Helgi Hrafn Gunnarsson hefur verið þingmaður í tæp þrjú ár. Á þeim tíma hafa Píratað sjöfaldað fylgi sitt í skoðanakönnunum og mælist flokkurinn nú með yfir 40 prósenta fylgi sem mundi skila þeim tæplega 30 þingmönnum. Það er því ekki ólíklegt að helstu baráttumálin - lýðræðisumbætur og frumvarp stjórnlagaráðs, verði í forgangi á næsta kjörtímabili.
Vald er viðbjóður
Að óbreyttu segist Helgi Hrafn ætla að bjóða sig aftur fram á næsta kjörtímabili, en gerir það þó ekki með bros á vör.
„Mig langar ekki að bjóða mig fram aftur. En það verða allir svo reiðir við mig ef ég segist ekki ætla að gera það svo ég verð að sýna lágmarksmeðvirkni í því,” segir hann. „Og mig langar ekkert að verða ráðherra. Ég vil ekki einu sinni verða óbreyttur þingmaður, en auðvitað snýst þetta um að ná fram okkar markmiðum. Ég er mjög feginn að hafa áttað mig á því áður en ég fór fram að maður þarf að setja allt lífið í þetta djobb. Maður þarf að vera reiðubúinn ógeðslegri umfjöllun, að það sé logið upp á mann og að fólk sé leiðinlegt. Framboð þarf að nálgast með gríðarlega mikilli auðmýkt gagnvart lífinu og þekkja muninn á því sem maður getur stjórnað og ekki. Svo kemur alltaf í ljós að fæstu getur maður stjórnað en maður getur alltaf brugðist rétt við. Það er í rauninni eina valdið sem maður hefur í þessum pólitíska raunveruleika og það er mikilvægt að vera meðvitaður um það,” segir Helgi Hrafn.
Hann segist hafa fullkomna óbeit á völdum, hvaðan sem þau koma.
„Mér finnst fyrirbærið vald svo viðurstyggilegt að ég vil helst ekki hafa það í mínu lífi. Vald er ógeð. Vald er viðbjóður. En ef ég næ að eyða nokkrum árum, hvort sem þau eru fjögur eða átta, í að bæta þetta allt, þá skal ég alveg gera það,” segir hann.
Vald er ógeð. Vald er viðbjóður. En ef ég næ að eyða nokkrum árum, hvort sem þau eru fjögur eða átta, í að bæta þetta allt, þá skal ég alveg gera það.
Dauðöfundar Jón Þór
Jón Þór Ólafsson var þriðji þingmaður Pírata á undan Ástu Guðrúnu Helgadóttur. Jón Þór gaf það út fljótlega eftir að hann settist á þing að hann mundi hætta eftir hálft kjörtímabil - og stóð við það. Hann fór að vinna í gatnaviðgerðum og sem stöðumælavörður. Birgitta Jónsdóttir sagðist aðeins myndu sitja á þingi í tvö kjörtímabil en virðist nú vera að snúast hugur. Helgi Hrafn vill ekki hafa skoðun á setu annarra þingmanna.
„Ég skil Jón Þór mjög vel og dauðöfunda hann að mörgu leyti. Þó að maður eigi ekki að vorkenna sér of mikið þegar maður er í forréttinda- og valdastöðu, þá sakna ég þess að vera búinn í vinnunni klukkan fimm. Þetta eru miklar tarnir, stundum brjálað álag stundum og svo ekkert. Og ég er ekkert svo viss um að það sé mjög hollt til lengdar, hvorki fyrir líkama né sál. Þú veist aldrei hvað er að fara að gerast, maður þarf alltaf að vera viðbúinn hverju sem er og fyrirsjáanleikinn er lítill sem enginn. Það eina sem er víst er að við verðum áfram 5,1 prósent flokkur fram að næstu kosningum.”
Stórfjölskyldurnar komu Pírötum á þing
Eins og Helgi Hrafn bendir á munaði tæplega 200 atkvæðum í síðustu kosningum að Píratar næðu á þing yfir höfuð. Þingflokkurinn hlaut 5,1 prósent atkvæði og þrjá þingmenn.
„Það munaði þarna um stórfjölskyldur frambjóðenda. Í næstu kosningum, ef við náum 10 prósenta fylgi, er það samt stórsigur og ákveðin lúxusstaða að vera í,” segir Helgi Hrafn.
Píratar eru hins vegar ekki byrjaðir að manna listana, en fjöldinn allur af aðildarfélögum flokksins birtast þessa dagana víðsvegar um landið. „Þau spretta upp eins og gorkúlur núna. Að óbreyttu ákveða þau svo bara sína lista og það verða bara venjuleg prófkjör eftir kjördæmum, nema við notum örlítið aðra reiknireglu en aðrir.” Hann segist engar áhyggjur hafa af því að listar Pírata fyllist af ónýtum þingmönnum.
