henni allri. Sigmundur Davíð er nefnilega með um 1,3 milljónir króna á mánuði.
„Þungavigt“ er huglægt hugtak þegar verið er að nota það í öðrum tilgangi en skilgreiningu á þyngdarflokki í bardagaíþróttum. Þótt nýi framkvæmdastjórinn hafi starfað í mörgum útlöndum fyrir hönd lyfjageirans þá hefur hann enga reynslu af ferðamálum. Það er því mjög langt seilst að ætla honum „þungavigt“ í þeim fræðum.
Það vakti athygli þegar Stundin birti mynd af nýja framkvæmdastjóranum þar sem hann snæðir kvöldmat í góðum félagsskap árið 2013. Með honum í kvöldmatnum eru, samkvæmt myndatexta, m.a. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og annar ritstjóra Morgunblaðsins. Og Stundin greindi einnig frá því að Hörður sé landsfundarfulltrúi á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hörður hefur hins vegar komið því á framfæri að það sé ekki rétt.
Það gerir framkvæmdastjóra Stjórnstöðvarinnar að sjálfsögðu ekki vanhæfan til að gegna starfi sínu að þekkja menn sem tengjast stjórnmálum. Og vel getur verið að Hörður sé afar fær maður. En það er tortyggilegt þegar maður með enga reynslu af ferðaþjónustu er ráðinn án auglýsingar af stjórnmálamönnum til að þiggja mjög há laun við stýra apparati sem er búið til af hinu opinbera.
Fjárhagslegt hæði virðist teygjanlegt hugtak
Næsta stóra mál á dagskrá í vikunni voru vandræði Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Hann hefur verið í vandræðum frá því í vor vegna þess að Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy, leysti ráðherrann úr fjárhagslegri snöru með því að kaupa íbúðina hans og leigja honum það aftur. Illugi hafði auk þess starfað við óskilgreinda ráðgjöf hjá fyrirtækinu og Stundin hafði greint frá því að Illugi hefði fengið þriggja milljóna króna í lán frá því. Þessi skýru fjárhagslegu tengsl voru að valda Illuga vandræðum vegna þess að hann aðstoðaði, sem ráðherra ríkisstjórnar Íslands, umræddan Hauk og fyrirtæki hans við að opna viðskiptalegar dyr í Kína í opinberri ferð þangað í mars 2015.
Í hugum ansi margra gerir fjárhagslegt hæði Illuga hann vanhæfan til að sinna hurðaropnunum fyrir Hauk. Það er að minnsta kosti ekki hafið yfir allan vafa að fjárhagsleg hjálp Hauks við Illuga hafi haft áhrif á liðsinni ráðherrans við fyrirtækið Orku Energy. Og mánuðum saman leituðu fjölmiðlar svara við ýmsum spurningum um málið. Illugi ákvað að reyna að þegja málið af sér.
Í liðinni viku gat hann það ekki lengur og ákvað að fara í eitt blaðaviðtal við Fréttablaðið til að svara öllum spurningum hinna fjölmiðlanna sem höfðu leitað eftir svörum mánuðum saman. Í því viðtali svaraði hann reyndar fæstum þeirra spurninga sem vaknað höfðu í málinu heldur sagði ítrekað að ýmislegt væri fráleitt og bar á borð sína útgáfu af raunveruleikanum, þar sem ekkert við tengsl hans og Orku Energy var óeðlilegt.
Þetta herbragð Illuga og ráðgjafa hans gekk ekki betur en svo að hann var mættur aftur í viðtal við fréttastofu 365 miðla síðar sama kvöld til að veifa launaseðli sem sýndi að hann hefði ekki fengið lán hjá Orku Energy. Fyrirtækið hafði hins vegar greitt honum þrjár milljónir króna í fyrirframgreidd laun. Illugi þurfti síðan að mæta í viðtal hjá RÚV, fjölmiðlafyrirtækisins sem heyrir undir ráðuneyti hans, í dag til að útskýra að launin væru ekki fyrirframgreiðsla þótt það stæði á launaseðlinum.
Það sem stóð helst uppúr hinum völdu viðtölum við Illuga var sú viðurkenning hans á að Haukur væri einn af hans nánustu vinum. Samkvæmt stjórnsýslulögum getur „náin vinátta“ valdið vanhæfi við stjórnvaldsákvörðun. Þótt Illugi hafi ekki verið að taka stjórnsýsluákvörðun þá kann það samt sem áður að orka verulega tvímælis að beita opinberu valdi, þ.e. ráðherraembættinu, fyrir náin vin sinn.
Græðgi virðist ennþá vera góð
Í vikunni kláraðist hlutafjárútboð Símans. Að því loknu kom í ljós að hópur stjórnenda, vinafjárfesta þeirra og vildarviðskiptavina Arion banka sem fengu að kaupa samtals tíu prósent hlut í Símanum á sjö vikna tímabili fyrir útboð, hefðu ávaxtað pund sitt um 720 milljónir króna. Það var Arion banki, sem er í þrettán prósent eigu ríkisins og að rest í eigu slitabús í miðri nauðasamningagerð, sem ákvað að færa þessum hópi þessa ávöxtun. Hvaðan umboð stjórnenda bankans til þess kemur liggur ekki alveg fyrir.
Það var líka haldin kynning í vikunni sem sýndi að eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér um 50 milljarða króna í arð frá árinu 2008. Í fyrra var metár þegar þeir gátu borgað sér 13,5 milljarða króna í arð. Veiðigjöld sem þeir greiða í sameiginlega sjóði hafa hins vegar hríðlækkað frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Þau voru 9,7 milljarðar króna árið 2013 en eru áætluð 5,3 milljarðar króna í ár.
Svo var slatti af fyrrum bankamönnum á Íslandi dæmdir í fangelsi fyrir efnahagsbrot, sumir ekki í fyrsta sinn. Þeir eru allir mjög fúlir yfir því að hafa verið dæmdir til fangelsisvistar, eða í sumum tilfellum Crossfit-æfinga, og skiptast á að kæra til mannréttindadómstóla og endurupptökunefndar milli þess sem þeir líkja sér við sakborninga í Geirfinns-málinu. Á sama tíma gefur fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna út bók þar sem hann segir það reginmistök að Bandaríkjamenn hafi ekki saksótt fleiri stjórnendur banka í kjölfar hrunsins. Skýr gögn bendi nefnilega til augljósra lögbrota.
Já, liðin vika var viðburðarrík. Það er hægt að spegla sig í ansi mörgu sem í henni gerðist og spyrja sig hvort við höfum lært eitthvað af fyrri mistökum sem samfélag eða hvort að sama spillingin, frændhyglin, ójöfnuðurinn og græðgin sé enn til staðar líkt og var árið 2007?
Mín skoðun á því er að minnsta kosti skýr.
Breytt klukkan 13:12 12. október:
Í leiðaranum var vísað í frétt Stundarinnar þar sem sagði að Hörður Þórhallsson væri landsfundarfulltrúi á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hörður hefur komið því á framfæri við Kjarnann að það frétt Stundarinnar þess efnis sé ekki rétt. Leiðaranum hefur verið breytt í samræmi við þá ábendingu.