„Margir sem eru sagðir hafa slysast inn í gegn um Framsókn eru bara mjög fínir þingmenn. Þeir fá bara kannski ekkert að njóta sín vegna þess hvernig Framsóknarflokkurinn virkar,” segir hann. Það sé hins vegar engin leið fær til að átta sig á hvernig fólk muni standa sig sem þingmenn.
„Allir hæfileikar og kostir geta komið manni vel í starfinu, að sama skapi og allir breyskleikar og gallar geta skemmt fyrir. Allt sem er hluti af persónu manns hefur tilhneigingu til að skipta miklu meira máli í pólitík heldur en í öðrum störfum. Ef þú ert til dæmis ert pínu gleyminn eða utan við þig, getur það haft gígantískar afleiðingar því ákvarðanir sem þú tekur eru svo mikilvægar,” segir hann.
Ráðherrar snáfi af þinginu
Píratar samþykktu á fjölmennum fundi í vikunni að þeir fari ekki í ríkisstjórn nema ráðherrar séu utan þings. Helgi Hrafn fagnar því að þetta hafi verið samþykkt, enda eigi toppurinn á löggjafanum „ekki að fá framkvæmdavaldið í kaupbæti.” Það sé á skjön við þrískiptingu valdsins.
„Við gætum náð meiru af okkar stefnumálum í gegn með því að vera til dæmis með innanríkisráðherra, en ég fæ ekki betur séð að þær grundvallarbreytingar sem við viljum gera, séu ekki hlutir sem eru í höndum ríkisstjórnarinnar heldur Alþingis. Þeim mun mikilvægara er að ná að breyta því með þingmeirihluta, óháð ríkisstjórn,” segir hann.
Tveir gæjar uppí bústað í ríkisstjórnarleik
Varðandi mönnun næstu ríkisstjórnar er fátt um svör hjá Helga Hrafni.
„En það truflar mig mjög hvernig ráðherrar og forsetar þingsins eru valdir,” segir hann. „Eins og eftir síðustu kosningar fóru bara tveir gæjar upp í sumarbústað að ræða málin og ákváðu þar hver skildi vera forseti Alþingis. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra ákváðu bara hver átti að vera forseti Alþingis. Uppí bústað. Er þetta bara eðlilegt?“
Hann segist myndu láta sig hafa það að verða ráðherra sjálfur ef það yrði málstaðnum til bóta.
„Mig langar ekki til þess. Mig langar ekki að vera á þingi og enn síður að vera ráðherra,” segir hann. „En völdin hverfa ekki við það að maður hafi óbeit á þeim og þá er gott að þau séu nýtt sem best. Og ég skal hjálpa til við það í einhvern tíma upp að einhverju marki - þó að mig langi ekki til þess.“
RÚV-málið óforsvaranlegur andskoti og grímulaus spilling
Þó að Helgi Hrafn og samflokksmenn hans vilji losna við ríkisstjórnina af þingi á næsta kjörtimabili, þá situr hún nú sem fastast. Greint var frá því á Kjarnanum í gær að ekkert frumvarp frá ríkisstjórninni biði þess nú að vera tekið til umræðu á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur lagt fram 52 frumvörp á yfirstandandi þingi sem eru færri frumvörp en nokkur ríkisstjórn síðustu tuttugu árin hefur verið búin að leggja fram á sama tíma.
„Mér finnst ríkisstjórnin mjög léleg. Þar er af ýmsu að taka, en það sem situr mest í mér er meðhöndlunin á ESB-málinu. Að ríkisstjórnin leyfi sér að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu, eða tala þannig að allir skildu það svo að það ætti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla, en reyna svo að trukka þetta í gegn á meirihlutanum. Svo fór málið í nefnd, fjölmenn mótmæli og gríðarleg undirskriftarsöfnun, og allt kallaði á að það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla, en síðan fer utanríkisráðherra bara til Brussell með bréf því hann kemur málinu ekki í gegn um þingið. Hvað er að? Þetta er brjálæði, algjört brjálæði. Þetta er það hneykslanlegasta sem ég hef orðið vitni að og ég næ ekki hvernig þetta gat gerst og að það sé ekki allt brjálað yfir því. Nema það lýsir sér kannski í fylgiskönnunum.”
Helgi Hrafn segir afskipti stjórnmálamanna af starfsemi RÚV undanfarin misseri óforsvaranleg.
„Það þykir mér vera grímulaus spilling og ég er ekki enn að ná því hvernig Íslendingar eru að ná að sætta sig við þetta. Þetta er óforsvaranlegur andskoti.”
Það þykir mér vera grímulaus spilling og ég er ekki enn að ná því hvernig Íslendingar eru að ná að sætta sig við þetta. Þetta er óforsvaranlegur andskoti.
Ekki lengur nóg að henda peningum í fólk
Að mati Helga Hrafns láta stjórnarliðar eins og tímabilið frá 2008 til 2013 hafi aldrei átt sér stað. Mun fleira hafi verið í gangi heldur en að vinstri ríkisstjórn hafi verið við völd.
„Ýmislegt breyttist við hrunið og eftirköstin. Fólk missti trúna á jakkafötin. Það var ekki lengur hægt að vera fínn og kunna flókin orð til að vera trúverðugur,” segir hann. „Ef maður ber saman efnahagstölur frá sirka 2006 og til aldamóta við tölur dagsins í dag, kemur í ljós að íslenskt efnahagskerfi hefur það bara helvíti gott og skuldsetning heimila er ekkert verri en hún var mjög lengi, en þá var ekki allt brjálað eins og núna. Ég held að það sé vegna þess að fyrir hrun leið fólki ekki illa yfir að vera með 800.000 krónur í yfirdrátt. Nú vill fólk ekki skulda og viðhorfið er breytt. Það dugar ekki lengur að ausa peningum og fallegum orðum í almenning til að hann verði til friðs. Skattalækkanir, afnám tolla og leiðréttingar virka ekki lengur. Það er ekki lengur nóg að vera í jakkafötum og kunna fín orð. Fólk krefst þess að skilja hvað fólk er að segja, krefst þess að sjá gögn, og það vill ekki vera skuldugt upp fyrir haus til dauðadags.”
Píratar vilja ekki styttra þing
Í vikunni hafa verið fregnir af óeiningu innan flokksins, sem hafa komið fram á Pírataspjallinu. Helgi Hrafn hefur lýst samskiptunum eins og ofbeldissambandi, en gefur þó ekki mikið fyrir ágreininginn.
„Það hafa alltaf verið drama og leiðindi innan Pírata. En það þarf ekki sjálfsævisögu lítilla, róttækra flokka til að koma auga á innra ósætti hjá stjórnmálaflokkum. Okkar ágreiningur er allur uppi á borðinu og ég hef aldrei skilið af hverju við ættum að fela hann. Það er allt í lagi að menn séu ósammála svo lengi sem þeir séu ekki að drepa hvorn annan.”
Þá sé sá misskilningur í gangi að Píratar vilji styttra þing á næsta kjörtímabili. Það er hins vegar Birgitta Jónsdóttir sem er á þeirri skoðun, en Helgi Hrafn undirstrikar að tillagan hafi verið felld á aðalfundi og að hann sé ekki sammála Birgittu í þessu máli.
Stoltur miðjumoðari
Píratar hafa verið gagnrýndir fyrir skort á stefnumálum. Helgi Hrafn segir flokkinn þvert á móti hafa markað sér stefnu í öllum helstu málaflokkum og nefnir þar velferðar- og félagsmál, heilbrigðismál, umhverfismál, jafnréttismál, varnarmál, trúmál, samkeppnismál og efnahagsmál. Flokkurinn staðsetur sig hvorki til vinstri né hægri.
„Mér finnst til dæmis skrýtið að stjórnmálaflokkur geti bara almennt verið með eða á móti skattalækkunum. Það hlýtur að fara eftir aðstæðum í samfélaginu hverju sinni hvort það þyki æskilegt að hækka eða lækka skatta,” segir hann. „Núna er til dæmis bullandi þensla og samt er Sjálfstæðisflokkurinn að lækka skatta, sem maður ætti að gera þegar hægir á hagkerfinu. En þurfum við alltaf að tryggja það að VG sé við stjórn þegar á að hækka skatta og Sjálfstæðisflokkur við stjórn þegar á að lækka þá? Menn hafa kallað mig miðjumoðara, en það er líka bara titill sem ég get borið með stolti.”
Hinn sérlega hæstvirti ráðherra Ólöf Nordal
Þó að Helgi Hrafn vildi helst hverfa af þingi eins og fyrrverandi kollegi hans, Jón Þór, segir hann að stundum sé gaman í vinnunni. Sérstaklega þegar fólk nær að vinna saman og ná fram árangri.
„Eitt af því skemmtilegasta sem ég hef séð á þinginu var þegar Ólöf Nordal, hinn sérlega hæstvirti innanríkisráðherra sem ég hef miklar mætur á, tók sig til og birti valdbeitingarheimildir lögreglunnar. Bara vegna þess að við vorum að nöldra yfir því. Við þurftum ekki að komast til valda og trukka þetta í gegn á einhverju meirihlutabrjálæði. Þarna var bara rökræða, málið var skoðað, ráðherra komst að réttri niðurstöðu og bara gerði þetta. Stjórnmál eins og þau eiga að vera."
Eins og áður segir er fylgi Pírata nú í hæstu hæðum og nú er bara að bíða og sjá hvort eitthvað af því fylgi haldist fram að næstu kosningum.
„Við höfum sannað að afl sem berst fyrir lýðræðisumbótum og nýrri stjórnarskrá getur haldið mjög háu fylgi í langan tíma. Það er gríðarlega mikilvægt að það hafi gerst, sérstaklega upp á von unga fólksins í framtíðinni. Þetta tekur tíma og þetta er erfitt, en þetta er hægt. Við höfum sannað það.”